RNB ráðhús
RNB ráðhús

Mannlíf

Útvarpsvekjaraklukkan ennþá notuð
Frá vinstri: Laufey, Sigþór, Elfar Þór, Hanna Margrét og Sæmundur. Verðandi fermingarstúlkan Jana Margrét fyrir framan.
Laugardagur 15. mars 2025 kl. 06:15

Útvarpsvekjaraklukkan ennþá notuð

Neituðu að fermast nema allir fermdust á sama deginum

„Það er kannski skemmtileg tilviljun að við séum að ferma yngsta barnið okkar í ár,“ segja hjónin Laufey Margrét Magnúsdóttir frá Sandgerði, og Sæmundur Sæmundsson frá Garði. Þau rifjuðu upp fermingu sína en þar fyrir utan eru þau að ferma dóttur sína, Jönu Margréti, og munu herlegheitin fara fram í vor, n.t. 11. maí.

Sæmi var fyrri til að rifja upp sína fermingu enda tveimur árum eldri en eiginkonan.

VF Krossmói
VF Krossmói

„Ég er fæddur árið 1973 og reiknast því til að fermingardagurinn hafi verið árið 1987. Ég er úr Garði svo ég fermdist í Útskálakirkju ásamt 27 öðrum Garðbörnum. Ef ég reyni að rifja þetta allt saman upp þá finnst mér nú ansi líklegt að ég hafi að mestu verið að fermast vegna væntanlegra gjafa, það var ekki staðföst trúin sem hvatti mig áfram. Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson sem nú er Fríkirkjuprestur, fermdi okkur og var þetta hans fyrsta ferming í Garði. Ég get ekki sagt að ég muni eitthvað sérstaklega eftir sjálfri fermingarfræðslunni, það er orðið það langt síðan en ef maður myndi hitta fermingarsystkinin þá myndi eflaust eitthvað rifjast upp.

Veislan var haldin heima og líklega hafa um 70 manns mætt til að gleðjast með guttanum og var boðið upp á kaffiveitingar, mamma fékk einhverjar vinkonur með sér til að baka og var um mikla veislu að ræða, það man ég vel. Sú fermingargjöf sem ég man hvað best eftir er útvarpsvekjaraklukka en þær þóttu mjög fínar á þessum tíma, það skemmtilega er að ég á þessa klukku ennþá og nota hana. Ég fékk aðra minni vekjaraklukku, á hana sömuleiðis ennþá en nota hana svo sem ekki, ég næ að vakna af hinni. Ég fékk líka svefnpoka sem ég nota ennþá þegar ég þarf að gista í vörubílnum og svo fékk ég einhvern pening, það var töluverð fjárhæð man ég, sá peningur fór í skellinöðru og kom því í góðar þarfir.

Maður var auðvitað draugfínn þennan dag, í glænýjum jakkafötum og með blásið hár. Ég man að veðrið var mjög gott þennan dag, ég á ekkert nema góðar og skemmtilegar minningar frá deginum, það er gaman að rifja þetta upp,“ segir Sæmi.

Fékk nokkra hárblásara í fermingargjöf og þar var framtíðarfræinu sáð

„Ég fermdist tveimur árum síðar en Sæmi og fór athöfnin fram í Hvalsneskirkju í Sandgerði. Sr. Hjörtur Magni fermdi okkur líka, hann vildi dreifa okkur börnunum á tvo daga en við tókum það ekki í mál og hótuðum að fermast ekki ef við myndum ekki öll fermast á sama deginum! Sr. Hjörtur þurfti því að gefa eftir gegn okkur frekjudollunum og setti upp þrjár fermingar þennan dag. Hann sagðist aldrei ætla gera það aftur!

Sú fermingargjöf sem er hvað eftirminnilegust er klárlega gullhringurinn sem Siddi frændi gaf mér, hann er gullsmiður, varð einmitt 90 ára á dögunum og ég var afskaplega ánægð með hringinn. Ég á hringinn ennþá en hann passar ekki lengur, spurning hvort ég fari ekki með hann til gullsmiðs og láti stækka hann. Ég fékk nokkra hárblásara í fermingargjöf og spurning hvort fyrstu frækornunum að framtíðaratvinnunni hafi verið plantað þarna en ég er hárgreiðslukona. Ég fékk svefnpoka, skíði og sitthvað fleira en ekki svo mikinn pening.

Frændsystkinin Laufey og Unnar á fermingardaginn.

Ég og Unnar frændi minn héldum sameiginlega veislu og varð samkomusalurinn í Garðinum fyrir valinu. Í minningunni voru mjög margir í veislunni og var boðið upp á mat, bæði kalt hlaðborð en líka ýmsa smárétti, m.a. rækjukokteil sem ég var ekki hrifin af en annars var maturinn mjög góður, sem mömmurnar og vinkonur þeirra sáu um.

Það er kannski skemmtileg tilviljun að við erum einmitt að ferma Jönu Margréti dóttur okkar í vor, stóra daginn ber upp 11. maí. Við Sæmi komum með sitthvort barnið inn í sambandið, eigum tvö saman og eigum eftir að ferma þá yngstu, Jönu og hlökkum mikið til dagsins. Ætli verði ekki að viðurkennast að ég sé meira með puttana í undirbúningnum, ég stjórna þessu og skipa Sæma fyrir. Við fengum salinn í Sandgerðisskóla og verðum með mat, ég held að gestalistinn sé kominn í 130 manns. Jana segist vera fermast trúarinnar vegna en eflaust leiðist henni ekkert að fá gjafirnar, ég held að öll börn séu þannig. Hún vill hafa ýmsa smárétti í veislunni og að sjálfsögðu leyfum við henni að ráða því en ég mun hins vegar ekki taka í mál að rækjukokteill verði á boðstólnum,“ sagði Laufey að lokum.