VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Mikilvægt að kveikja ljósin smátt og smátt
Fjölmargir Grindvíkingar sóttu kynningarfund Járngerðar nýstofnaðra hagsmunasamtaka um uppbyggingu og framtíð Grindavíkur
Laugardagur 15. mars 2025 kl. 06:20

Mikilvægt að kveikja ljósin smátt og smátt

Grindvíkingar fái sjálfir að ráða meiru um framtíð bæjarins Upplýsingagjöf númer eitt, tvö og þrjú Tvær ógnir steðja að Grindavík

Fjölmargir Grindvíkingar sóttu kynningarfund Járngerðar nýstofnaðra hagsmunasamtaka um uppbyggingu og framtíð Grindavíkur. Fundurinn fór fram í Gjánni á laugardagsmorgun. Markmið Járngerðar eru þau að vinna markvisst að endurreisn Grindavíkur og að Grindvíkingar fái að taka þátt í ákvörðunum um framtíð Grindavíkur.

Atli Geir Júlíusson, fyrrum sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, stýrði fundinum. Hann tók einnig til máls í lok fundarins og sagði mjög mikilvægt að farið yrði í að kveikja ljósin smátt og smátt og að unnið yrði framtíðarplan, bæði til skemmri og lengri tíma. Ánægjulegt væri að búið væri að kveikja ljósin að Víkurbraut 62 þar sem bæjarskrifstofurnar eru til húsa, eins og segir í ítarlegri samantekt um fundinn á vef Grindavíkurbæjar.

Guðbjörg Eyjólfsdóttir, formaður Járngerðar, ávarpaði fundargesti. Hún gerði grein fyrir tilgangi félagsins.

VF Krossmói
VF Krossmói
Horfa fram á við

Guðbjörg Eyjólfsdóttir, formaður Járngerðar, ávarpaði fundargesti. Hún gerði grein fyrir tilgangi félagsins. Hún vill heldur horfa fram á við og vinna með öllum sem vilja samfélaginu vel, vinna að endurreisn Grindavíkur, ekki vinna gegn Þórkötlu, heldur með henni að því að glæða bæinn litríku mannlífi að nýju.

„Við ætlum að kalla til fundar við okkur ráðamenn, þingmenn og ráðherra, fulltrúa almannavarna og fleiri og við ætlum okkur svo sannarlega sæti við það borð og ætlumst til þess að á okkur verði hlustað,“ sagði Guðbjörg Eyjólfsdóttir. Með Guðbjörgu í stjórn Járngerðar eru þær Karitas Una Daníelsdóttir, Valgerður Ágústsdóttir, Guðfinna Magnúsdóttir og Erla Hjördís Ólafsdóttir.

Aðrir sem tóku til máls á fundinum voru m.a. Pétur H. Pálsson. Hann kom með sína sýn á hver ættu að vera næstu skref og tími væri kominn til þess að Grindvíkingar fengju sjálfir að ráða meiru um framtíð bæjarins. Málefni bæjarins hafi verið nálgast út frá þremur hliðum frá því hamfarir hófust; öryggi, atvinna og búseta. Öryggisþættinum hafi verið sinnt upp á 10 og mikil atvinnustarfsemi sé innan bæjarins. „Það er misskilningur að einhverjir aðrir þurfi að bera ábyrgð á okkur, við getum það og kunnum það og viljum það.“ Pétur sagði framkvæmdastjóra Þórkötlu ekki útiloka neitt varðandi búsetu á næstunni. Fara þarf yfir lög og reglugerðir svo liðka megi fyrir búsetu í bænum.

Pétur H. Pálsson kom með sína sýn á hver ættu að vera næstu skref og tími væri kominn til þess að Grindvíkingar fengju sjálfir að ráða meiru um framtíð bæjarins.

Tvær ógnir

„Það eru tvær ógnir sem ógna okkur, annars vegar að hraun renni yfir bæinn og hins vegar að það komi ekki fólk til baka. Og baráttan snýst um það núna, öryggi og atvinna er komið og núna er það búsetan,“ sagði Pétur. Hann sagði kominn tími á að Grindvíkingar, sem það vildu, fengju að máta sig til baka og prófa að vera í bænum. Til þess þyrfti að afhenda íbúum, sem það kjósa, lyklana aftur endurgjaldslaust til að byrja með. 

Sólveig Þórðardóttir, doktor í jarðskjálftaverkfræði og fyrrverandi framkvæmdastjóri Almannavarna, var með fróðlegt erindi. Sólveig hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum tengdum náttúruhamförum. Bæði hvað gert er fyrir hamfararir, á meðan á þeim stendur og síðan í kjölfarið, jafnvel mörg ár á eftir. Sólveig ræddi almannavarnakerfið og hversu þröngt það hugsar. Hugsunun nær ekki lengra en í fjöldahjálparstöðvar og svo taki í raun við eitthvað hyldýpi. Grindavík er ekki fyrsta samfélagið sem lendir í hamförum og verður ekki síðasta samfélagið heldur sem stendur frammi fyrir því að endurreisa samfélagið.

Félagslegir töfrar

Viðar Halldórsson, félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um hvað það er sem gerir samfélag að samfélagi. Hlutverk einstaklinga að búa til samfélag. Samskipti og samvera séu grundvallar stoðir samfélaga. Samfélög byggjast upp í gegnum samskipti fólks. Tók hann dæmi um samfélag sem lenti í hremmingum eftir hamfarir 2005, New Orleans í Bandaríkjunum og hvernig borgin var endurreist aftur. Eftir pælingar um hvort það ætti að endurbyggja hana eða ekki. Hvort íbúar ættu að flytja annað eða hvort byggja ætti upp aftur. Það sem var lykillinn þar var menningarauðurinn sem tónlistin var. Það þurfti einhvern neista og sá neisti var tónlistin sem fólk fór að safnast saman í kringum. Þetta gerist í gegnum samskipti íbúa, samveru og samtal. „Þetta eru félagslegir töfrar, þegar fólk kemur saman þá myndar það eitthvað nýtt, einhverja orku og afl sem blæs okkur byr í brjóst og lætur okkur líða vel,“ sagði Viðar m.a. í sínu erindi. 

Of miklar efasemdaraddir fá að heyrast

Vilhjámur Árnason, þingmaður, ávarpaði einnig fundinn og sagði það mikla gleðistund að vera í Grindavík á þessum fjölsótta fundi. Hann ræddi verkefnið framundan og að númer 1,2 og 3 sé upplýsingagjöf sem við þurfum öll að sameinast um. Hvernig ástandið er og hvað er í gangi. „Við þurfum að fá alla sem eru að fara að taka ákvarðanir með okkur, til þess að koma hingað og upplifa ástandið.“ Vilhjálmur sagði of miklar efasemdaraddir fá að heyrast um framtíð Grindavíkur. Þetta breytist um leið og fólk fær smá upplýsingar og kemur á staðinn þá snýst það alveg um leið. Passa þurfi að ekkert verði gert um okkur án okkar.

Vilhjálmur kom einnig inn á stjórskipulagið og hvaða stofnun ræður hverju sinni. „Hvenær ráða almannavarnir ríkislögreglustjóra? Hvenær ráða almannavarnir lögreglustjórans á Suðurnesjum? Hvenær ræður almannavarnardeild Grindavíkur? Hvenær ræður sveitarstjórn Grindavíkurbæ? Það verður ekkert gert um okkur – án okkar.“

Þess má geta að Björn Haraldsson, Bangsi í Bárunni, var byrjaður að leggja drög að stofnun hollvinafélags Grindavíkur, hann átti hugmyndina að nafninu, Járngerði. Hann varð bráðkvaddur fyrir stuttu og var útför hans í gær, föstudaginn 14. mars.

Þetta eru hugsanlega síðustu skrif Bangsa í Bárunni.

Hver þekkir Grindavík betur

Lykilatriði sé að svara því líka hver þessi aukna hætta sé í Grindavík þegar búið er að fara í öll þau verkefni sem hafa verið unnin, búið að fara í jarðkönnun, búin að gera varnargarðana, fá sjö eldgos til að læra af í ferlinu og hverju má eiga von á. Við séum búin að gera rýmingaráætlun, erum með rýmingarlúðra. Og hver þekkir Grindavík betur en við?  Þá sé önnur lykilspurning um ábyrgðina. „Hvenær berum við ábyrgð sjálf? Hvenær bera almannavarnir ábyrgð eða einhver allt annar? Af hverju eru allir að verja sig og banna okkur svo þeir verði ekki skammaðir? Hvar er þessi lagalega áhætta?“ sagði Vilhjálmur og talaði um að þetta væru grundvallarspurningar sem svör yrðu að koma við svo hægt væri að halda áfram.

Þessi umfjöllun birtist fyrst á vef Grindavíkurbæjar.