RNB atvinna
RNB atvinna

Mannlíf

Kíktu á ball í Stapa en sögðust hafa verið að æfa trúarjátninguna kvöldið fyrir fermingardaginn
Guðný og fjölskylda á fermingardaginn 1981.
Laugardagur 15. mars 2025 kl. 06:25

Kíktu á ball í Stapa en sögðust hafa verið að æfa trúarjátninguna kvöldið fyrir fermingardaginn

Guðný Kristjánsdóttir fermdist í Keflavíkurkirkju 25. apríl 1981. Prestur var Sr. Ólafur Oddur Jónsson. Hún segist hafa tekið ferminguna alvarlega, enda alin upp við góða trú. Myntbreytingin var sama ár og Guðný fermdist og hún fékk 750 krónur í fermingargjöf, sem þótti góður peningur þá.

Hvaða minningar standa sterkast eftir frá fermingunni þinni og fermingarundirbúningnum?

Ég tók lítinn þátt í fermingarundirbúningnum, mamma sá algjörlega um það allt. Kalt borð og svo fermingarterta í eftirrétt. Sígarettur og vindlar í þar til gerðum marmaraöskjum. Ég valdi reyndar kjólinn sjálf og á hann ennþá. Sterkasta minningin er auðvitað það að hafa játað trú mína og staðfest skírnarheit mitt fyrir guði og mönnum og aldrei séð neitt sérstaklega eftir því.

VF Krossmói
VF Krossmói

Hvernig fannst þér sjálfri fermingardagurinn þinn?

Ég man vel eftir fermingardeginum mínum. Vaknaði snemma þrátt fyrir að við vinkonurnar hefðum kíkt á ball í Stapann kvöldið áður en sögðumst auðvitað hafa verið hjá hver annarri að æfa trúarjátninguna! Fallegt veður þennan dag og ég fór í hárgreiðslu til Sigrúnar Hauks. Tilhlökkun fyrir fermingarveislunni mikil og foreldrar mínir lögðu mikla áherslu á það að ég spjallaði við gestina sem ég og gerði enda þekkti ég alla sem boðnir voru. 

Var fermingardagurinn eins og þú hafðir ímyndað þér?

Já við vorum auðvitað búin að vera í fermingarfræðslu allan veturinn hjá sr. Ólafi Oddi heitnum sóknarpresti og fór sú fræðsla fram í Gaggó. Ég las í upphafi athafnarinnar bænina „Drottinn ég er kominn í þitt heilaga hús“, gerði það hátt og skýrt og kann hana enn.

Guðný að gæða sér á fermingar veitingum.

Manstu eftir einhverri sérstakri gjöf sem þú fékkst eða einhverju öðru sem hafði sérstaka þýðingu fyrir þig?

Þetta ár var myntbreytingunni komið á og ég fékk 750 krónur í peningum sem þótti mjög gott. Svo á ég ennþá blómavasa sem vinafólk foreldra minna gáfu mér og ég held mikið uppá, bambushúsgögn voru í tísku og ég fékk svoleiðis frá mömmu og pabba og tjald frá systur minni.

Hver var tíðarandinn í kringum ferminguna þína – voru einhverjar sérstakar hefðir, tíska eða tónlist sem setti svip á þennan tíma?

Hefðin var bara sú að allir fermdust og héldu veislu. Ég tók þetta alvarlega enda alin upp við ágætis trú, fór reglulega í kirkju þar sem mamma söng í kirkjukórnum og fer enn mjög reglulega í messur. Líður vel í kirkju og ekki skemmir fyrir að hlusta þar á fallegan söng. Þegar ég fermdist var farið til altaris tveimur dögum eftir ferminguna sjálfa að kvöldi til. Tískan var í raun allskonar og við stelpurnar alls ekki allar eins. Ég hlustaði mest á Bob Marley og Stuðmenn voru líka í uppáhaldi.

Þegar þú lítur til baka, hvaða gildi eða lærdóm tókstu með þér úr fermingunni sem hefur fylgt þér í lífinu?

Ég hef haldið í mína trú síðan þá og börnin mín eru fermd að eigin vilja. Svo má ekki gleyma því að við sem fermdumst árið 1981 höfum haldið nokkur og góð fermingarafmæli sem er skemmtileg hefð hér fyrir sunnan.

Í fermingarhittingi með vinkonum.