RNB ráðhús
RNB ráðhús

Mannlíf

Kemur með öðruvísi reynslu inn á alþingi Íslendinga
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 15. mars 2025 kl. 06:00

Kemur með öðruvísi reynslu inn á alþingi Íslendinga

Safnarinn, sjómaðurinn og sjónvarpsmaðurinn Sigurður Helgi Pálmason flutti til Keflavíkur fyrir þremur árum og er nýjasti alþingismaður Suðurnesjamanna.

Sigurður Helgi Pálmason er einn af tengdasonum Reykjanesbæjar. Hann flutti í bæinn árið 2021, fór að vinna hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar, undi hag sínum sáttur en örlögin leiddu hann að pólitíkinni. Hann tók annað sæti á lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi og rauk inn á þing í síðustu alþingiskosningum. Að setjast á Alþingi er víst talsvert öðruvísi vinna en fólk vinnur dags daglega, Sigurður hefur þurft að setja sig inn í fjölmörg mál en gerir það á sinn máta. Hann segist aldrei ætla þykjast vita allt, heldur setja sig inn í málin og mynda sér málefnalega skoðun. Eins og nafn flokks hans ber með sér, hann er mættur á Alþingi til að vinna fyrir fólkið.

Sigurður kemur með óvenjulega  reynslu inn á Alþingi. Reynsla hans kemur úr skóla lífsins. Hann glímdi við lesblindu þegar hann var ungur svo hefðbundin skólaganga var ekki það sem hentaði honum best og líf hans þróaðist á þann máta að grunnskólaprófið er hans eina prófskírteini. Hins vegar hefur hann prófað margt atvinnulega séð og tamdi sér ungur að ekkert er ómögulegt og hann lætur vaða.

VF Krossmói
VF Krossmói
Hvernig kom það annars til að hann ákvað að sækjast eftir þingsæti?

„Aðstæður í minni fjölskyldu urðu þess valdandi að ég þurfti að glíma við heilbrigðiskerfið og ég kynnti mér málin til hlítar. Ég hafði samband við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins og lærði fullt af henni. Ég bauð henni aðstoð mína og þegar ég var að vinna að sjónvarpsþáttunum mínum, Fyrir alla muni, kom Stuðmaðurinn og þáverandi alþingismaður Flokks fólksins, Jakob Frímann Magnússon, í viðtal. Í spjalli við hann áttaði ég mig á að hugsanlega væri réttast fyrir mig að sækjast eftir að gerast þingmaður og í raun gerðust hlutirnir hratt á þessum tímapunkti.“

Ríkisstjórninni var slitið daginn eftir að ég hitti Jakob, ég hafði samband við oddvita Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, Ástu Lóu Þórsdóttur, og af stað var haldið! Fljótlega ákvað hún að ég myndi taka annað sætið og kosningabaráttan hófst. Ég ákvað að reyna hitta sem flesta og reiknast til að ég hafi keyrt um sex þúsund kílómetra á þessum mánuði!“

Við Ásta ákváðum að hætta með hefðbundnar kosningaræður með hljóðnema, vildum frekar setjast niður með fólkinu og tala við það og vorum mjög ánægð með hvernig það kom út. Ég skal alveg viðurkenna að fyrstu dagana var ég smeykur um að hafa verið að færast of mikið í fang, hvort þetta væri ekki allt of stórt verkefni fyrir mig en áttaði mig síðan á að Alþingi á að vera þverskurður þjóðfélagsins.“

Það þarf fólk eins og mig, fyrir fólk eins og þig

„Til að Alþingi virki þarf fólk eins og mig þangað inn. Ég kem með allt öðruvísi reynslu og hugsanlega aðra nálgun en vaninn er og ég mun einsetja mér að þykjast aldrei vita svarið ef ég veit það ekki. Ég mun afla mér fróðleiks um viðkomandi mál, sjá þau frá mismunandi sjónarhornum og taka svo vel upplýsta ákvörðun. Þetta var mjög erfitt fyrstu vikurnar en ég hef fundið mínar aðferðir við að komast vel inn í málin svo ég get ekki sagt annað en þingstarfið leggist mjög vel í mig. Í grunninn er ég ekki mjög pólitískur og hef tamið mér að kjósa fólk en ekki flokka, þess vegna má kannski segja að ég passi vel innan raða Flokks fólksins. Ég er ekki hrifinn af vinstri, hægri eða miðju snú í pólitík. Málefnin eiga að snúast um akkúrat það, málefnið, og við eigum ekki að mynda okkur skoðun út frá hvort við teljum okkur vera til vinstri, hægri eða í miðju í okkar pólitísku skoðun.“

Þingmenn Flokks fólksins.
Hvað er mikilvægast fyrir Suðurnes?

Sigurður telur að þegar sest er á Alþingi, þurfi oft að setja til hliðar það sem viðkomandi hafi lært eða myndað sér fyrirfram skoðun á. Þingmenn þurfi að vera með breiða sýn á málefnin.

„Stjórnmálamenn geta ekki vitað allt og þeir eiga að geta sagt að þeir viti ekki svarið við einhverri spurningu. Það fer ekkert eins mikið í taugarnar á mér og ef svarað er út í loftið, bara svo að það líti út fyrir að aldrei sé komið að tómum kofanum hjá viðkomandi. Stjórnmálamaðurinn á að geta sagt að hann viti ekki svarið en hann ætli sér að gera allt sem í valdi hans stendur til að komast að því. Ég mun temja mér slík vinnubrögð og vinna að heilindum.

Varðandi brýnustu málin hér á Suðurnesjum, þá tók ég eftir því þegar ég fluttist í bæinn árið 2021 að innflytjendamálin voru í ólestri því Reykjanesbær þurfti að taka á móti miklu fleiri innflytjendum en innviðirnir réðu við. Þetta vissu allir og sem betur fer virðast þessi mál vera komin í betra jafnvægi í dag.

Fólksfjölgun er hvergi eins mikil og hér og það blasir við að efla þarf atvinnustarfsemi. Ég myndi vilja sjá miðbæinn blómstra með öflugum fyrirtækjum og  þjónustu þar. Ég er ekki búinn að mynda mér skoðun á sameiningu sveitarfélaganna, það eru mjög skiptar skoðanir varðandi það og hvað sé brýnast fyrir Reykjanesbæ og Suðurnesin. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að eiga samtalið við fólk á svæðinu, heyra hvað það telji brýnast. Ég er varla búinn að slíta barnsskónum inni á Alþingi, ég hef ekki búið í Reykjanesbæ nema í rúm þrjú ár og er þess vegna ekki djúpt inni í öllum málum en ég hlakka til að setja mig inn í þau,“ segir Sigurður.

Sannfærður um framtíð Grindavíkur

Málefni Grindavíkur hafa verið ofarlega á baugi í nýja ríkisstjórnarsamstarfinu, Sigurður hefur talsvert verið í Grindavík og kynnt sér málin.

„Ég hef talsvert farið til Grindavíkur og hitt íbúa þar. Ég reyni að veita þeim eins miklar upplýsingar og ég get. Ég segi við Grindvíkinga eins og alla aðra, þeir sem kjósa að búa í Grindavík eru fullorðið fólk og eiga að fá að taka þessa ákvörðun sjálf. Grindvíkingar þekkja svæðið eins og fingurna á sér, þekkja allar útgönguleiðir ef eitthvað kemur upp á, svo í mínum huga á að leyfa fólki að ákveða þetta sjálft. Það á að taka tímamörkin af Þórkötluúrræðinu, þ.e. að Grindvíkingurinn þurfi ekki að taka svo stóra ákvörðun um að selja húsnæði sitt fyrir 31. mars næstkomandi. Ég hef ekki séð rökin fyrir því að þetta úrræði eigi einfaldlega ekki að vera í boði á meðan ástandið í Grindavík er eins og það er. Ég eins og aðrir vona að ekki verði annað gos, að þessu sé einfaldlega lokið því ég er sannfærður um að Grindavík mun byggjast hratt og örugglega upp þegar náttúran gefur grið. En hvort þessu er lokið er aukaatriði í huga sumra, þeim Grindvíkingum sem búa í bænum er alls ekki ógnað að þeirra mati. Þeir benda á þá staðreynd að aldrei hefur gosið undir Grindavík og varnargarðarnir breyta öllu. Kannski er eitthvað til í því en auðvitað yrði best að þessu ljúki, það gefur auga leið.“

Með flokksfélögunum Ragnari Þór og Ásthildi Lóu en hún er í 1. sæti í Suðurkjördæmi, Sigurður er í 2. sæti.

Vendipunktur í unglingavinnu á Vopnafirði

Sigurður Helgi ólst upp í Garðabæ en um tíma fluttu foreldrar hans á Vopnafjörð, þaðan sem faðir hans er. Hann lærði að vinna á Vopnafirði en þurfti að læra á erfiða mátann má segja.

„Ég mætti fyrsta daginn í unglingavinnuna og var hreinlega rekinn. Verkstjórinn sagðist engin not hafa fyrir mig og ég mátti fara heim með skottið á milli lappanna og man hversu mikið ég skammaðist mín, ég var algerlega miður mín. Svo hringdi hann um kvöldið og sagðist vera tilbúinn að gefa mér annað tækifæri. Þegar ég mætti daginn eftir skýrði hann út fyrir mér af hverju hann hefði rekið mig og þetta er ein sú besta lexía sem ég hef fengið á lífsleiðinni held ég bara, þarna lærði ég að vinna. Við pabbi fluttum svo á Árskógsströnd og þar vann ég í saltfiski og ég prófaði að fara á sjó en önnur eins sjóveiki hafði varla sést! Þetta var opið línuskip og við fórum í snælduvitlausu veðri, það slæmu að ákveðið var að hætta að draga línuna og halda í skjól. Ég ældi stöðugt, hvort sem ég var að vinna eða á frívakt og held ég geti haldið því fram að sjóveiki er einhver sú agalegasta veiki sem til er! Sjómannsferillinn var því stuttur en ég lærði mikið af því að vinna hjá þessum útgerðarmanni, Pétri en hann var líka með saltfiskverkunina. Hann kenndi mér að vaða einfaldlega í verkin, ekki bíða eftir skipun og sýna gott frumkvæði, ég vil meina að það hafði fylgt mér í gegnum lífið. Ég hef alltaf verið óhræddur við að takast á við nýjar áskoranir og ég einfaldlega sannfæri sjálfan mig um að ég muni finna út úr hlutunum og klári verkefnið. Við eigum þetta eina líf og ég vil ekki þurfa hugsa til baka að ég hefði átt að prófa hitt eða þetta, að þurfa ekki að segja; „ég vildi að ég hefði,“ ég vil frekar geta sagt að ég reyndi. Maður má aldrei vera hræddur við að gera mistök, þau eru til þess að læra af þeim. Það er allt í góðu að skipta um skoðun, það er miklu erfiðara að hafa ekki upplifað að segja, „nei, þetta á ekki við mig.“

Flugþjónn og safnstjóri Seðlabankans

Um tíma ætlaði Sigurður sér að verða gullsmiður, var kominn í Iðnskólann en sá þá auglýsingu hjá Air Atlanta. Sigurður er frekar unglegur í dag en á þessum tíma þegar hann var tvítugur, leit hann út fyrir að vera tíu ára. Aldurstakmarkið var 24 ára svo hann fékk ekki boð um að mæta á námskeið fyrr en annar umsækjandi hætti við. Fljótlega bauðst honum svo að bregða undir sig betri fætinum og fór til Nígeríu og var þar í sex ár.

„Þetta er einn besti skóli sem ég hef gengið í gegnum á lífsleiðinni; að standa tvítugur á eigin fótum í Nígeríu. Ég flaug vítt og breytt um heiminn, upplifði alls kyns hluti og kom heldur betur ríkari maður heim eftir þetta ævintýri. Ég var stundum sjö mánuði úti í einu og þarna fann maður á eigin skinni hversu gott er að búa á Íslandi. Munurinn á búsetuskilyrðum Nígeríumanna og Íslendinga er gríðarlegur. Ég hringdi oft í Arngrím, þáverandi  eiganda Atlanta og þakkaði honum fyrir þessa reynslu sem var í alla staði frábær. Eftir sex ár sneri ég svo heim og stóð á krossgötum má segja, fannst ég vera búinn að missa af lestinni í gullsmíðinni.

Ég byrjaði að vinna í póstútburði fyrir Íslandspóst en speki sem ég hef reynt að hafa að leiðarljósi er að öll vinna er góð vinna, maður eigi að vera þakklátur fyrir að hafa vinnu. Ég vann mig upp hjá Íslandspósti, var kominn yfir til TNT hraðflutninga en við hrunið urðu breytingar og ég fann að ég var orðinn leiður, var mikið farinn að grúska í gömlum seðlum og myntum og vildi gera eitthvað með það. Ég sagði því upp hjá TNT, prófaði eitthvað annað og opnaði svo verslun á Hverfisgötunni sem hét Safnaramiðstöðin. Þar komst ég að því að það er ekki öllum gefið að reka fyrirtæki, þótt þú hafir allan áhuga í heimi á viðkomandi rekstri. Ég lokaði því búðinni en var búinn að sanka að mér mikilli þekkingu á opinberum íslenskum gjaldmiðlum og erlendum gjaldmiðlum og sótti því um stöðu safnstjóra hjá Seðlabanka Íslands og Þjóðminjasafni Íslands. Ég var eini ómenntaði umsækjandinn en fékk samt stöðuna, sem fólst mest í að skrá, ljósmynda og miðla upplýsingum úr safninu og endurnýja gamlar skráningar. Fljótlega var ég svo kominn í að ljósmynda alla starfsmenn Seðlabankans en ljósmyndun hefur alltaf verið mikið áhugamál hjá mér, ég vil helst taka myndir á eldgamlar filmumyndavélar. Þessi ár hjá Seðlabankanum voru frábær, þarna vinnur ótrúlega klárt fólk sem var tilbúið að deila með mér hvað þau voru að sýsla, ég sem skildi hvorki upp né niður fékk tækifæri til að skilja þessa hluti betur. Safninu var svo lokað árið 2021 svo þessum sex ára tíma hjá Seðlabanka Íslands lauk og ég fluttist til Reykjanesbæjar,“ segir Sigurður Helgi.

Sigurður og fjölskylda búa í Sigvaldahúsi.

Reykjanesbær og Byggðasafnið

Sigurður segist hafa verið á báðum áttum með að flytja til Reykjanesbæjar en strax á fyrsta degi tók hann ástfóstri við bæjarfélagið.

„Konan mín, Ragnheiður Möller, er frá Reykjanesbæ en ég bjó í 101 á móti Þjóðleikhúsinu þegar við kynntumst. Ég var alls engin miðbæjarrotta eins og það er stundum kallað en labbið í vinnuna í Seðlabankann var örstutt svo það hentaði ágætlega að búa þar. Þegar þeim kafla lauk stakk konan mín upp á að við hæfum  búskap í Reykjanesbæ. Þegar hugmyndin var borin upp var ég alls ekki viss, ég var ekki með neina tengingu inn í bæinn og fannst ég ekki vita hvað ég væri að fara út í. Fyrstu kvöldin fóru í að labba um bæinn og ég féll strax fyrir honum. Ég bý í öðru af tveimur Sigvaldahúsum í Reykjanesbæ en Sigvaldi var mjög þekktur arkitekt á Íslandi. Húsið sem ég bý í er talið eitt merkasta húsið sem hann hannaði á sínum tíma en það var byggt árið 1955. Hér var ég fljótur að kynnast fólki og það er vinalegt að geta heilsað nánast öðrum hvorum manni þegar farið er í BYKO til dæmis.

Sigurður og Viktoría Hermannsdóttir hafa stjórnað sjónvarpsþætti saman.

Á þessum tíma var ég búinn að vera gera sjónvarpsþættina Fyrir alla muni og samdi auk þess alla tónlist í þættina. Það er hins vegar erfitt að lifa eingöngu af sjónvarpsþáttagerð á Íslandi svo ég þurfti að finna mér aðra vinnu og sá stöðu auglýsta í Byggðasafni Reykjanesbæjar og hóf störf þar árið 2023. Þetta er algerlega stórkostlegt safn í mínum huga og ég sökkti mér í sögu bæjarins. Ég keypti mér bækur og las mér til um bæinn, ég vissi t.d. ekki að Keflavík var bær, þ.e. húsið hét Keflavík og túnið er enn þá til. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hversu mikið Keflvíkingar hafa þurft að ganga í gegnum. Þegar herinn kom jókst atvinnustigið til muna en hann skyldi líka eftir sig sviðna jörð þegar hann fór. Á meðan herinn var hér leið sjávarútvegurinn á svæðinu fyrir það. Keflavík og Njarðvík fengu ekki sama stuðning og önnur sveitarfélög með þeim rökum að þau hefðu herinn. Þá reis einkaframtakið upp og hafnir voru byggðar, hér hefur alltaf búið harðduglegt fólk og ég er sannfærður um að Reykjanesbær og öll Suðurnesin muni blómstra í nánustu framtíð.

Í tökum á þættinum Fyrir alla muni.

Ég er búinn að ákveða að helga næstu fjögur ár í lífi mínu þingmannsstarfinu. Hingað til hef ég kunnað mjög vel við mig og ég hlakka til að vera til reiðu fyrir fólkið í kjördæminu. Það má hringja til mín, gsm númerið mitt er á heimasíðu Alþingis og fólk getur sent mér tölvupóst. Ég mun kappkosta að gera mitt besta til að aðstoða fólk, ég mun ekki þykjast hafa lausnir við öllu en mun leggja mig fram við að greiða úr málum. Ég hlakka til næstu ára, ég mun standa með fólkinu,“ sagði Sigurður Helgi að lokum.