Fékk Biblíuna í fermingargjöf og las hana alla stuttu síðar
Jóngeir Hjörvar Hlinason hefur búið víða á sinni ævi en undanfarin tæp átján ár bjó hann í Vogum á Vatnsleysuströnd og tók þátt í bæjarpólitíkinni þar til fjölda ára. Hann hefur nýlega farið í hálft starf og ákvað jafnframt að minnka við sig og flytja í blokk í Kópavogi, þar sem synir hans þrír og margir vinir og kunningjar búa á höfuðborgarsvæðinu. Hann ólst upp í Skagafirði, svo fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar Jóngeir var ellefu ára gamall og vesturbærinn varð fyrsti viðkomustaðurinn. Þaðan lá leiðin í Vogana, þó ekki Voga á Vatnsleysuströnd, heldur Vogahverfið í Reykjavík. Það var nýlega búið að færa Þrótt í hverfið en Jóngeir lítur á sig sem KR-ing ef Þróttur í Vogum er tekinn út fyrir sviga.
Jóngeir er fæddur árið 1955. Eftir að hafa búið í Reykjavík ákvað hann að leggja land undir fót og flutti með eiginkonu sinni, Soffíu Melsteð, til Svíþjóðar árið 1979, m.a. til að mennta sig, lærði hagfræði og viðskiptafræði. Eftir að þau komu heim árið 1985 bjuggu þau hér og þar á höfuðborgarsvæðinu, lengst af í Hafnarfirði, þar til að þau sáu ljósið og ákváðu að flytja til Voga á Vatnsleysuströnd.
„Við ákváðum að flytja til Voga í desember 2006. Við gátum selt íbúðina okkar í Hafnarfirði og fengum fínasta raðhús á móti en við vorum líka búin að heyra mjög góðar sögur af mannlífinu og fólkinu í Vogum og það reyndist svo sannarlega rétt. Eftir nokkur ár gaf ég mig að pólitíkinni og sat í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga frá árunum 2010 – 2022, fyrst sem varamaður en síðan sem aðalbæjarfulltrúi. Ég átti frábæran tíma í Vogum, eignaðist marga góða vini og á oft eftir að kíkja í heimsókn þangað, það tekur engan tíma að skjótast til Voga.
Varðandi fermingu mína þá fór hún fram í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur á Pálmasunnudegi 13. apríl árið 1969. Það var sr. Frank M Halldórsson sem fermdi okkur en hann kenndi okkur líka kristinfræði í Hagaskóla. Mér fannst þetta áhugavert man ég, ég las mikið á þessum tíma og sökkti mér í fermingarfræðsluefnið en fræðslan fór fram í safnaðarheimilinu sem er í kjallaranum á Neskirkju. Ég man ekki eftir hvort farið var í einhverja sérstaka fermingarfræðsluferð eins og tíðkast í dag, alla vega hefur hún ekki verið eftirminnileg ef hún var farin.
Veislan var haldin heima hjá frænda mínum, bróður mömmu minnar, hann átti stærra húsnæði en við bjuggum í. Þær eru stærri veislurnar sem haldnar eru í dag, það voru ekki nema um 25 manns í veislunni að hámarki og þ.a.l. voru gjafirnar ekki það margar. Ég fékk skrifborð, skrifborðsstól og pennasett en eftirminnilegust er Biblían. Ég las hana alla stuttu eftir fermingu og hafði mikið gaman af, þetta er auðvitað fyrir tíma tölva og hvað þá símanna eins og þeir eru í dag, það var varla sjónvarp svo það var allt annar tími árið 1969 en er í dag. Maður þurfti að hafa ofan fyrir sér sjálfur og mín leið var lestur, ég las mjög mikið á þessum tíma. Aðrar gjafir standa ekki ofarlega í minninu, jú kannski náttúrulífsbók með fullt af myndum af dýrum og öðru, svo fékk ég einhvern pening sem ekki var endilega algengt á þessum tíma.
Það sem var á boðstólnum í veislunni voru alls kyns tertur, flatbrauð og fleira gómsætt, þetta var hefðbundið á þessum tíma. Þetta var skemmtilegur dagur man ég.
Tveir elstu synir okkar Soffíu, Hlini og Þór voru fermdir í Hafnarfjarðarkirkju af sr. Gunnþóri Ingasyni og konu hans, sr. Þórhildi Ólafs, en sá yngsti, Freyr var fermdur í Kálfatjarnarkirkju af sr. Báru Friðriksdóttur. Þeirra fermingarveislur voru kaffiboð sem haldnar voru á heimili okkar fyrir ættingja og vini. Í þessum veislum var boðið upp á hefðbundnar kaffiveitingar, brauðtertur, heitan rétt, fermingartertu og ekki má gleyma flatbrauði með hangikjöti sem er alltaf mjög vinsælt.
Öll þessi fermingarboð eru í minningunni ánægjustundir þar sem þessum áfanga í lífinu var fagnað með vinum og ættingjum,“ sagði Jóngeir að lokum.