Langur og strangur bæjarstjórnarfundur þegar nýr meirihluti tók til starfa
– Kynntu málefnasamning: Ætla að fækka fulltrúum í bæjarstjórn úr níu í sjö.
Fundur bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar var haldinn í gær þar sem nýr meirihluti tók til starfa. Nýr meirihluti samanstendur af bæjarfulltrúum O-, S- og tveggja fulltrúa D-lista, Einars Jóns Pálssonar og Oddnýjar Kristrúnar Ásgeirsdóttur en Magnús Sigfús Magnússon, kjörinn fulltrúi D-lista, stendur fyrir utan meirihlutasamstarfið.
Fundurinn var langur og strangur en fyrsta mál á dagskrá var að kjósa nýjan forseta bæjarstjórnar og í kjölfarið fyrsta og annan varaforseta. Þá var nýtt bæjarráð skipað og skipan í ráð og nefndir stokkuð upp.
Jónína Magnúsdóttir (O-lista) er nýr forseti bæjarstjórnar og tók hún við stjórn fundarins úr höndum Einars Jóns Pálssonar (D-lista) sem hefur gegnt embættinu frá stofnun sveitarfélagsins. Fyrsti varaforseti er Laufey Erlendsdóttir (O-lista) og annar varaforseti er Anton Kristinn Guðmundsson (B-lista). Kjör í embættin eru til eins árs.
Sigursveinn Bjarni Jónsson (S-lista) tekur við formennsku í bæjarráði en með honum eru Einar Jón Pálsson, varaformaður, og Laufey Erlendsdóttir, varamenn eru Elín Frímannsdóttir (S-lista), Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir (D-lista), Jónína Magnúsdóttir (O-lista).
Magnús lagði fram lista og tilnefndi sig sem fulltrúa í bæjarráð en hlaut ekki kosningu, þá óskaði hann eftir að sitja sem áheyrnarfulltrúi í ráðinu en þeirri ósk var hafnað. B-listi lagði einnig fram tillögu um Anton Kristinn sem aðalmann og Úrsúlu Maríu varamann í bæjarráði en þau hlutu ekki kosningu. Anton mun sitja fundi bæjarráðs sem áheyrnarfulltrúi og Úrsúla til vara.
Veikur minnihluti
Það er áhugavert að minnihlutinn í bæjarstjórn á einungis áheyrnarfulltrúa í bæjarráði og hefur því ekki rétt til ákvarðanatöku í ráðinu. Minnihluta skipa bæjarfulltrúar B-lista, Anton Kristinn Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir, og Magnús Sigfús Magnússon sem lýsti því yfir áður en gengið var til dagskrá að þar sem hann sé ekki aðili að nýjum meirihluti muni hann sitja áfram sem sjálfstæður einstaklingur í þeim málefnum sem lúta að störfum bæjarstjórnar það sem eftir er af þessu kjörtímabili.
Fór yfir málefnasamning nýs meirihluta
Eftir að búið var að skipa í öll ráð og nefndir steig nýkjörinn formaður bæjarráðs, Sigursveinn Bjarni Jónsson (S-lista), í pontu og kynnti málefnasamning nýs meirihluta sem er byggður á stefnuskrám listanna þriggja (D-, O- og S-lista).
Þar vekur helst athygli að málið sem felldi fyrrum meirihluta, staðsetning gervigrasvallar á aðalvelli Reynis í Sandgerði, verður áfram unnið eftir áður samþykktri tillögu og þá verði reist stúka við aðalvöll Víðis og æfingaaðstaða yngri flokka félagsins bætt.
Einnig er á dagskrá meirihlutans að fækka fulltrúum í bæjarstjórn úr níu í sjö og það taki gildi þegar gengið verður til kosninga árið 2026.
Málefnasamninginn má sjá hér að neðan.
Málefnasamningur nýs meirihluta D-, O- og S-lista:
- Göngu- og hjólastígur verði lagður til Reykjanesbæjar, frá Garði og Sandgerði, í samstarfi við Vegagerðina.
- Bæta aðkomu og ásýnd á Garðskaga. Forgangsraða í samræmi við deiliskipulag.
- Skipuleggja og merkja heilsustíga í báðum byggðakjörnum.
- Koma Strandgötu á áætlun Vegagerðar og einnig breikkun vegar milli byggðakjarna.
- Heilsueflandi samfélagi gert hærra undir höfði.
- Unnið verði samkvæmt greiningu á húsnæði sveitarfélagsins og gerð áætlun um notkun og mögulega sölu eigna.
- Áframhaldandi uppbygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.
- Meta framtíðarþörf á húsnæði Sandgerðisskóla.
- Fjölga búsetuúrræðum fyrir fólk með fötlun, öryrkja og aldraða.
- Þétting byggðar samkvæmt áætlun á framkvæmda- og skipulagssviði.
- Tímasetja áætlun og vinna að heildaryfirliti vegna fráveitumála.
- Bæjarskilti rísi við Rósaselstorg.
- Vinna markvisst eftir umhverfisstefnu sveitarfélagsins.
- Unnið verði að því að styrkja gróður og skjólmyndun með skógrækt og vistheimt, á sérstökum skógræktarsvæðum og í tengslum við opin svæði.
- Auka hagræðingu í rekstri og ná fram auknu fjármagni til framkvæmda.
- Unnið verði eftir áður samþykktri tillögu um uppbyggingu gervigrasvallar á aðalvelli Reynis.
- Stúka verði sett við aðalvöll Víðis ásamt vökvunarkerfi. Fegrun umhverfis við vallarhús félagsins.
- Bæta æfingaaðstöðu fyrir yngri flokka knattspyrnufélagsins Víðis í samstarfi við félagið.
- Tryggja rekstur frístundabíls og efla þá þjónustu.
- Undirbúningur verði hafinn að nýjum leikskóla í Garði fyrir lok kjörtímabils.
- Fylgja eftir mennta- og frístundastefnu.
- Halda áfram að þrýsta markvisst á að fá heilsugæslu í sveitarfélagið.
- Leiksvæði byggð upp samkvæmt áætlun.
- Áframhaldandi stefnumótun í dagvistunarmálum barna.
- Efla lista- og menningartengda starfsemi með aukinni fjölbreytni.
- Stutt verði áfram við öfluga og blómlega starfsemi byggðasafnsins.
- Fækka bæjarfulltrúum úr níu í sjö og það taki gildi við kosningar 2026.
- Efla rafræna stjórnsýslu.
- Reglulegir opnir íbúafundir, sérstaklega í tengslum við fjárhagsáætlun hvers árs.