Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Fréttir

Knattspyrnuvöllurinn í Sandgerði verði aðalvöllur og gervigrasið fer í Garðinn
Aðalvöllur nýs íþróttafélags verður í Sandgerði samkvæmt tillögu Víðis og Reynis sem bæjarráð Suðurnesjabæjar vísaði til bæjarstjórnar. VF/Hilmar Bragi
Þriðjudagur 29. október 2024 kl. 21:17

Knattspyrnuvöllurinn í Sandgerði verði aðalvöllur og gervigrasið fer í Garðinn

Víðir og Reynir með sameiginlega sýn á uppbyggingu knattspyrnumannvirkja

Bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkti samhljóða síðdegis í dag að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja eftirfarandi tillögur Knattspyrnufélagsins Reynis og Knattsprnufélagsins Víðis um uppbyggingu knattspyrnumannvirkja í Suðurnesjabæ:

Knattspyrnuvöllur í Sandgerði (núverandi Bronsvöllur) verði skilgreindur sem aðalvöllur hja nýju félagi í Suðurnesjabæ þannig að hann standist kröfur sem keppnisvöllur í efstu stigum íslenskrar knattspyrnu. Gerð verði tímasett áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir vegna þessa þannig að völlurinn geti þjónað hlutverki sínu sem heimavöllur nýs íþróttafélags keppnistímabilið 2026.

Nýr upphitaður gervigrasvöllur með flóðlýsingu verði staðsettur á gamla malarvelllinum í Garði og verði skilgreindur sem vetraraðstaða til æfinga og keppni í knattspyrnu. Lögð er áhersla á að framkvæmdir við gervigrasvöll vinnist eins hratt og hægt er, þannig að hann verði tilbúinn til notkunar fyrir veturinn 2025/2026.

Knattspyrnuvöllur í Garði (núverandi Nesfiskvöllur) verði áfram notaður til æfinga og keppni þegar þarf, en þar verði ekki farið í framkvæmdir til að viðhalda eða byggja upp áhorfendamannvirki. Hætt verði að nota æfingasvæði á túni norðvestan við völlinn.

Klefar og aðstaða í húsum félaganna, Reynisheimilinu og Víðisheimilinu, verði notaðar fyrir knattspyrnuvellina.

Tryggja þarf góðar og reglulegar samgöngur á milli byggðakjarnanna til að börn og ungmenni eigi greiðan aðgang að æfingum og leikjum sem eru ekki í göngufæri við heimili þeirra.

Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ í samvinnu sveitarfélags og hins nýja íþróttafélags á komandi árum.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir í afgreiðslu sinni fyrirvara um framkvæmdatíma á uppbyggingu gervigrasvallar en engar aðrar athugasemdir við hugmyndir félaganna.

Gervigrasvöllurinn rís á gamla malarvellinum í Garði, nái hugmyndir knattspyrnufélaganna í Suðurnesjabæ fram að ganga. Bæjarráð vísaði þeim samhljóða til bæjarstjórnar á fundi sínum í kvöld. VF/Hilmar Bragi