Fréttir

Ófært um Nátthaga vegna flóða - Nýjar myndir af flóðasvæðum
Hér má sjá hvernig flætt hefur við byggðina í Sandgerði. VF/Hilmar Bragi
Mánudagur 3. mars 2025 kl. 16:32

Ófært um Nátthaga vegna flóða - Nýjar myndir af flóðasvæðum

Ófært hefur verið í hluta byggðarinnar í Nátthaga í Suðurnesjabæ frá því í gærkvöldi. Á síðdegisflóðinu í gær, sunnudag, bættist talsvert í sjávartjörnina sem myndast hefur í landi Nátthaga og flæddi meðal annars yfir vegi að nokkrum húsum á svæðinu.

Hluti golfvallarins að Kirkjubóli er einnig á kafi í sjó en fjórtánda, fimmtánda og sextánda braut eru á kafi í sjó eftir flóð helgarinnar.

Þá eru nokkrar rotþrær í byggðinni í Nátthaga orðnar ónothæfar þar sem þær hafa fyllst af sjó og því ekki hægt að sturta niður úr salernum eða láta vatn renna.

Hjá Suðurnesjabæ fengust þær upplýsingar að fulltrúar Vegagerðarinnar hafi kynnt sér aðstæður þar sem flætt hefur. Meðal annars var notast við ljósmyndir og myndskeið sem Víkurfréttir birtu um helgina og sýndu aðstæður vel.

Nýjar myndir voru teknar á nokkrum stöðum í morgun sem sýna fleiri flóðasvæði og svæði þar sem sjávartjarnir hafa stækkað mikið. Myndirnar má sjá í myndasafni hér að neðan.

Sjávarflóð í Suðurnesjabæ 1. til 3. mars 2025