Langbest - velkomin
Langbest - velkomin

Fréttir

Kvikmyndahúsasögu Keflavíkur að ljúka í kvöld
Rúmlega tuttugu manns voru í sal 1 í kvöld. Annar eins fjöldi í sal 2. Þannig endaði kvikmyndahúsasaga Keflavíkur í kvöld. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 29. október 2024 kl. 20:57

Kvikmyndahúsasögu Keflavíkur að ljúka í kvöld

Sögu kvikmyndahúsa í Keflavík er að ljúka. Lokasýningar í Sambíóinu í Keflavík hófust kl. 20:00 í kvöld. Myndir eru í tveimur sölum og hátt í fimmtíu manns mættu í Sambíóin í Keflavík, sem flest þekkja sem Nýja bíó, í kvöld.

Þær Salvör Björk Pétursdóttir, Eva Júlía Ólafsdóttir og Sonja Steina Guðmundsdóttir standa núna síðustu kvikmyndavaktina.

Í sal 1 er verið að sýna Venom: The Last Dance, sem er bönnuð innan 12 ára. Í sal 2 á neðri hæðinni er það Smile 2, bönnuð innan 16 ára.

Þær stöllur sögðu að eftir sýninguna í kvöld væri það verkefnið að þrífa og ganga frá veitingasölunni. Þar var verið að poppa þegar ljósmyndari hafði viðkomu í bíóinu skömmu eftir að sýningar hófust í kvöld.

Ein þeirra, Eva Júlía, fer til starfa hjá Sambíóunum í Álfabakka. Hinar tvær starfa á leikskólum í Reykjanesbæ og hafa haft bíóstarfið sem aukavinnu.

Í samtali við blaðamann sögðu þær tímamótin vera sorgleg. Talsvert hafi dregið úr bíósókn heimafólks eftir að streymisveitum fjölgaði. Fólk hafi þó komið í bíóið til að kaupa sér popp til að hafa með sjónvarpinu heima. Það eigi örugglega margir eftir að sakna þess að geta ekki fengið bíópopp eftir að kvikmyndahúsinu lokar. Það gæti því verið tækifæri fyrir veitingaaðila á svæðinu að setja upp alvöru popppott til að þjóna stórum hópi fólks sem sækir í ný poppað popp.

Þær Salvör Björk Pétursdóttir, Eva Júlía Ólafsdóttir og Sonja Steina Guðmundsdóttir standa núna síðustu kvikmyndavaktina.