HS Orka
HS Orka

Aðsent

Krafa kennara um jöfnun launa
Þriðjudagur 29. október 2024 kl. 12:12

Krafa kennara um jöfnun launa

Kennarar víða um land hafa hafið verkföll í skólum í kjölfar árangurslausra samningaviðræðna við ríki og sveitarfélög. Verkfallið er afleiðing þess að samningar hafa ekki náðst um launahækkanir sem kennarar telja nauðsynlegar til að jafna laun þeirra við sambærilegar stéttir á almennum vinnumarkaði.

Laun kennara eru rúmlega 40% lægri en meðaltal sambærilegra stétta á almennum vinnumarkaði. Þessi mikli launamunur er óréttlátur og grefur ekki aðeins undan velferð kennara sjálfra heldur einnig gæði menntunar í landinu. Árið 2016 voru lífeyrisréttindi kennara skert verulega, gegn því að sú skerðing í takt við þau lífeyrisréttindi sem eru á almennum vinnumarkaði kæmi fljótlega í launaumslag kennara.  Kennarasamband Íslands hefur reynt árangurslaust að semja og verið opið fyrir viðræðum allar götur síðan. En lítið hefur verið að frétta af samningsvilja ríkis og sveitarfélaga.  Vaxandi óánægja kennara vegna skeytingarleysi yfirvalda hefur nú fyllt alla mæla og verkföll því hafin.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Sem kennari geri ég mér grein fyrir því mikla álagi og mikilvægu hlutverki sem kennarar gegna í íslensku samfélagi. Það er óásættanlegt að kennarar séu með laun sem eru á engan hátt samkeppnishæf við almennan vinnumarkað og samanburðar stéttir. Ég legg áherslu á nauðsyn þess að ríki og sveitarfélög taki markviss skref til að bæta kjör kennara og jafna laun þeirra við sambærilegar stéttir á vinnumarkaði. Þetta er ekki bara réttlætismál, heldur einnig nauðsynlegt til að tryggja gæði menntunar og laða að hæfileikaríka einstaklinga í starfið.

Launamunurinn milli kennara og annarra stétta er skýrt dæmi um ójöfnuð á vinnumarkaði. Lág laun og skert réttindi kennara grafa undan menntakerfinu og draga úr tækifærum til menntunnar. Öflugt mennta- og velferðarkerfi og jafnt aðgengi að faglegri þjónustu er ein að grunn stoðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég hvet alla til að styðja kennara í baráttu fyrir jöfnun launa og lýsi fullum stuðningi mínum við kennara í baráttu þeirra.

Þormóður Logi Björnsson

Höfundur er kennari og aðstoðarskólastjóri í Akurskóla, Reykjanesbæ. Höfundur er einnig í 3. sæti lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi.