Fréttir

Stefna að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ
Gísli Heiðarsson, formaður Víðis, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, og Ólafur Þór Ólafsson, formaður Reynis, handsala viljayfirlýsinguna á bæjarskrifstofum Suðurnesjabæjar í Garði. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 29. október 2024 kl. 19:37

Stefna að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ

Knattspyrnufélagið Reynir, knattspyrnufélagið Víðir og Suðurnesjabær hafa gert með sér viljayfirlýsingu um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Stefnt er að stofnun nýs félags í október 2025. Markmið með stofnun nýs íþróttafélags er að auka fagmennsku og gæði í íþróttastarfinu og stuðla að fjölbreytni íþróttagreina. Viljayfirlýsingin var undirrituð í Suðurnesjabæ í kvöld af formönnum félaganna og bæjarstjóra Suðurnesjabæjar.

Þá segir í viljayfirlýsingu að til verði eitt íþróttafélag sem samfélagið í Suðurnesjabæ sameinast um. Þannig eigi að stuðla að aukinni íþróttaiðkun hjá fólki á öllum aldri og af öllum kynjum.

SSS
SSS

Unnið verður markvisst að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Suðurnesjabæ og bættri nýtingu núverandi mannvirkja. Aukinn og markvissari stuðningur frá Suðurnesjabæ verður við hið nýja íþróttafélag.

Stofnaður verður stýrihópur sem mun halda utanum verkefnið.  Fyrsta verkefni stýrihópsins verður að útbúa lýsingu á verkefninu og hlutverki hópsins sem verður lögð fyrir stjórnir Reynis, Víðis og Suðurnesjabæjar. Stýrihópurinn tekur til starfa í nóvember 2024 og mun skila áfangaskýrslu í febrúar 2025 sem verður lögð fyrir aðalfundi félaganna Reynis og Víðis. Í þeirri skýrslu komi fram tillögur að skipulagi á nýju félagi ásamt drögum að samningi milli Suðurnesjabæjar og hins nýja félags. Jafnframt liggi þar fyrir áframhaldandi tímalína vegna verkefnisins að stofnfundi félagsins.

Í stýrihópnum sitja tveir fulltrúar frá hvoru íþróttafélagi og tveir fulltrúar frá Suðurnesjabæ, þ.e. íþrótta- og tómstundafulltrúi og bæjarfulltrúi.

Suðurnesjabær mun tryggja að stýrihópurinn muni hafa nauðsynlegan stuðning í störfum sínum og mun það vera nánar tilgreint í verklýsingu. Stýrihópurinn mun hafa vítt samráð við sem flesta hagaðila og þá sérstaklega íbúa Suðurnesjabæjar og félaga í Reynir og Víði við stofnun nýs félags.

Í viljayfirlýsingunni segir að undirritaðir aðilar skuldbinda sig til að vinna í góðri trú að markmiðum og verklagi sem tilgreind eru í viljayfirlýsingunni.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar lýsti á fundi sínum á þriðjudag ánægju með frumkvæði og framgöngu íþróttafélaganna með viljayfirlýsingunni. „Stofnun og starfsemi eins íþróttafélags í Suðurnesjabæ er mikilvægt framlag við að sameina íbúa sveitarfélagsins í einu samfélagi og til að efla íþróttastarf til framtíðar,“ segir í afgreiðsslu bæjarráðs þar sem bæjarstjóra var veitt heimild til að undirrita viljayfirlýsinguna.