Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Fréttir

Líkur á endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum meðan kvikusöfnun heldur áfram
Mánudagur 24. júní 2024 kl. 15:06

Líkur á endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum meðan kvikusöfnun heldur áfram

Eldgosinu sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí er lokið, en engin virkni hefur sést í gígnum frá 22. júní. Gosið stóð yfir í 24 daga og var fimmta eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Jafnframt er hraunbreiðan sem myndaðist sú stærsta að rúmmáli og flatarmáli. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands.

Þrátt fyrir að ekkert hraun renni frá gígnum eru áfram töluverðar hreyfingar í hraunbreiðunni norðan Sýlingarfells vegna þess að enn er fljótandi hraun undir storknuðu yfirborðinu. Síðustu tvo sólarhringa hefur verið virkni í þeim hrauntungum sem fóru yfir varnargarð við Sýlingarfell og einnig í hraunbreiðunni norðan varnargarðsins. Áfram má búast við því að hreyfinga verði vart í hraunbreiðunni á næstu dögum þar sem það tekur töluverðan tíma fyrir þetta ferli að stöðvast.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Um það bil tíu dögum eftir að eldgosið hófst byrjaði landris í Svartsengi að mælast aftur sem bendir til þess að kvikusöfnun þar haldi áfram. Landrisið hefur verið stöðugt síðan þá en er nú hægara en það var á milli síðustu atburða. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og mælingar næstu daga og vikur munu hjálpa til við að túlka mögulega þróun jarðhræringanna.

Likan_Textaleidretting-24062024

Línurit, byggt á jarðeðlisfræðilegum líkanreikningum, sem sýnir þróun kvikusöfnunar og áætlað heildarmagn kviku í kvikuhólfinu undir Svartsengi frá 25. Október 2023 og þróun þess á milli atburða. Rauðu punktarnir sýna stöðuna síðan 30. Maí 2024 og þar sést að nú er hraði kvikusöfnunar hægari en á fyrri kvikusöfnunartímabilum.

Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum. Að svo stöddu er erfitt að segja til hvenær næsti atburður verður eða hvenær kvikusöfnun hættir.

Uppfært hættumat

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat. Það að síðasta gosi sé lokið hafði áhrif á breytingar á nokkrum svæðum. Hætta er metin lægri á öllum svæðum þar sem minni líkur eru á hraunflæði og gasmengun. Sérfræðingar VÍ mældu gasútstreymi frá gígnum á föstudaginn, 21. Júní, og var það mælt mjög lítið eða um 1 kg/s. 

Haettusvaedi_VI_24juni_2024