Safnahelgi
Safnahelgi

Fréttir

Neðri óvissumörkum náð í byrjun nóvember
Þriðjudagur 22. október 2024 kl. 16:06

Neðri óvissumörkum náð í byrjun nóvember

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og síðustu vikur. Jarðskjálftavirkni hefur aukist lítillega síðustu daga, þó ekki mikið eða um fimm skjálftar á dag á kvikuganginum. Sá stærsti mældist M1,5 að stærð. Þetta kemur fram í nýtti samantekt Veðurstofu Íslands.

Lærdómur af fyrri kvikuhlaupum og eldgosum nýtist við að meta hversu mikið magn af kviku þarf að bætast við undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði. Það tímabil þar sem auknar líkur eru taldar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi markast af neðri og efri óvissumörkum.

Líkanreikningar sem byggja á GPS-gögnum sýna að rúmmál kviku er nú um það bil 2/3 af því sem safnaðist áður en fór að gjósa 22. ágúst síðastliðinn. Miðað við áframhaldandi kvikuinnflæði á svipuðum hraða má búast við að neðri óvissumörkum á rúmmáli kviku verði náð í byrjun nóvember.

Ef markverð aukning á skjálftavirkni mælist á svipuðum tíma má gera ráð fyrir því að líkur á nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi séu farnar að aukast. Líkur á því munu aukast smám saman eftir því sem meira magn kviku bætist við og skjálftavirkni eykst.

Rúmmál metið með líkanreikningum

Rúmmál þeirrar kviku sem safnast hefur undir Svartsengi síðan síðasta gosi lauk er metið samkvæmt líkanreikningum upp á 14 milljón rúmmetra. Áætlað er að um 24 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu í síðasta eldgosi, sem hófst 22. ágúst síðastliðinn, og var stærsta gosið í þessari atburðarás. Í þessum líkanreikningum er óvissan um +/- 5 milljón rúmmetrar. Rúmmál kviku undir Svartsengi verður því komið í sambærilega stöðu og fyrir síðasta gos þegar það nær inn á bilið sem afmarkast af „neðri óvissumörkum“ (19 milljónir rúmmetra) og „efri óvissumörkum“ (29 milljónir rúmmetra).

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Líkönin sem byggja á GPS- gögnum og uppfærast daglega segja til um hversu mikið rúmmál hefur safnast frá síðasta kvikuhlaupi og með þeim má áætla hvenær óvissumörkum er náð. Líkönin byggja á áætluðu kvikuinnflæði á hverjum tíma og litlar breytingar á því flæði geta haft áhrif á lokamatið. Erfitt er að leggja mat á hversu langt umfram fyrri mörk á rúmmáli kviku getur aukist áður en gos hefst. Þróunin hefur verið sú að tími milli gosa lengist þar sem magn kviku sem þarf til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi virðist aukast með tíma. Mögulega þarf að gera ráð fyrir því að hætta á eldgosi sé talin mikil í nokkrar vikur áður en kvikuhlaup og mögulega eldgos hefst.