Samkaup
Samkaup

Fréttir

Nýsköpunarráðstefna í Hljómahöll
Í tilefni af því að gervigreind verður á ráðstefnunni setti VF mynd af Hljómahöll í smá gervigreind. Hér má sjá útkomuna.
Fimmtudagur 31. október 2024 kl. 14:27

Nýsköpunarráðstefna í Hljómahöll

Nýsköpunarráðstefnan Flæði framtíðar fer fram í Stapa, Hljómahöll þann 15. nóvember nk., þar sem fjallað verður um áhrif og möguleika gervigreindar á þróun nýsköpunar, sjálfvirkni og tæknimenntunar. Ráðstefnan veitir einstakt tækifæri til að skoða hvernig tæknin er að breyta samfélaginu og hvernig best er að búa okkur undir þær breytingar.
Eftir opnunarerindi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, verður boðið upp á fjölbreytta fyrirlestra og hringborðsumræður með sérfræðingum á sviði tækni, fræða og fyrirtækjareksturs, sem vinna með nýsköpun, gervigreind og sjálfvirkni. Flæði framtíðar er vettvangur fyrir fyrirtæki, samtök, menntastofnanir og einstaklinga sem vilja taka þátt í að móta framtíðina og stuðla að betra samfélagi.
Að ráðstefnunni standa Fab Lab Suðurnes og samstarfsaðilar þeirra. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.