Ræktaði kannabis í tjaldi
Karlmaður sem lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina játaði framleiðslu og vörslu fíkniefna en neitaði að hafa stundað sölu á efnum.
Í íbúð mannsins sem lögregla gerði húsleit í að fenginni heimild fannst talsvert magn af kannabisefnum í sex krukkum. Einnig fundust kannabisefni í poka. Þá var á staðnum tjald sem búið var að setja upp fyrir kannabisræktun.
Maðurinn hafði í fórum sínum tugi þúsunda í íslenskum krónum og pólskum slotum og voru þeir fjármunir haldlagðir í þágu rannsóknarinnar.
Þá hafði lögregla afskipti af fáeinum einstaklingum sem voru með meint fíkniefni í fórum sínum. Um var að ræða minni háttar magn í öllum tilvikum og voru málin afgreidd með vettvangsskýrslum.