Samkaup
Samkaup

Fréttir

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja auglýsir eftir umsóknum - 40 fengu styrk 2024
Vita- sjóslysasýning við Reykjanesvita er meðal rúmlega fjörutíu verkefna sem hefur fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði. Sýningin var uppfærð og stækkuð og opnuð nýlega.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 31. október 2024 kl. 06:31

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja auglýsir eftir umsóknum - 40 fengu styrk 2024

„Umsóknir hafa aukist hægt og róleg síðustu ár. Á síðasta ári fengu 38 verkefni úthlutað styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja fyrir samtals tæpar 52 milljónir og er það hæsta upphæð sem hefur verið úthlutað frá upphafi sjóðsins,“ segir Logi Gunnarsson, verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja en opnað verður fyrir umsóknir árið 2025 föstudaginn 1. nóvember 2024 og skulu umsóknir hafa borist fyrir kl. 15 þann 5. desember 2024.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja og er í umsjón Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Markmið Uppbyggingarsjóðs er styðja vel við verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs á Suðurnesjum, menningarstarfsemi og atvinnuskapandi verkefni á svæðinu.

Sótt er um rafrænt á vef Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sss.is en þar er hægt að skoða reglur sjóðsins og leiðbeiningar við gerð umsókna. Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér þær og vanda umsóknir sínar í hvívetna.

Umsækjendur sem sækja um fyrir hönd lögaðila skulu sækja um með rafrænum skilríkjum eða Íslykli á kennitölu lögaðilans.

Umsækjendur geta haft samband við Loga Gunnarsson verkefnastjóra Uppbyggingarsjóðs á netfangið [email protected] eða í síma 868 9080.

Þá er einnig hægt að bóka ráðgjöf vegna umsóknarskrifa hjá verkefnastjórum SSS á netfangið [email protected].