Fréttir

Vilja aðstöðu til jarðfræðirannsókna og  kolefnisförgunartilrauna í nágrenni Helguvíkur
Séð yfir iðnaðarsvæðið í Helguvík. Bygging álversins í forgrunni. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Föstudagur 28. ágúst 2020 kl. 09:23

Vilja aðstöðu til jarðfræðirannsókna og kolefnisförgunartilrauna í nágrenni Helguvíkur

Carbfix, eitt af dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ beiðni um aðstöðu til jarðfræðirannsókna og kolefnisförgunartilrauna í nágrenni Helguvíkur. Málið var tekið fyrir á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar en á fundinn mættu Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastjóri, og Dr. Bergur Sigfússon, jarðfræðingur, frá CarbFix ohf. og kynntu verkefnið. Umhverfis- og skipulagsráð tekur vel í erindið, segir í gögnum fundarins.

Bæjarráð Reykjanesbæjar tekur jákvætt í verkefnið með fyrirvara um að það sé í samræmi við landnotkun á iðnaðarsvæðinu í Helguvík að uppfylltum öllum skilyrðum sem gerð eru í lögum, reglugerðum og skipulagi til slíkra rannsókna og framkvæmda. Bæjarráð tekur jafnframt undir bókun stjórnar Reykjaneshafnar frá 13. ágúst 2020:

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Stjórn Reykjaneshafnar telur framkomið verkefni mjög áhugavert en í því felst þróun kolefnisförgunaraðferðar sem getur orðið áhrifaríkt verkfæri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í framtíðinni. Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir að heimila framkvæmd verkefnisins á hafnarsvæði Helguvíkurhafnar í samræmi við efni bréfsins á rannsóknartíma þess til ársins 2024 svo lengi sem framkvæmdin hafi ekki neikvæð áhrif á uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Hafnarstjóri Reykjaneshafnar hefur eftirlit með framkvæmdinni fyrir hönd Reykjaneshafnar og skal framkvæmdin unnin í nánu samráði við hann.“

Carbfix, eitt af dótturfyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur, hefur í samstarfi við vísindafólk frá Háskóla Íslands og erlenda háskóla unnið að þróun kolefnisförgunaraðferðarinnar Carbfix frá árinu 2007. Kolefnisförgun er ferli sem fjarlægir koldíoxíð varanlega úr lofthjúpi jarðar og vinnur því gegn loftslagsbreytingum. Aðferðin felst í að leysa koldíoxíð í vatni og dæla niður í jarðlög þar sem náttúruleg ferli umbreyta koldíoxíðinu í steindir. Steindin sem myndast helst er silfurberg sem er algeng í íslenskri náttúru. Þar sem steindirnar eru stöðugar í milljónir ára eru miklar líkur á að Carbfix aðferðin geti orðið áhrifaríkt verkfæri í baráttu mannkyns gegn loftslagsbreytingum næstu áratugina. Aðferðin hefur hlotið heimsathygli og er m.a. viðurkennd af Alþjóða loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og hafa yfir 100 vísindagreinar verið birtar um þróun hennar og nýtingu. Aðferðinni hefur verið beitt með góðum árangri við Hellisheiðarvirkjun síðan 2014 og í undirbúningi eru niðurdæling á Nesjavöllum, sem hefst á næsta ári, auk þess sem gerðar verða niðurdælingartilraunir í Tyrklandi og Þýskalandi, segir í erindi fyrirtækisins sem lagt var fyrir umhverfis- og skipulagsráð.

Carbfix ásamt Háskóla Íslands, Íslenskum orkurannsóknum og samstarfsaðilum í Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Noregi og Sviss undirbúa nú nýtt vísindaverkefni sem ber heitið CO2SOLID. Hugmyndin er að nota bestu fáanlega tækni til að skilgreina niðurdælingarsvæði sem stækka má eftir þörfum í framtíðinni. Hópurinn hefur unnið að jarðfræðirannsóknum undanfarin ár til að skilgreina og finna ákjósanlega staði til niðurdælingar. Helguvík er einn af ákjósanlegustu stöðum sem völ er á á Íslandi. Til viðbótar ákjósanlegum jarðfræðiskilyrðum er góð hafnaraðstaða í Helguvík, sem opnar möguleikann á innflutningi koldíoxíðs til niðurdælingar auk þess sem möguleiki er á að taka við koldíoxíði frá stóriðju og öðrum iðnaði sem kann að vera starfræktur í

Helguvík í framtíðinni. Stefnt er að því að sækja um styrk fyrir verkefninu í Horizon 2020 rammaáætlun Evrópusambandsins í september 2020. Stefnt er að því að verkefnið hefjist formlega fyrri hluta ársins 2021 með jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum. Borun á einni tilraunaniðurdælingarholu og einni vöktunarholu er áætluð árið 2022 og tilraunaniðurdæling mun standa yfir 2022 til 2024. Stefnt er að því að rannsóknaverkefninu ljúki árið 2024 og gera áætlanir ráð fyrir að þá verði hægt að taka ákvörðun um varanlegan rekstur niðurdælingarkerfis í Helguvík og að vegvísir að alþjóðlegri notkun tækninnar með Helguvík að fyrirmynd verði tilbúinn. Varanlegur rekstur myndi í þessu tilfelli annaðhvort leiða til innviðauppbyggingar vegna móttöku koldíoxíðs úr fraktskipum í Helguvík, móttöku á koldíoxíði frá stóriðju og/eða með því að setja upp búnað sem fangar koldíoxíð beint úr andrúmslofti.