Optical Studio
Optical Studio

Íþróttir

Bestu kylfingar landsins mæta á snúinn Hólmsvöll
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2024 kl. 08:50

Bestu kylfingar landsins mæta á snúinn Hólmsvöll

„Bergvíkin breytist úr því að vera hola númer þrjú í að verða hola númer tólf. Þú vinnur ekki mótið á henni en þú getur tapað því,“ segir Sveinn Björnsson, formaður Golfklúbbs Suðurnesja (GS) en klúbburinn heldur Íslandsmótið á 60 ára afmælisári sínu. Mótið sjálft hefst á fimmtudaginn og því lýkur á sunnudag en á mánudag kepptu 35 kylfingar um tvö laus sæti í karla- og kvennaflokki. Ýmislegt annað verður í gangi í Leirunni fram að móti og er mikill hugur í GS-ingum í aðdraganda þess.

Íslandsmótið í golfi var fyrst haldið árið 1942 og er þetta því í 83. skipti sem mótið er haldið. Konurnar kepptu fyrst árið 1967 og mótið í ár því það 53. í röðinni en það var einmitt einn stofnfélaga GS, Guðfinna Sigurdórsdóttir, sem hampaði fyrsta titlinum en hún vann titilinn þrisvar í röð. Þess má til gamans geta að dóttir Guðfinnu, Karen Sævarsdóttir, er sigursælasti kvenkylfingur Íslands með alls átta Íslandsmeistaratitla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

GS sótti um að halda mótið 2026 eða 2027 en ákvað að láta slag standa í ár þegar Golfklúbbur Reykjavíkur (GR) gaf mótið frá sér síðasta haust en þetta verður í 21. skipti sem Íslandsmótið er haldið í í Leirunni. GS á ríkjandi Íslandsmeistara karlamegin, Logi Sigurðsson vann glæsilegan sigur í fyrra og mætir að sjálfsögðu til leiks í ár til að verja titilinn, ásamt sjö öðrum kylfingum úr GS, þar af eru tvær konur.

Sveinn sagði að GS sé að halda mótið fyrr en áætlað var. „Við vorum á báðum áttum að taka við mótinu því við vorum með aðrar áætlanir en ákváðum svo að taka boðinu, bretta upp ermar og ýta þeim breytingum á vellinum sem hafa verið í undirbúningi undanfarin ár úr vör. Allir lögðust á eitt og ber að þakka starfsfólki og sjálfboðaliðum að ógleymdum nokkrum fyrirtækjum kærlega fyrir sitt framlag. Breytingarnar snúa að holuröðun, byrjunin á vellinum þótti ansi erfið þar sem fjórar erfiðustu holurnar voru þær fyrstu, m.a. hin rómaða Bergvík. Einn góður benti á að það væri hálf nöturleg staðreynd að Bergvíkin væri nánast aldrei í mynd þegar mót eru útkljáð, þess vegna breyttum við röðuninni. Í dag byrjar völlurinn á gömlu níundu brautinni og seinni níu byrja þar sem fyrsta holan byrjaði, Bergvíkin er því orðin hola númer tólf. Einhver sagði að mót séu ekki unnin á Bergvíkinni en þau geta auðveldlega tapast á henni.

Önnur breyting sem líka er vert að minnast á er að gamla fyrsta holan, sem nú er hola númer tíu, breytist úr par 5 í par 4 og allir teigarnir færast framar. Það var ákveðin slysahætta í gangi þegar kylfingar slógu upphafshöggið á gömlu teigunum, ef þeir misstu drævið í „húkk“ þá gat boltinn annað hvort lent í öðrum leikmanni sem var að æfa púttin sín, eða í grjóti sem eru þar fyrir framan og skotist til baka. Nú er engin hætta á ferðum, þessi breyting er frábær að okkar mati og allar þessar breytingar á vellinum hafa mælst mjög vel fyrir hjá þeim sem hafa spilað völlinn í breyttri mynd og við erum mjög ánægð með þær. Aðalvinnan við þessar breytingar hefur verið að byggja nýja stíga og lögðust allir á eitt með að láta dæmið ganga upp, við erum mjög stolt af þessum breytingum á vellinum.“

Bergvíkin er ein fegursta golfhola landsins að margra mati.
„Einhver sagði að mót séu ekki unnin á Bergvíkinni en þau geta auðveldlega tapast á henni.“


Meistara-kvöldverður og pró-am

Golfvöllurinn í Leiru lokaði fyrir hinn almenna golfara frá og með mánudeginum en þá kepptu 35 kylfingar um tvö laus sæti í karla- og kvennaflokki. Sú nýjung er líka að fatlaðir kylfingar fá að láta ljós sitt skína áður en sjálft Íslandsmótið hefst á fimmtudag. Efnt var til móts á þriðjudeginum þar sem nokkrir keppendur í Íslandsmótinu kepptu með almennum kylfingum úr röðum styrktaraðila og svo ákváðu GS-ingar að bjóða upp á nýjung, svokallaðan Meistara-kvöldverð og vonast þeir til að þessi siður muni festa sig í sessi.

„Skráningin í mótið í ár er svipuð og í fyrra en færri komast að en vilja. Hámarksforgjöf í mótið er 1,4 hjá körlum og 7,4 hjá konum. Það hefur orðið mikil framför í golfinu á undanförnum árum og er gaman að sjá hve marga lágforgjafakylfinga við eigum í dag.

Sú nýjung er í ár að fatlaðir kylfingar keppa sín á milli og venja er að mót er haldið í byrjun vikunnar þar sem keppendur á Íslandsmótinu keppa með almennum kylfingum úr röðum styrktaraðila. Við hjá GS náðum svo að koma einni nýjung að og vonumst við til að hún muni festa sig í sessi, svokallaður Meistara-kvöldverður. Hann er þannig að ríkjandi Íslandsmeistarar, sem nú eru þau Logi Sigurðsson og Ragnhildur Kristinsdóttir sem er í GR, ákveða matseðilinn. Allir Íslandsmeistarar eru boðnir í þennan kvöldverð ásamt stjórn GSÍ og GS og verður gaman að sjá hvernig þetta kemur út.

RÚV mun sinna mótinu mjög vel með beinum útsendingum og það var gaman að sjá kynningu hjá KPMG en þeir hafa tekið saman ógrynni tölfræðiupplýsinga frá Íslandsmótunum síðan 2001, þegar vefurinn golf.is opnaði. Við eigum von á fjölda manns og blessunarlega virðast veðurguðirnir ætla að spila gott mót með okkur, við hlökkum mikið til að halda þetta mót,“ sagði Sveinn að lokum.