Samkaup
Samkaup

Íþróttir

Óli Þór vann Leif í tippleik Víkurfrétta og heldur áfram
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 28. október 2024 kl. 10:00

Óli Þór vann Leif í tippleik Víkurfrétta og heldur áfram

Tippleikur Víkurfrétta hófst fyrir alvöru um síðustu helgi en þá mættust markamaskínurnar Óli Þór Magnússon frá Keflavík og Grindvíkingurinn Leifur Guðjónsson. Eftir æsispennandi leik þar sem úrslit í einum leiknum breyttust í síðustu mínútu uppbótartíma, vann Óli Þór baráttusigur, 9-8. Ekki er komið á hreint í þessum skrifuðu orðum hverjum hann mætir í næstu umferð.

Leifur var ennþá að sleikja sárin þegar blaðamaður náði tali af honum.

„Þetta eru einhver mestu vonbrigði sem ég hef upplifað á ferlinum held ég bara svei mér þá! Ég var með unninn leik í höndunum og ef Everton - Fulham hefði farið 2 eins og allt stefndi í, hefði ég haft þann leik réttan en Óli ekki, hann var með 1 X á leiknum á meðan ég var með 1 2. Everton jafnaði á fjórðu og seinustu mínútu uppbótartímans og því fór sem fór. Það mun taka mig langan tíma að jafna mig eftir þessi vonbrigði en ég vona að þetta muni ekki bitna á frammistöðu minni í tippleiknum okkar í Nesfiski. Ég er búinn að vera mjög öflugur þar á þessu tímabili eftir að hafa staðið mig verulega illa í fyrra. Í raun má ég kannski þakka fyrir að fá að taka þátt þar en eftir öflugan undirbúning í sumar hef ég komið sterkur í þann leik á þessu tímabili. Út af þessu góða gengi átti ég algerlega von á því að taka Óla Þór og bið aðdáendur mína hér með afsökunar. Ég mun koma sterkur upp aftur,“ sagði hnýpinn Leifur Guðjónsson.