Mun ekkert stöðva trommuslátt Joey?
Fátt virðist ætla stöðva trommuslátt Jóhanns D. Bianco eða Joey Drummer eins og hann er þekktastur, í tippleik Víkurfrétta. Hann tók síðasta áskoranda, Jón Newmann með nettu trommusólói og enduðu leikar 9-7.
Joey hefur tekið örugga forystu í heildarleiknum, er með 34 leiki rétta eftir að hafa haldið velli fjórum sinnum en það gerir meðaltal upp á 8,5 og ljóst að hann mun bæta í heildarfjöldann þar sem hann heldur velli. Þórunn Katla Tómasdóttir er örugg í 2. sæti með 24 rétta og hinir sem unnu tvo leiki, þeir Óli Þór Magnússon, Birgir Már Bragason og Helgi Bogason, eru jafnir með 17 leiki.
Leit stendur yfir af næsta áskoranda, nokkuð ljóst að kafa þarf djúpt til að finna einhvern sem á að geta staðið uppi í hárinu á Drummernum.