Fjöldi verðlauna til Suðurnesjafólks á sterku júdómóti
Haustmót Júdósambands Íslands fór fram síðustu helgi í Akurskóla. Venjulega heldur Ungmennafélag Grindavíkur mótið í Grindavík en vegna aðstæðna er það ekki hægt. Júdódeild UMFG er í samstarfi við Júdófélag Reykjanesbæjar svo iðkendur sem bjuggu í Grindavík geti haldið áfram að iðka sýna grein og keppa fyrir sitt merki. Iðkendur í báðum félögum æfa í Júdófélagi Reykjanesbæjar undir leiðsögn sama þjálfara en gefst kostur á að keppa fyrir sitt félag.
Í félaginu eru toppþjálfarar. Yfirþjálfari er Dr. George Bountakis, 6. dan, sem hefur margra ára reynslu í júdó og hefur þjálfað helsta afreksfólk í heiminum.
Félagið býður upp á æfingar fyrir iðkendur frá þriggja ára aldri og er til húsa að Smiðjuvöllum 5.
Júdófélag Reykjanesbæjar og júdódeild UMFG unnu til fjölda verðlauna á Haustmóti JSÍ (fimm gull, átta silfur og fjögur brons). Haustmótsmeistarar frá félögunum voru þau Arnar Páll Harðarson, Pamela Rós Ómarsdóttir, Arnar Einarsson, Ari Einarsson og Krista Líf Sigurðardóttir.
Meðfylgjandi ljósmyndir eru af keppendum JRB og UMFG.