Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Þrjár flugur slegnar í sama höfuðið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 28. október 2024 kl. 07:00

Þrjár flugur slegnar í sama höfuðið

„Mér mun ekki endast ævin að laga allar þær tóftir og grjótveggi sem eru í Höfnum,“ segir Sveinn Enok Jóhannsson, Hafnabúi sem hefur fullan hug á því að gera umhverfið í kringum sig fallegra og lærði því að hlaða grjóti en mikið er um gamlar grjóthleðslur og tóftir í Höfnum og næsta nágrenni. Það telst venjulega gott þegar tvær flugur eru slegnar í sama högginu, Sveinn bætti í raun um betur og náði þremur, tók þátt í að halda námskeiðið, lærði listina og fékk auk þess fjölda manns til að hjálpa til við að gera garðinn sinn fallegri.

Svein hafði lengi dreymt um að læra þessa list og vill hvergi annars staðar búa í dag en í Höfnum.

„Ég er fæddur og upp alinn í Höfnum en flutti með foreldrum mínum í Njarðvík þegar ég var tólf ára gamall. Eftir nám í Reykjavík og hafa búið víðsvegar í heiminum, byrjaði ég að byggja í Höfnum árið 2019 og í dag vil ég hvergi annars staðar búa. Ég var búinn að ganga lengi með þann draum í maganum að læra grjóthleðslu því það eru grjóthlaðnar tóftir og veggir út um allt hér í Höfnum. Ég ætlaði mér í Skagafjörðinn á námskeið en eignaðist fjölskyldu svo þau áform voru sett í salt. Svo datt mér þetta í hug, fékk styrk frá HS Orku og fékk Kristínu Keldal, skrúðgarðyrkjumeistara, til að halda námskeið í grjóthleðslu hér á lóðinni við heimilið mitt. Það má segja að ég sé að ná að slá þrjár flugur í einu höggi, held námskeiðið með Kristínu, læri listina og fæ allar þessar aukahendur við að gera fallegt í garðinum hjá mér. Það komust færri að en vildu svo það er greinilega grundvöllur fyrir að halda svona námskeið, ég sé alveg fyrir mér að hægt sé að halda námskeið að vori og hausti og það jafnvel fleiri en eitt. Þau sem mættu þessar tvær helgar eru að gera allt milli þess að hlaða fallegan vegg í bústaðnum sínum, yfir í að laga gamlar tóftir við heimilið sitt. Mér mun ekki endast ævin að laga allar þær tóftir og veggi sem eru hér í Höfnunum en talið er að byggð hefjist hér við landnám svo það er auðvitað mjög spennandi að vera handleika sama grjót og forfeður okkar voru hugsanlega að reisa húsin sín með á landnámsöld.“

Smáhýsi og fjögur ný einbýlishús

Sveinn er ekki við eina fjöl felldur, hann er með tvö önnur metnaðarfull verkefni í gangi í Höfnum.

„Ég er búinn að sækja um leyfi til að reisa tíu smáhýsi í landi Hvamms, sem er jörð í Höfnum. Ég sé þetta fyrir mér fyrir erlenda og innlenda ferðamenn og án þess að ég sé að reyna koma Höfnum á kortið þá vil ég að staðurinn geti verið viðkomustaður ferðamanna en það er engin gisting í boði í dag fyrir ferðamenn, það verður gistirými fyrir sex manns í hverju smáhýsi. Þetta mun verða mjög fallegt svæði, ég ætla að setja heita potta og gera þetta aðlaðandi og sé fyrir mér að hópar geti komið, eldað sér í gamla skólanum og félagsheimilinu sem er við hliðina. Þetta er mjög spennandi verkefni sem ég hlakka til að verði að veruleika.

Svo er ég hluti af Þróunarfélagi Hafna, sem var að fá samþykkt að byggja fjögur 126 fm einbýlishús með þremur svefnherbergjum á Djúpavoginum sem er gata í Höfnum. Ég vonast til að við getum sett þetta í sölu á þessu ári en hingað til hefur ekki verið mikið hægt að byggja í Höfnum því mest af landinu er friðað. Það var búið að byggja grunn í Djúpavoginum í kringum 1980 en þær framkvæmdir hættu svo þessi fjögur hús sem við erum að fara byggja eru fyrstu nýbyggingarnar í mjög langan tíma. Ég hef á tilfinningunni að hlutirnir séu að breytast, hér áður fyrr flutti fólk í Hafnir því íbúðarverðið var svo lágt en fólk er að átta sig á fegurðinni við að búa á svona stað, með alla þessa náttúru í kring og rólegheit en alla þjónustu í nokkurra mínútna akstursfjarlægð. Það var frábært að alast hér upp á sínum tíma, frelsið var algert og ég gæti ekki hugsað mér að búa á öðrum stað en Höfnum í dag. Ég held að Hafnir muni stækka og dafna í nánustu framtíð,“ sagði Sveinn að lokum.