Blanda af hæfileikum og topp karakter
- Kristinn Pálsson leikur körfubolta í Róm næstu árin
Hinn 15 ára gamli Kristinn Pálsson, leikmaður í yngri flokkum Njarðvíkinga í körfubolta, er á leið til Ítalíu í haust þar sem hann mun leika með Stella Azzura Rome akademínunni. Samhliða því mun Kristinn stunda nám við alþjóðlegan menntaskóla í Rómarborg. Í fyrra heimsótti Kristinn skólann og spilaði með liði Azzura á æfingarmótum í Barcelona og í grennd við Mílanó. Kristinn stóð sig vel á mótunum og var m.a. valinn besti ungi leikmaðurinn á mótinu nærri Mílánó en þar léku leikmenn sem voru allt að 19 ára gamlir.
Kristinn hefur mikinn metnað og hann segir að ákvörðunin hafi í raun ekki verið ýkja erfið þegar tækifærið bauðst. „Ég ákvað að stökkva á þetta en þetta opnar nýjar dyr fyrir mig og býr mig undir næstu tækifæri í lífi mínu,“ segir Kristinn en hann hefur hug á því að fara í háskóla í Bandaríkjunum þar sem viðskiptafræðin heillar. „Það hefur verið draumur hjá mér síðan ég var krakki að spila körfubolta í Bandaríkjunum.“
Allt nám í skólanum í Róm fer fram á ensku en Kristinn þarf að læra ítölsku þar sem flestir liðsfélagar hans tala litla sem enga ensku. Hann segir að það geti komið sér að vel að kunna ítölskuna seinna meir.
Kristinn er harðduglegur að æfa og það verður ekki slegið slöku við í sumar. En hann mun æfa oftar en einu sinni á dag og þá mun hann m.a. að æfa aukalega með Elvari Má Friðrikssyni leikmanni meistaraflokks Njarðvíkur. „Það er mjög skemmtilegt að æfa með honum þar sem hann er aðeins byrjaður með okkur í meistaraflokki. Hann stendur sig mjög vel og er að veita mönnum mikla samkeppni, svo er hann líka að mæta á aukaæfingar og greinilegt að það er mikill metnaður hjá honum að ná langt,“ segir Elvar Már.
Hefur hlotið gott körfuboltauppeldi
Þjálfarinn Einar Árni Jóhannsson hefur þjálfað Kristinn frá unga aldri og hann hrósar leikmanninum í hástert. „Hann er í hópi þeirra sem er hvað duglegastur að sækja morgunæfingar á veturna og hann hefur svo sem notið góðs af því að fá að spila helling upp fyrir sig í gegnum tíðina í yngri flokkunum. Hann hefur staðið sig mjög vel með UMFN og ekki síður með yngri landsliðum Íslands þar sem að Stella Azzura kom til dæmis auga á hann.“
Einar hrósar sérstaklega körfuboltauppeldi sem Kristinn hefur hlotið hjá foreldrum sínum Páli Kristinssyni og Pálínu Gunnarsdóttur sem bæði spiluðu fyrir Njarðvík á sínum tíma.
„Körfuboltinn hefur skipað stóran sess hjá þeim - þannig að hann hefur horft á mikinn körfubolta sem er ofboðslega vanmetinn þáttur í því að verða betri. Kristinn á sterkt bakland þar sem foreldrar og fjölskyldan öll hafa stutt hann vel alla tíð í boltanum,“ segir Einar Árni sem telur að dvöl Kristins á Ítalíu muni bæta hann mikið sem leikmann.
„Það er klárlega stórt tækifæri að komast í það að spila körfubolta í svona stóru körfuboltalandi þar sem Kristinn mun spila hér og þar um Evrópu með sínu liði. Fyrir vikið verður hann sýnilegur og það eitt og sér getur að sjálfsögðu opnað ákveðnar dyr í framhaldinu. Fyrst og síðast er þetta frábær reynsla, sem að gefur honum tækifæri til þess að halda áfram að bæta sig í öflugu umhverfi og mennta sig um leið,“ segir Einar.
Vinnusamur og fjölhæfur leikmaður
Spurður um helstu kosti Kristins sem leikmanns þá stendur ekki á svörum hjá þjálfaranum. „Sem leikmaður er hann náttúrulega ofboðslega vinnusamur og mjög fjölhæfur leikmaður. Hann er öflugur varnarmaður og hefur sýnt styrk sinn varnarlega í teignum gegn jafnöldrunum en út á velli með eldri hópum. Sóknarlega er hann frábær skotmaður, en umfram allt mjög fjölhæfur. Getur skorað í teignum, sótt á körfuna og búið til fyrir aðra.“
Einar segir Kristinn einnig hafa réttu skapgerðina til þess að ná langt. „Kristinn er léttur og kátur, það er alltaf stutt í brosið hjá honum og hann er virkilega góður liðsmaður sem gefur af sér. Þessi blanda af hæfileikum í körfubolta og topp karakter er gott vopn á leiðinni í að ná langt í boltanum.“
Kristinn erfir hæðina frá pabba sínum en hann er nú 1.96 cm á hæð.