Skólaslit
Skólaslit

Íþróttir

Grindavík ætlar sér að gera betur en í fyrra og það þýðir bara eitt
Mynd / Ingibergur Þór
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 3. október 2024 kl. 07:00

Grindavík ætlar sér að gera betur en í fyrra og það þýðir bara eitt

„Það var ákveðinn sláttur á okkur í fyrra, við ætlum okkur ekki að vera með minni slagkraft í vetur,“ segir þjálfari karlaliðs UMFG í Bónusdeild karla, Jóhann Þór Ólafsson, en enginn þjálfari fyrir utan bróður hans með kvennalið UMFG, þurfti að upplifa neitt viðlíka á síðasta tímabili þar sem allir þurftu að yfirgefa Grindavík. Smárinn varð nýi heimavöllurinn og Grindavík nýtti sér mótlætið mjög fljótlega og reið á stórri öldu allt til loka tímabils en þurfti að lúta í lægra haldi í oddaleik gegn Val í lokaúrslitum Íslandsmótsins.

Á lokahófi liðsins var strax tilkynnt um nýja samninga við leikmenn og fljótlega ljóst að Grindvíkingar leggja allt í sölurnar í vetur til að landa titli, já eða titlum.

„Að sjálfsögðu voru mikil vonbrigði að ná ekki að landa Íslandsmeistaratitlinum á síðasta tímabili en í raun var strax kominn hugur í okkur og við tryggðum okkur strax krafta Deandre Kane, ég er nokkuð viss um að önnur íslensk lið hefðu borið víurnar í hann ef við hefðum ekki klófest hann. Það gustaði auðvitað í kringum hann en það var miklu meira jákvætt en neikvætt, fjölmiðlar voru fljótari að pikka upp það neikvæða en allir í hópnum eru himinlifandi að hafa hann áfram, það dugir mér. Við náðum líka að halda Dananum Daniel Mortensen og ég var ánægður með að næla í Jason Gigliotti en hann er Bandaríkjamaður sem leikur á ungversku vegabréfi, eins og Deandre frændi hans. Jason er miðherji og skilaði flottum tölum með Þór Akureyri í 1. deildinni í fyrra, ég er viss um að hann mun passa vel í úrvalsdeildina. Ég hefði auðvitað vilja halda Dedrick Basile en var ánægður með mína menn að fara ekki í verðstríð við Stólana. Því þurfti ég að finna nýjan Kana og bind miklar vonir við Devon Thomas sem er sömuleiðis lítill og snöggur leikstjórnandi. Hann er mjög öflugur varnarlega og ég hef trú á að hann muni reynast okkur vel í vetur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Við missum Arnór Tristan Helgason, hann ætlar að spreyta sig á Tenerife í vetur og á örugglega eftir að standa sig þar og vaxa sem leikmaður. Í staðinn fáum við tvo gamla félaga, Odd Rúnar Kristjánsson og Björgvin Hafþór Ríkharðsson, þeir eiga eftir að þétta hópinn.“

Öll liðin ætla sér titilinn

Í fyrra var talað um að átta til tíu lið hafi ætlað sér Íslandsmeistaratitilinn og fyrir þetta tímabil má í raun gera ráð fyrir að öll liðin ætli sér alla leið, nýliðar deildarinnar eru af dýrari gerðinni, Reykjavíkurrisarnir KR og ÍR.

„Það var sláttur á okkur í fyrra og við ætlum okkur ekki að vera með minni slagkraft í vetur en málið er bara að nánast öll hin liðin hugsa eins. Valsarar eru alltaf sterkir, Stólarnir ætla sér alla leið, metnaðurinn í Keflavík er alltaf sá sami og ég gæti í raun nefnt öll liðin, ég held að deildin muni enn og aftur toppa sig í vetur og það er von á spennandi og skemmtilegu móti.

Ég á ekki von á öðru en mínir sveitungar muni halda áfram að líta á körfuboltaleiki sem samverustundir, við áttum frábæran tíma saman í Smáranum á síðasta tímabili og sé ekki út af hverju það ætti ekki að halda áfram í vetur. Við ætlum okkur að gera betur en í fyrra og það þýðir bara eitt,“ sagði Jóhann Þór að lokum.