Íþróttir

Grindavík vann Keflavík í Bónusdeild kvenna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 30. október 2024 kl. 10:06

Grindavík vann Keflavík í Bónusdeild kvenna

Njarðvík vann Aþenu

Grindavík vann Keflavík í gærkvöldi í Bónusdeild kvenna og Njarðvík vann lið Aþenu en þetta var fimmta umferðin. Sjaldan eða aldrei hefur deildin verið eins jöfn, Suðurnesjaliðin öll með þrjá sigra og tvö töp eins og þrjú önnur lið sem eru með tvö töp en Haukar hafa bara tapað einum leik.

Njarðvík vann lið Aþenu, 70-63 og var Brittany Dinkins atkvæðamest með 27 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.

Leikur Grindavíkur og Keflavíkur var köflóttur, Grindavík rúllaði Keflavík upp í fyrsta leikhluta, 25-12 en Keflavík svaraði með 14-0 áhlaupi en Grindavík leiddi í hálfleik, 40-35. Leikurinn var síðan í járnum í seinni hálfleik en Keflavík virtist vera með pálmann í höndunum, voru einu stigi yfir þegar u.þ.b. tíu sekúndur lifðu leiks en þá fékk Jasmine Dickey dæmda á sig sóknarvillu. Alex Morris kom Grindavík yfir og Friðrik Ingi, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé. Dickey átti gott skot sem geigaði, Keflavík skaut í frákastinu og vildi Frikki meina að brotið hefði verið á sínum leikmanni þá og átti hann langt spjall við dómaratríóið að leik loknum en þó í mesta bróðerni.

SSS
SSS

Kanar liðanna voru hlutskarpastar, Alex Morris með 33 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar, Jasmine Dickey með 27 stig, 11 fráköst og 2 stoðsendingar.

Blaðamaður Víkurfrétta tók púlsinn á þjálfurum liðanna að leik loknum.