Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Íþróttir

Keflavík tapaði fyrir framan hálftóma stúku
Anita Lind átti þrumuskot úr aukaspyrnu sem markvörður Blika varði vel. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2024 kl. 08:30

Keflavík tapaði fyrir framan hálftóma stúku

Keflvíkingar  töpuðu í gær á heimavelli fyrir Breiðabliki, toppliði Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Gestirnir skoruðu tvívegis í fyrri hálfleik og leikurinn var alfarið í þeirra höndum – Keflvíkingar voru hreinlega á hælunum.

Það vekur athygli og áhyggjur manna af stöðu kvennaknattspyrnunnar hér í bæ, eða kvennaíþrótta almennt talað, að það hafi einungis níutíu manns haft áhuga á að mæta á leik í efstu deild og styðja við sitt lið er illskiljanlegt. Ekki var veðrinu um að kenna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflavík - Breiðablik 0:2

Keflvíkingar mættu ekki tilbúnar í slaginn og leyfðu gestunum að taka völdin á vellinum, skýrt dæmi um kraftleysið er að ekki ein einasta aukaspyrna var dæmd á Keflavík allan fyrri hálfleik. Blikar gengu fljótt á lagið og tóku forystu í upphafi leiks með marki Katrínar Sveinbjörnsdóttur (4') sem síðan tvöfaldaði forystuna á 28. mínútu. Katrín ætlar að reynast Keflavík erfið í sumar en hún skoraði einnig tvívegis þegar liðin mættust í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins á dögunum, þá tók hana aðeins tvær mínútur að skora fyrsta markið.

Keflvíkingar komust ekki í takt við leikinn allan fyrri hálfleikinn en unnu sig ágætlega inn í hann í þeim seinni. Anita Lind Daníelsdóttir átti fínan leik og var sennilega næst því að skora fyrir Keflavík þegar hún tók aukaspyrnu um tuttugu mínútum fyrir leikslok. Anita er með öflugan skotfót og lét vaða á markið, þrumuskot hjá Anitu en markvörður Blika sá við henni með góðri markvörslu.

Leikurinn var í heild ekki mikið fyrir augað en Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sagði í viðtali við Fótbolti.net eftir leik að henni fannst Keflavík eiga meira skilið í seinni hálfleik.

Keflavík leikur þessa dagana án nokkurra lykilleikmanna sem eru frá vegna meiðsla en þá hafa ungir leikmenn þurft að stíga upp. „Þetta er náttúrlega mikið af Keflavíkurstelpum sem eru að spila hérna, ungar stelpur sem eru að fá að stíga gríðarlega mikilvæg skref í sínum ferli að spila hérna leiki. Þær eru að koma gríðarlega vel inn í þetta þannig að auðviðitað er erfitt að missa þessa leikmenn út en mér finnst þeir leikmenn sem hafa komið inn í staðinn hafa staðið sig gríðarlega vel,“ sagði Guðrún Jóna en næstu tveir leikir eru sérstaklega mikilvægir.

Guðrún Jóna og Jonathan Glenn, þjálfarar Keflvíkinga.

Keflavík mætir Stjörnunni í elleftu umferð en núna er Stjarnan einu sæti fyrir ofan Keflavík með þriggja stiga forskot en á leik til góða. Í tólftu umferð taka Keflvíkingar svo á móti Fylki sem er á botninum með fimm stig en Keflavík er með sex. „Við þurfum að halda áfram. Við þurfum að halda trú. Við þurfum að gefa allt í þessa leiki, það er bara þannig að við þurfum að fara í þessa leiki og gefa allt í þá,“ sagði Guðrún Jóna en viðtalilð má sjá í heildi sinni á Fótbolti.net