Flugger
Flugger

Íþróttir

Myndasafn: Keflavík og Njarðvík skiptu með sér stigunum
Úr leik Keflavíkur og Njarðvíkur í kvöld. Freysteinn Ingi Guðnason með boltann og Dagur Ingi Valsson er til varnar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2024 kl. 20:56

Myndasafn: Keflavík og Njarðvík skiptu með sér stigunum

Keflavík og Njarðvík skildu jöfn þegar liðin áttust við í kvöld á HS Orkuvellinum í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Aðstæður voru frábærar en leikurinn fór fram í blíðaskapaveðri og fjöldi áhorfenda mætti til að fylgjast með en áhorfendafjöldinn var 1.100 manns.

Það má segja að þetta hafi verið leikur tveggja hálfleika en í þeim fyrri voru heimamenn mun grimmari og höfðu yfirhöndina. Þeir uppskáru mark á fimmtándu mínútu og hefðu hæglega getað skorað fleiri. Topplið Njarðvíkinga mætti mun ákveðnara til leiks í síðari hálfleik, jöfnuðu fljótlega og eins og heimamenn hefðu þeir getað skorað fleiri mörk. Að lokum var jafntefli niðurstaðan og hvorugt lið ánægt með það.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Keflavík - Njarðvík 1:1

Ásgeir Páll Magnússon kom Keflavík yfir eftir hornspyrnu. Sami Kamel gaf fyrir markið og Njarðvíkingar náðu ekki að bægja hættunni frá, boltinn barst til Edon Osmani sem hitti hann ekki vel en Ásgeir Páll Magnússon var vel vakandi og stýrði honum í markið (15').

Mark Keflavíkur frá tveimur sjónahornum. Myndirnar tóku ljósmyndarar Víkurfrétta á nánast sama andartaki, þá efri tók Jóhann Páll Kristbjörnsson þar sem hann var staðsettur niðri á velli en Hilmar Bragi Bárðarson var við stjórnvölinn á dróna náði þessu skemmtilega vinkli af markinu.

Keflvíkingar voru mun skeinuhættari í fyrri hálfleik og vörn Njarðvíkinga átti oft og tíðum fullt í fangi með aðgangsharða sókn heimamanna.

Arnar Helgi Magnússon var nærri því að setja þennan inn með hælnum eftir hornspyrnu Njarðvíkinga í fyrri hálfleik en Keflvíkingar komust fyrir boltann og bægðu hættunni frá.

Í seinni hálfleik snerist leikurinn við. Njarðvíkingar mættu ákafir til leiks, sóttu stíft og uppskáru að lokum mark sem Arnar Helgi Magnússon skoraði eftir aukaspyrnu(58').

Arnar Helgi jafnaði leikinn með marki eftir aukaspyrnu.

Oumar Diouck fór illa að ráði sínu skömmu síðar þegar Arnar Helgi missti boltann klaufalega yfir sig og Diouck sá að Ásgeir Orri Magnússon var staddur framarlega. Diouck reyndi að skjóta yfir Ásgeir sem hrasaði og datt þegar hann reyndi að komast til baka í markið en Keflvíkingar sluppu með skrekkinn því skotið fór yfir mark þeirra.

Oumar Diouck vissi að hann hefði átt að gera betur þarna.

Pressan var öll á Keflavík í seinni hálfleik en vörn þeirra stóð af sér orrahríð Njarðvíkinga og litlu munaði að Keflvíkingar næðu að stela sigrinum í lokin en þá var mikill darraðadans í teig gestanna en þeir komust fyrir hverja skottilraunina af annarri og bægðu hættunni að lokum frá.

Leiknum lauk því með jafntefli en bæði lið hefði viljað sjá öll stigin sín megin. Njarðvíkingar eru vissulega á toppnum en Fjölnir jafnaði þá að stigum með sigri á Aftureldingu. Keflvíkingar eru hins vegar í sjötta sæti og mótið nærri því hálfnað, það er staða hvorki leikmenn né stuðningsmenn þeirra eru sáttir við.


Viðtöl og leikurinn eru í spilaranum hér að neðan og neðst á síðunni er veglegt myndasafn ljósmyndara Víkurfrétta [Jóhann Páll tók myndir niðri á vellinum en Hilmar Bragi tók drónamyndirnar].

Viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir leik


Keflavík - Njarðvík 1:1

Keflavík - Njarðvík (1:1) | Lengjudeild karla 26. júní 2024