Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar hnykluðu vöðvana
Mánudagur 27. janúar 2014 kl. 20:46

Keflvíkingar hnykluðu vöðvana

Unnu öruggan 105-84 sigur á Njarðvíkingum

Keflvíkingar sýndu styrk sinn í kvöld þegar þeir fengu granna sína frá Njarðvík í heimsókn í Domino's deild karla í körfubolta. Óhætt er að segja að gestirnir hafi aldrei séð til sólar í TM-Höllinni en Keflvíkingar unnu öruggan 105-84 sigur.

Heimamenn virtust ákveðnir í að sýna Njarðvíkingum enga gestrisni en þeir hófu leikinn með miklum látum. Keflvíkingar tóku ótrúlegan sprett þegar staðan var 7-6 þeim í vil eftir þriggja mínútna leik. Eftir það skoruðu Njarðvíkingar ekki stig í rúmar þrjár mínútur, en þá var staðan 22-8 fyrir Keflavík. Njarðvíkingar náðu örlítið að rétta úr kútnum sóknarlega en Keflvíkingar heldu áfram að skora að vild nánast. Staðan var 30-14 að loknum fyrsta leikhluta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar svöruðu með 0-5 spretti í öðrum leikhluta og ljóst að þeir ætluðu ekki að láta kafsigla sig. Gunnar Ólafsson sá um stigaskorið að mestu hjá bláum en hann skoraði átta stig í röð í byrjun leikhlutans, en piltur endaði með 20 stig í leiknum.
Keflvíkingurinn Michael Craion var hrikalegur í teignum og skoraði nánst að vild gegn Tracy Smith. Ekki gott að segja hvort Smith sé slakur varnarmaður eða þá að leikformið sé að segja til sín. Það virtist ekkert vanta upp á leikformið hjá Magnúsi Gunnarssyni. Þriggja stiga kóngurinn nýbakaði sallaði niður þremur þristum á Njarðvíkinga í fyrri hálfleik og virtist engu hafa gleymt þrátt fyrir langa fjarveru. Keflvíkingar leiddu með 10 stigum í hálfleik, 48-38, eftir ágætis mótspyrnu frá Njarðvíkingum sem virtust til alls líklegir.

Aftur mættu Keflvíkingar brjálaðir til leiks á meðan Njarðvíkingar virtust með hugann við eitthvað allt annað en körfubolta. Keflvíkingar buðu upp á alls kyns tilþrif og náðu aftur öruggri forystu í byrjum seinni hálfleiks. Eftir um þrjár mínútur af seinni hálfleik var staðan orðin 59-42 fyrir heimamenn. Varnarleikurinn virtist hreinlega ekki vera til staðar hjá Njarðvíkingum. Munurinn jókst jafnt og þétt og á tímabili var munurinn orðinn yfir 20 stig. Útlitið svart hjá gestunum frá Njarðvík, en staðan var 81-62 þegar síðasti leikhluti hófst.

Lítið breyttist undir lokin og heimamenn fögnuðu glæsilegum og öruggum sigri. Ýmsir efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig hjá báðum liðum oen Njarðvíkingar voru aldrei líklegir til þess að gera þetta að alvöru leik. Flestir bjuggust fyrirfram við jöfnum og spennandi leik en Keflvíkingar voru á öðru máli. Þeir áttu sigurinn fyllilega skilinn og virtust eiga svör við öllum aðgerðum Njarðvíkinga. Leikurinn var nokkur vonbrigði fyrir körfuboltaáhugafólk og þá sérstaklega Njarðvíkinga. Keflvíkingar leggjast hins vegar á koddann með bros á vör í kvöld.

Keflavík-Njarðvík 105-84 (30-14, 18-24, 33-24, 24-22)

Keflavík: Michael Craion 31/7 fráköst/4 varin skot, Darrel Keith Lewis 24/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 20/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 9/6 stoðsendingar, Arnar Freyr Jónsson 4/4 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 3, Andri Daníelsson 2, Aron Freyr Kristjánsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Hilmir Gauti Guðjónsson 0, Sigurþór Ingi Sigurþórsson 0.

Njarðvík: Logi Gunnarsson 25, Elvar Már Friðriksson 21/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tracy Smith Jr. 19/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 6/6 fráköst, Ágúst Orrason 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Óli Ragnar Alexandersson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Halldór Örn Halldórsson 0, Egill Jónasson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Magnús Már Traustason 0.

Gunnar Ólafsson átti góðan leik og skoraði 20 stig.

Gunnar Ólafsson átti góðan leik og skoraði 20 stig. VF-myndir/PállOrri.

Ólafur Jónsson sækir að körfu Keflavíkur.

Magnús Gunnarson spilaði sinn fyrsta leik eftir meiðsli og var með 12 stig.

Elvar Már Friðriksson skýtur að körfu Keflavíkur.


Keflvíkingar þakka fyrir sig eftir leikinn.