Keppir í úrvalsdeildinni í FIFA
Alexander Aron Hannesson keppir fyrir Keflavík úrvalsdeild KSÍ í e fótbolta
Mjög fáir vita fyrir hvað rafíþróttir standa. Rafíþróttir eru stundaðar í vaxandi mæli út um allan heim og í ár steig Knattspyrnusamband Íslands stórt skref í að fá rafíþróttir viðurkenndar sem íþróttagrein þegar KSÍ kom á fót úrvalsdeild í e fótbolta.
Alexander Aron Hannesson er einn af átta leikmönnum sem keppa í úrvalsdeildinni. Hann keppir undir merkjum Keflavíkur en auk þess að keppa í e fótbolta er Alexander leikmaður Reynis Sandgerði sem vann sér á dögunum sæti í 2. deild karla í knattspyrnu. Víkurfréttir áttu spjall við Alexander um e fótbolta.
– Þú keppir fyrir hönd Keflavíkur, eruð þið mörg sem takið þátt í e fótbolta af Suðurnesjum?
„Ég held að ég sé sá eini núna, það var annar héðan sem tók líka þátt í Íslandsmótinu sem var haldið í vor. Það var nokkurs konar undanfari úrvalsdeildarinnar og þeir sem lentu í átta efstu sætunum í Íslandsmótinu mynda deildina. Mér skilst að fljótlega verði farið í gang með neðri deildir líka. Þetta á að vera með svipuðu fyrirkomulagi og deildarkeppnin hjá KSÍ.
Ég er einmitt að fara í tökur á kynningarefni fyrir rafíþróttirnar á næstunni, það á að fara að kynna fyrir ungmennum hvað rafíþróttir hafa upp á að bjóða hér hjá RAFÍK (Rafíþróttir Keflavík).“
– Þegar maður hugsar um fullorðna menn í tölvuleikjum sér maður bara fyrir sér feita karla á hlýrabolum, þú ert nú ekki einn þeirra er það?
„Nei, aldeilis ekki – og flestir sem stunda þetta eru strákar úr íþróttum, aðallega fótbolta. Annað hvort þeir sem eru ennþá að spila eða nýhættir. Þetta er orðið allt öðru vísi en ímyndin á tölvuleikjum var.
Til að ná árangri þarftu að kunna fótbolta, ef þú ert með fótboltaheila hjálpar það við hugsunina hvernig þessi leikir virka – engin spurning. Ég væri ekki góður í þessu leik ef ég væri ekki í fótbolta sjálfur eða hefði verið í fótbolta áður.“
– Ertu búinn að spila lengi?
„Ég er í raun ekki búinn að vera lengi í FIFA, ég keypti mér fyrstu Playstation 4 tölvuna í desember 2017. Þá keypti ég fyrsta FIFA-leikinn minn sem var FIFA 18, ég er í raun bara í þriðja leiknum og núna er sá fjórði að koma út. Maður hafði alltaf verið að spila hjá vinum sínum, tekið einn og einn leik þar og alltaf kunnað á þetta.“
– Æfið þið eða spilar bara hver í sínu horni?
„Keflavík er að setja rafíþróttadeild í gang. Stefnan hjá Keflavík, eða RAFÍK, er að kynna þetta fyrir yngra fólki og að það verði þjálfun og þess háttar í framtíðinni. Eins og er spila ég bara heima, ég held að flestir geri það, svo horfir maður á erlenda atvinnumenn á netinu og lærir heilmikið af þeim.“
– Hvernig hefur þér gengið í úrvalsdeildinni?
„Eins og er þá er ég í fyrsta sæti. Það eru búnar fjórar umferðir en einn leikur sem á eftir að spila, það eru Íslandsmeistarinn og sá sem lenti í öðru sæti, annar þeirra getur jafnað eða komist upp fyrir mig. Ég er búinn að vinna tvo leiki og gera tvö jafntefli. Í heildina eru þetta fjórtán umferðir svo það er nóg eftir.
Síðasta umferðin í FIFA 20, gamla leiknum, verður spiluð á miðvikudaginn og eftir það færum við okkur yfir í nýja leikinn. Það verður svolítið sérstakt því maður er vanur þessum gamla og nýi leikurinn er talsvert frábrugðinn. Þannig að maður verður að æfa sig vel á næstunni. Ég er búinn að spila nýja leikinn, maður fær tíu klukkutíma aðgang að honum áður en hann kemur út, og þetta er bara nýr leikur – maður þarf að læra allt upp á nýtt.“
– Hvernig virkar þessi leikur? Velurðu þér bara lið og byrjar að spila?
„Það er svolítið flókið að útskýra það. Maður byrjar á að kaupa sér pakka og velja sér leikmenn sem fara vel saman, leikmenn passa misvel saman. Sem dæmi má segja að ef þú ert með bakvörð og hafsent sem báðir eru franskir en leika í sitt hvorri deildinni þá eru þeir veikara par en ef þeir spila í sömu deild. Það þarf ekkert endilega að kaupa sér pakka, það er líka hægt að vinna sér inn fyrir þeim en þá þarf maður að vera duglegur við að spila og safna sér. Þetta er lengri leiðin.“
– Er hægt að fylgjast með þessum leikjum einhvers staðar?
„Já, það er sýnt frá leikjunum á hverju miðvikudagskvöldi á Stöð tvö eSport, þá eru fjórir keppendur sýndir en hinir leikirnir fara fram fyrr um daginn og eru ekki sýndir. Það er líka hægt að ná leikjunum á Twitch.tv/rafithrottir.“
– Hvað gerir þú svona fyrir utan fótbolta og e fótbolta?
„Það er voða lítið þessa dagana, ég er mikið í tölvunni og þess á milli fer ég út með hundinn eða er með konunni. Ég er atvinnulaus eins og ástatt er núna en er á leiðinni í nám, láta verða af því að klára stúdentinn. Ég bjó á Akureyri en kláraði ekki námið þar áður en ég flutti suður, ég á rosalega lítið eftir og byrja í fjarnámi núna í lok október. Stefnan er að klára eftir áramót, þá ætti útskrift að vera komin í hús.
Pabbi, amma og afi eru Sandgerðingar og ég flutti þaðan þegar ég var í þriðja bekk. Við fórum fyrst í Hafnarfjörð, mamma er þaðan, og eftir níunda bekk fórum við norður. Þar bjó ég í sjö, átta ár áður en ég kom aftur hingað sumarið 2016. Þá bjó ég fyrst hjá ömmu minni í Keflavík því ég kom á láni frá Þór Akureyri til Reynis. Þá mundi ég hvað það er gott að vera hérna og ákvað eftir sumarið að flytja suður. Byrjaði að leigja upp á Ásbrú og bý núna hjá pabba í Sandgerði, flutti til hans eftir að þessi heimsfaraldur byrjaði,“ segir Alexander að lokum.
Fyrir krakka sem hafa ekki fundið sig í öðrum hópíþróttumArnar Már Halldórsson er í forsvari fyrir RAFÍK (Rafíþróttir Keflavík) og hann sagði okkur hvað væri framundan hjá félagsskapnum. „Þetta Covid er búið að setja okkur í aðstöðu sem ég bjóst ekki við,“ segir Arnar Már. „Við erum búin að vera að leita eftir styrkjum til að kaupa tölvur og það voru nokkrir aðilar búnir að gefa vilyrði fyrir styrkjunum en þeir þurftu að slá öllu á frest út af ástandinu. Við erum komin með samþykki fyrir stofnun deildarinnar frá Keflavík og Reykjanesbæ, deildin mun alla vega til að byrja með heyra undir Keflavík og við getum þá tekið á móti hvatagreiðslum frá Reykjanesbæ fyrir krakkana. Við vorum komin með aðstöðu í 88-húsinu til að setja upp tölvurnar, það er ljósleiðari að koma þangað. Það eina sem stendur á eru styrktaraðilar til að kaupa tölvurnar. Við vorum búin að komast að samkomulagi um kaupin en það var dregið til baka þar sem ástandið er svo ótraust sem stendur.“ Forvarnir í fyrirrúmi„Við stefnum á að vera með æfingar fyrir átta ára og upp úr. Kenna þeim á þá leiki sem þau vilja spila og þjálfa krakkana í þeim. Vil viljum kenna þeim skynsama notkun á tölvuleikjum, hversu marga tíma þú mátt spila á dag o.s.frv. Við viljum kenna þeim að umgangast aðra spilara á heilbrigðan hátt. Þetta er líka hugsað fyrir krakka sem eru mikið í tölvunni og eiga kannski félagslega erfitt – að þau geti fundið sér sinn samastað, sína hópíþrótt. Við viljum veita þessum krökkum, sem hafa ekki fundið sig í öðrum hópíþróttum, skjól. Við hugsum þetta líka fyrir foreldrana, að virkja þá svo þeir geti komist betur inn í það sem barnið þeirra hefur áhuga á – komast inn í heiminn hjá krökkunum.“ Það eru margir spilarar héðan sem eru í félögum í Reykjavík, margir hverjir meðal þeirra bestu í sínum leikjum. Þeir hafa farið annað af því að hér er ekkert félag.“ – Er þetta orðið fjölmennt samfélag sem stundar rafíþróttir? „Þetta er alltaf að vaxa, úti í heimi eru rafíþróttir orðnar mjög stórar og verðlaunin í þessum leikjum eru orðin fáránlega há. Fólk getur orðið atvinnumenn í rafíþróttum og það er meira að segja hægt að komast á háskólastyrki út á rafíþróttir víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þeir sem eru að þéna mest eru komnir í sjötíu milljón dollara og rétt komnir yfir tvítugt. Þetta er orðið miklu stærra en maður býst við. Margir af þessum bestu spilurum eru orðnir hálfgerðar rokkstjörnur, það eru fleiri að fylgjast með rafíþróttum en Formúlu 1.“ Rafíþróttir ekki enn viðurkenndar innan ÍSÍ„Félögin á Íslandi eru að vinna saman að því að breyta vihorfinu gagnvart þessum íþróttum því það er svo margt sem hægt er að læra af þeim. Í mörgum leikjum spila leikmenn saman sem lið og þá er mikilvægt að kunna að tjá sig, eiga samskipti og geta peppað hvern annan upp. Við ætluðum í samstarf við einn skólann í Reykjanesbæ, um leið og við værum komin með tölvur, þar sem það væri val að fara í rafíþróttir.“ – Hafa rafíþróttir verið teknar inn í Íþróttasamband Íslands? „Ekki ennþá, við erum ekki rafíþróttadeild Keflavíkur af því að það er ekki búið að stofna sérsamband. Við erum innan knattspyrnudeildar Keflavíkur og verðum það þar til sérsamband hefur verið stofnað. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar tók rafíþróttir fyrir á síðasta ársþingi og þar eru þessi mál í vinnslu eins og hjá ÍSÍ. Það eru aðilar sem hafa verið að þrýsta á ÍSÍ að samþykkja rafíþróttir sem sérgrein en það tekur bara tíma.“ – Það hlýtur að hafa verið stigið stórt skref í þá átt þegar KSÍ ákvað að stofna deildarkeppni í e fótbolta. „Já, engin spurning. Sem dæmi þá byrjaði mót á Íslandi í Counter Strike og þá voru liðin skipuð félögum sem voru að spila saman. Strax á næsta tímabili voru félög eins og FH og KR komin með lið, síðan hafa bæst við Fylkir, Tindastóll og það er alltaf að bætast við. Við vorum með lið í Keflavík en þurftum að draga okkur úr keppni þar sem við erum ekki búin að koma okkur upp aðstöðu til að æfa. Það stoppar allt á styrkjunum núna.“ – Hvaða leikir eru þetta sem helst er verið að spila? „Það eru leikir eins og Rocket League, FIFA, League of Legends og Counter Strike, þetta eru fjórir stærstu leikirnir eins og er – og það er keppt og haldin mót í þeim reglulega. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér rafíþróttir betur geta fundið okkur á Facebook, þar erum við með síðuna RAFÍK - Rafíþróttir Keflavík.“ |