Valhöll
Valhöll

Íþróttir

Njarðvík tapaði stigum fjórða leikinn í röð – Indriði Áki Þorláksson gengur til liðs við Njarðvíkinga
Aron Snær Friðriksson var besti maður Njarðvíkinga í gær. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 14. júlí 2024 kl. 11:47

Njarðvík tapaði stigum fjórða leikinn í röð – Indriði Áki Þorláksson gengur til liðs við Njarðvíkinga

Jafnt í toppslag Víðis og Kára

Njarðvík gerði markalaust jafntefli við botnlið Dalvíkur/Reynis í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær en Njarðvíkingar hafa aðeins verið að gefa eftir í toppbaráttunni og einungis náð tveimur stigum út úr síðustu fjórum leikjum.

Víðismenn mættu efsta liði þriðju deildar, Kára á Akranesi, og lauk einvígi þeirra með 1:1 jafntefli.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Dalvík/Reynir 0:0

Njarðvíkingar stýrðu leiknum á Dalvík í gær en heimamenn voru hættulegir í skyndisóknum sínum en Aron Snær Friðriksson var gríðarlega öflugur í marki Njarðvíkur og varði vel þegar þess þurfti.

Það er skemmst frá því að segja að hvorugu liði tókst að skora og töpuðu bæði mikilvægum stigum í sinni baráttu á sitt hvorum enda deildarinnar. Njarðvík er áfram í öðru sæti Lengjudeildarinnar en Fjölnir er nú með sex stiga forskot á toppnum.

Mynd af Facebook-síðu knattspyrnudeildar Njarðvíkur.

Njarðvík tilkynnti í morgun að liðið hefur styrkt hópinn og gert samning við miðjumanninn Indriða Áka Þorláksson um að leika út tímabilið með liðinu.

Indriði, sem er 28 ára gamall, lagði skóna óvænt á hilluna í vetur eftir að hafa átt þátt í að koma uppeldisfélagi sínu, ÍA, upp í deild þeirra bestu síðasta sumar.

Alls á Indriði 127 leiki í Lengjudeildinni og gert sextán mörk í þeim en 21 leikjanna komu með meistaraliði ÍA í fyrra. Þess að auki hefur hann spilað 58 leiki í Bestu deildinni og því ljóst um reynslumikinn leikmann að ræða.


Kári - Víðir 1:1

Mörk: Marinó Hilmar Ásgeirsson (Kári, 50') og Haraldur Smári Ingason (Víðir, 67').