Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skutum okkur í fótinn í fyrra
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. október 2022 kl. 07:51

Skutum okkur í fótinn í fyrra

– segir Keflvíkingurinn Hörður Axel Vilhjálmsson en bæði karla- og kvennalið Keflavíkur hafa byrjað körfuknattleikstímabilið í ár með miklum glæsibrag.

Víkurfréttir heyrðu í Herði þar sem hann var á heimleið eftir sigurleik gegn Álftanesi í bikarkeppni karla og við byrjuðum á að spyrja hann lítillega út í þann leik en Keflavík vann leikinn með nítján stigum, 75:94.

„Þetta var hörkuleikur framan af, frekar óþægilegt,“ segir Hörður. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekki eins auðvelt og við var að búast?

„Þeir eru náttúrlega með hörkulið, örugglega með langbesta liðið í 1. deild. Þetta eru alltaf hættulegir leikir að spila og fínt að klára hann.“

Við vendum nú okkar kvæði í kross og snúum okkur að gengi meistaraflokka Keflavíkur það sem af er tímabilinu en Hörður Axel er viðloðandi báða meistaraflokka félagsins, sem leikmaður og fyrirliði karlaliðsins og þjálfari kvennaliðsins.

„Tímabilið fer frábærlega af stað, gæti ekki gengið betur,“ segir hann en bæði lið hafa unnið alla sína leiki til þessa. Keflavík er með fullt hús stiga í báðum Subway-deildum, konurnar eftir fjórar umferðir og karlarnir eftir tvær auk bikarsigursins á Þrótti. „Eins og er eru allir mjög sáttir held ég.“

Hörður Axel er harður í horn að taka og menn vaða ekkert yfir hann.

Gott að eiga skilningsríka konu

Nú ert þú leikmaður í meistaraflokki karla og þjálfari hjá stelpunum, er ekki svolítið erfitt að púsla þessu saman?

„Jú, þetta er svolítið mikið púsluspil og mjög mikilvægt að eiga skilningsríka konu. Þetta er mikil vinna og fjarvera, sérstaklega á kvöldin.“

Það kemur svolítið á óvart hversu öflug byrjunin er hjá stelpunum. Búnar að vinna fyrstu fjóra leikina en komust ekki í úrslitakeppnina á síðasta tímabili.

„Já, svaka kraftur í þeim en á sama tíma má segja að við unnum síðustu fjóra leikina á síðasta tímabili líka. Við náðum smá „momentum“ þar en svo eru þær líka orðnar árinu eldri, þetta er mjög ungt lið – en kannski kemur þetta á óvart miðað við úrslitin á síðasta ári en við erum á pari við okkar eigin væntingar. Við bættum tveimur hörkugóðum leikmönnum við hópinn [Karina Konstantinova og Birna Valgerður Benónýsdóttir] og erum í rauninni að spila eftir sömu prinsippum og í fyrra. Við þurftum ekki að byrja alveg upp á nýtt, sem er eitthvað sem við höfum fram yfir hin liðin.“

Hörður segir að í raun sé hann að mestu með sama lið í höndunum og í fyrra að undanskildum þessum tveimur leikmönnum sem hafa bæst við og þá sé Salbjörg Ragna Sævarsdóttir farin frá liðinu. Hópurinn sé breiður, það sé verið að keyra á mörgum leikmönnum og dreifa álaginu vel.

„Þær ná að vera á fullu allan tímann, ég er að spila á tíu leikmönnum í hverjum leik. Þá getum við haldið þessari pressu allan leikinn, þessum látum og þessari orku sem við erum að reyna að mynda. Okkar styrkleiki liggur í þessari breidd, samheldni, orku og leikgleði sem er í kringum hópinn. Að gera þetta hver fyrir aðra.“

Breidd, samheldni, orka og leikgleði er helsti styrkleiki meistaraflokks kvenna hjá Keflavík að mati Harðar.

Í enda dagsins er þetta bara leikur – ekki gleyma að njóta

Hvert er markmiðið fyrir þetta tímabil?

„Markmiðið er að gera betur en í fyrra. Við förum í alla leiki til að vinna og ef það gengur upp þannig þá hljótum við að enda sem Íslandsmeistarar – en við erum ekkert að líta þangað eins og er. Við einbeitum okkur að næsta leik hverju sinni. Það er hollast fyrir alla því annars fer maður að bíða eftir úrslitakeppninni, þá fer einbeitingin í að toppa á einhverjum „x-tíma“ og svo missir maður kannski af lestinni eins og gerðist í fyrra.“

Hvernig er staðan karla megin? Þið fenguð engan smá leik í byrjun og höfðuð betur þar.

„Við erum reyndar búnir að fá tvo svaka leiki til að byrja með [Tindastól og Stjörnuna], sem er mjög gott fyrir okkur. Það er mjög gott að geta mælt sig við þau lið sem maður er að bera sig saman við svona snemma. Við höfum staðist prófraunina vel í þessum fyrstu tveimur leikjum. Það er góðs viti og ég held að við séum með lið til að gera vel í ár – báðum megin.“

Erum við kannski að fara að sjá tvöfaldan titil til Keflavíkur í ár?

„Það væri náttúrlega alger draumur en á sama tíma þá vil ég bara taka þetta í rólegheitunum og spara einhverjar yfirlýsingar. Auðvitað stefnir maður á að vinna og ég held að öll lið í báðum deildum stefni á að vinna hvern einasta leik. Það væri skrítið að segja ekki að maður myndi vilja vinna tvöfalt – en á sama þarf maður að halda sér á jörðinni og einblína á næsta leik.“

Er sama plan þar, að taka einn leik í einu og horfa styttra fram á veginn í byrjun?

„Já, ég held það og ég held líka að við höfum skotið okkur rosalega í fótinn í fyrra. Þá vorum við allt of mikið að réttlæta eitthvað frá fyrra ári, toppa á réttum tíma og bíða eftir úrslitakeppninni. Mér finnst hafa verið of mikið rugl í gangi í hausnum á manni í staðinn fyrir að einfaldlega spila og njóta hvers leiks fyrir sig en ekki vera að bíða eftir einhverju sem kemur eftir einhverja mánuði. Maður á ekki að vera að eyða tíma í einhverjar pælingar sem skipta ekki nokkru einasta máli – þetta er bara körfubolti. Það er að renna upp fyrir manni, þótt körfubolti skipti mann miklu máli og lífið sé búið að snúast um hann frá því að maður var krakki – þá í enda dagsins er þetta samt bara leikur og maður má ekki gleyma að njóta.“

Hörður er að verða þrjátíu og fjögurra ára gamall og hann segist vera tilbúinn að spila áfram svo lengi sem hann geri eitthvað gagn, eins og hann orðaði það sjálfur. „Svo þegar hægist á manni og maður fer að verða byrði á liðinu – þá fer maður að hugsa sér eitthvað annað að gera.“

Samrýndir bræður: Hörður Axel hefur haft Hjalta, bróður sinn og þjálfara meistaraflokks karla, með sér á hliðarlínunni það sem af er tímabilinu en ekki er enn búið að finna aðstoðarþjálfara kvennaliðsins.