Stundum fer þetta bara ekki ofan í
„Fyrstu fimm leikirnir hafa ekki alveg spilast eins og við hefðum viljað,“ segir Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur sem hefur unnið tvo og tapað þremur í upphafi Bónusdeildar karla í körfuknattleik.
„Tveir af þessum leikjum voru mjög tvísýnir. Tapið fyrir Njarðvík á heimavelli svíður sárast, þá munaði bara einu stigi og gífurlega súrt. Svo töpuðum við í framlengingu á útivelli gegn Hetti, erfður útileikur á Egilsstöðum en þar sem við erum að stefna á að vinna deildina þá var líka skellur að hafa tapað þar.“
Halldór segir að tapið gegn Val hafi verið sannfærandi en svo hafi Keflavíkurliðið náð að þjappa sér saman fyrir heimaleik gegn KR í fimmtu umferð. „Eins og við spiluðum í þriðja leikhluta á móti KR þá finnst mér miklu meira búa í liðinu en við höfum sýnt. Maður verður að taka það jákvæða út úr þessu og byggja á því.
Loksins small vörnin hjá okkur og þá fengum við auðveldar körfur hinum megin, sem við höfðum ekki alveg verið að fá fram að þessu.
Út á við erum við sóknarlið en við þurfum líka vörnina svo við fáum líka auðveldar körfur úr varnarleiknum, með stolnum boltum og hraðaupphlaupum.“
Stutt á milli
Keflavík hefur tapað þremur leikjum á tímabilinu, af þeim tapast einn með einu stigi og annar fer í framlengingu. Það er rosalega stutt á milli.
„Ég er að segja það. Við gætum verið 4-1, jafnir á toppnum og á réttri leið – stundum fer þetta bara ekki ofan í og þá þurfa menn einfaldlega að finna lausnir á vandamálinu og verða betri.“
En það er ekki komin nein örvænting í hópinn.
„Nei, nei, nei – en það er kominn tími til á að menn þjappi sér saman og fari að gera þetta sem lið. Það var gott að verja heimavöllinn á móti KR og við ætlum klárlega byggja á því.“
Halldór segir það að hafa þurft að leika þrjá útileiki í fyrstu fjórum umferðunum hafi gert byrjunina enn strembnari. Hann segist ekki ætla að nota það sem afsökun, hópurinn sé hins vegar í góðum málum og allir heilir.
„Allir í toppstandi, ekkert undan því að kvarta – þó að þjálfarinn segist vera í betra formi en við þá held ég að hann hafi eitthvað verið að ruglast kallinn. Ég myndi allavega vilja sjá hann klæða sig í búning og taka eins og eina æfingu með okkur.“
Wendell Green látinn fara
Halldór svarar þeim tíðindum að Wendell Green hafi verið látinn fara á þeim nótum að hann hafi ekki verið að smella með liðinu. „Þetta hefur ekki gengið alveg. Þú sérð það, við erum búnir að tapa þremur og vinna tvo. Það þurfti ákveðna breytingu í hópinn og það kemur maður í manns stað.“
Þegar Víkurfréttir spurðu Magnús Sverri Þorsteinsson, formann körfuknattleiksdeildarinnar, út í mál Green staðfesti hann brottreksturinn og sagði að leit að nýjum leikmanni standi yfir: „Við erum á fullu að leita og ætlum að velja vel,“ sagði formaðurinn.