Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sundfólkið Sunneva og Þröstur íþróttafólk Reykjanesbæjar
Hinn 19 ára gamli Þröstur og hin 17 ára Sunneva áttu frábært ár í sundinu.
Laugardagur 31. desember 2016 kl. 14:29

Sundfólkið Sunneva og Þröstur íþróttafólk Reykjanesbæjar

Sundfólk ÍRB, þau Sunneva Dögg Robertson og Þröstur Bjarnason voru nú fyrir stundu kjörin íþróttafólk Reykjanesbæjar árið 2016. Þau voru einnig kjörin íþróttafólk ársins hjá Keflavík og UMFN í vikunni.

Þröstur Bjarnason er sundmaður Keflavíkur 2016. Hann er sérlega duglegur og afar sterkur sundmaður sem verið hefur í fremstu röð á landinu undanfarin ár. Árið 2016 er sannarlega hans besta á sundferlinum og hafa afar fáir sundmenn náð afrekað það sem hann hefur gert í ár. Þröstur var í heildina Íslandsmeistari í tíu greinum í fullorðinsflokki á árinu. Þremur greinum á ÍM 50 og sjö greinum á ÍM 25, þar af í þremur boðsundsgreinum sem skiluðu titli og tvær þeirra voru Íslandsmet.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um Þröst má segja að hann sé konungur langsundsins á Íslandi um þessar mundir. Hann hefur einokað titlana í 800 og 1500m skriðsundi undanfarin misseri, en jafnframt því er hann núna að bæta við sig titlum í 400m og 200m skriðsundi. Þröstur er t.d. einn af fáum íslenskum sundmönnum sem farið hafa undir fjórar mínútur í 400m skriðsundi. Þröstur er handhafi innanfélagsmetanna í bæði 800m og 1500m skriðsundi.
Þröstur var einn af burðarásum karlaliðs ÍRB sem í haust varð Bikarmeistari með glæsibrag. Hann hefur jafnframt verið burðarás í boðsundsveitum deildarinnar sem sett hafa þrenn íslandsmet á árinu í karlaflokki.
Þröstur náði lágmörkum á NM núna í desember, en kaus að sleppa mótinu sökum anna í námi. Til marks um það hversu sterkur sundmaður hann er þá eru nokkrir háskólar í Bandaríkjunum búnir að gera honum tilboð. Hann skrifaði þó nýverið undir samning við McKendree háskólann í Illinois. Þröstur er einn af lykilmönnum íslenska karlalandsliðsins í sundi og á eftir að vera áberandi í framtíðinni.

Sunneva Dögg Robertson er einnig sundkona UMFN 2016. Hún er afar dugleg og efnileg sundkona sem verið hefur í fremstu röð á landinu undanfarin ár. Sunneva er búin að eiga afar gott ár og var í heildina Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í sex greinum á árinu. Hún var Íslandsmeistari í einni grein á á ÍM 50 og fimm greinum á ÍM 25, þar af í tveimur boðsundsgreinum sem skiluðu titli og báðar voru Íslandsmet. Á ÍM 50 var hún eingöngu 2/10 frá Íslandsmetinu í 400m skriðsundi.

Sunneva var einn af burðarásum kvennaliðs ÍRB sem í haust varð Bikarmeistari með glæsibrag. Hún hefur hefur jafnframt verið mikilvægur hlekkur í blönduðu boðsundsveitum deildarinnar sem sett hafa tvö Íslandsmet á árinu, sem og í stúlknasveitinni sem setti eitt met á árinu. Sunneva náði lágmörkum á EMU og keppti þar í sumar, einnig náði hún lágmörkum á NM sem hún keppti á í desember. Sunneva er ein af lykilmönnum íslenska kvennalandsliðsins í sundi og stefnir hátt.