Íþróttir

Ungur ofurhugi á fleygiferð
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 2. nóvember 2024 kl. 11:44

Ungur ofurhugi á fleygiferð

„Flestir eru í fótbolta eða körfubolta, ég bara passaði ekki inn í fótboltann eða körfuboltann en er alltaf búinn að passa mjög vel inn í motocrossinu,“ segir ofurhuginn Aron Dagur Júlíusson sem hefur lagt íþróttagreinina motocross fyrir sig og þrátt fyrir að vera einungis tíu ára gamall er hann orðinn atvinnumaður í motocrossi á Spáni.

Byrjaði þriggja ára

Hvernig datt þér í hug að fara í motocross?

„Ég byrjaði í motocrossi á þriggja ára afmælisdeginum mínum þegar mamma og pabbi gáfu mér fyrsta PV 50 cc hjólið mitt í afmælisgjöf. Já, þannig að þetta bara byrjaði og ég fór að fara oftar og oftar í Sólbrekku. Svo byrjaði ég að æfa með þjálfara og þetta byrjaði þar, þegar ég var þriggja ára.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Flestir þriggja ára krakkar sem ég þekki eru nú bara á þríhjólum. Er ekki svolítið sérstakt að vera á mótorhjóli þriggja ára?

„Jú, örugglega. Það eru ekki margir sem eru það, ég held ekki.“

Gekkstu strax í eitthvað akstursfélag?

„Sko á þessu ári gerði ég samning við DDR Racing Team, sem er lið sem var stofnað á Spáni á þessu ári og mér var boðinn samningur.“

Á Spáni? Það er nú svolítið langt að skjótast þangað á æfingar.

„Ég fer oftast þangað bara í keppnisferðir en ég átti heima þar í eitt og hálft ár, á Malaga-svæðinu,“ segir Aron.

Keppir á Spáni

„Ég er búinn að fara í allar keppnirnar í Andalúsíumeistaramótinu og gengið vel þar. Já, mér hefur gengið vel á Spænska meistaramótinu og gekk vel á Íslandsmótinu.“

Þú hlýtur nú að vera búinn að vinna eitthvað af verðlaunum í gegnum tíðina.

„Já, ég er búinn að vinna nokkuð mikið af verðlaunum,“ segir Aron og brosir stoltur af sjálfum sér og spyr: „Á ég að telja þau upp?“

2019 varð Aron bikarmeistari í 50 cc, þá sex ára gamall, og aftur 2020. Árið 2021 og 2024 bikarmeistari á 65 cc. Þá hefur Aron lent í öðru sæti á þremur Andalúsíumeistaramótum, þrír bikarar þar, og í sumar vann hann tvö mót á Íslandsmótinu í 65 cc.

Hann segir talsverðan mun á því að keppa á Íslandi og Spáni. „Það er munur á brautunum og hitinn. Svo eru miklu fleiri að keppa á Andalúsíu. Hvað það eru margir og hvað þeir eru góðir. Það eru alveg rosalega góðir keppendur á Spáni en það eru líka mjög góðir hérna á Íslandi.“

Erfitt og ekki hættulaust

„Samkvæmt mörgum er motocross bara það erfiðasta sem það hefur prófað,“ segir Aron. „Það er rosalega góður árangur að lenda í topp tíu í einhverju móti eins og Andalúsíumeistaramótinu – þú þarft að vera búinn að æfa í mörg ár til að verða það góður.“

Þannig að þú ert vel undirbúinn fyrir frábæran feril í motocrossi þar sem þú byrjar bara þriggja ára gamall.

„Já, ég vona að minnsta kosti að ég muni hafa mjög góðan feril og ég vona að þetta verði skemmtilegt, mjög skemmtilegt. Það er af hverju ég er í þessu sporti, ef þetta væri leiðinlegt væri ég ekkert í þessu.“

En þú hefur nú ekki alveg sloppið við meiðsli í þessu.

„Nei, ég held að enginn sleppi við meiðsli á öllum sínum ferli. Eins og í sumar þá tók ég dálítið stórt fall. Þá bilaði hjólið mitt í miðju lofti og ég fer fram fyrir mig – og dett úr mjaðmalið. Sem er alveg dálítið vont,“ segir Aron og grettir sig. „Ég þurfti að vera í hjólastól í sex vikur og fyrstu vikuna mátt ég ekki einu sinni fara í hjólastól.“

Var ekkert erfitt að rífa sig upp og fara aftur á bak á hjólinu?

„Jú, það var alveg dálítið erfitt – en ég hugsaði bara að þetta væru ekki mín mistök þannig að ég gerði ekkert rangt. Í raun og veru þurfti ég ekkert að vera hræddur, það er mjög sjaldgæft að hjólið bili á svona óheppilegum tíma.“

Æfingaferðir og keppnir

„Fyrir nokkrum vikum fór ég til Belgíu að keppa á Coupe de l'Avenir og stóð mig alveg fínt þar. Svo keppti ég í bLU cRU-inu þar sem allir bestu frá eiginlega öllum löndum í heimi skrá sig í keppnina. Það voru yfir tvö hundruð sem skráðu sig og fjörutíu af þeim, meðal annars ég, voru valdir til að keppa í úrslitunum. Ég var tíundi í startinu og vann mig upp í þriðja sæti en svo dett ég og enda í tíunda sæti.

Það er eitt sem heitir Master Class, þetta eru svona æfingabúðir, og þar eru fyrsta, annað og þriðja sætið í úrslitunum og tvö svona „wild cards“. Þannig að þjálfararnir og atvinnuökumenn á stóru hjólunum mega velja tvo sem stóðu sig vel í þessar æfingabúðir – og ég var annað af þessum „wild cards“. Þannig að ég er einn af þessum fimm úr 65 cc sem fæ að fara í þessar Masterclass-æfingabúðir,“ sagði Aron en æfingabúðirnar verða í nóvember. Hann fer út skömmu eftir mánaðarmót og tekur þátt í nokkrum Andalúsíu- og Cordobameistaramótum; „... og svo fer ég á Masterclass.“

Lengra viðtal við Aron Dag er í spilaranum hér að neðan.