Viðreisn
Viðreisn

Íþróttir

Víðir mætir Reyni í næstu umferð tippleiksins
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 9. nóvember 2024 kl. 07:15

Víðir mætir Reyni í næstu umferð tippleiksins

Þórunn Katla Tómasdóttir úr Garði hafði betur gegn Keflvíkingnum Óla Þór Magnússyni eftir hnífjafnan leik sem endaði 8-8 en Þórunn var með fjóra leiki rétta með leikjum með einu merki, á móti þremur réttum Óla. Hún heldur því áfram en Óli Þór hefur lokið leik og er efstur, með sautján leiki rétta og er Óla hér með þakkað fyrir sína framgöngu. Það er við hæfi að láta Víði mæta Reyni þar sem þessir bræður hafa snúið bökum saman og munu mæta sameinaðir inn á völlinn tímabilið ‘26. Þórunn sem er úr Garðinum mætir þjálfara Reynismanna, Grindvíkingnum Ray Anthony Jónssyni sem nýverið framlengdi samningi sínum við Reyni og stýrir liðinu á síðasta tímabili þess sem Knattspyrnufélagið Reynir áður en Víðir og Reynir sameinast.

Ray spilaði lengi fótbolta, lengst af með Grindavík en líka með Keflavík og á í heildina 337 leiki að baki, þar af 198 í efstu deild. Ray spilaði tvo landsleiki með U-21 landsliði Íslands en svo lék hann um tíma með landsliði Filippseyja, þaðan sem hann er að hálfum hluta til. Honum líst vel á að vera fulltrúi Reynis og mæta Víðiskonu í tippleiknum.

„Ég þóttist vera góður tippari hér áður fyrr og mun að sjálfsögðu tippa til sigurs í þessum leik gegn Þórunni. Það verður gaman að mæta Garðkonu en mikil ánægja ríkir með væntanlegt samstarf félaganna, það var fyrir löngu kominn tími á þetta og nú geta liðin hætt að slást um sömu krónurnar og leikmennina. Eins er gott að fá sanngjarna lendingu í vallarmálin, nú una báðir aðilar við sitt og sameining félaganna á bara eftir að verða til góðs, það er ég sannfærður um.

SSS
SSS

Ég hef alltaf fylgst vel með enska boltanum og Manchester United hefur alltaf verið mitt lið. Það er búið að reyna á að fylgjast með síðan Ferguson hætti en ég held að blikur séu á lofti núna. Það var viðbúið að ten Hag mætti ekki misstíga sig mikið eftir að nýtt stjórnunarteymi tók við og nú er þetta ákveðið, mér líst vel á nýja stjórann og hef fulla trú á að United verði komið á fyrri stall innan fárra ára,“ sagði Ray.

Þórunn Katla var himinlifandi að hafa náð að vinna markamaskínuna úr Keflavík.

„Það var gaman að vinna og fá að halda áfram og vil ég hér með þakka Óla Þór fyrir drengilega keppni. Mér líst mjög vel á næsta andstæðing, alltaf gaman þegar Víðir mætir Reyni, ég mun leggja mig alla fram til að vinna Reynismanninn,“ sagði Þórunn.