Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Þetta verður algjört ævintýri“
Föstudagur 4. mars 2022 kl. 09:37

„Þetta verður algjört ævintýri“

Sólborg Guðbrandsdóttir er Suncity í Söngvakeppninni

Suðurnesjamenn eiga sína fulltrúa í Söngvakeppninni 2022. Á fyrra undanúrslitakvöldinu voru það systkinin Már Gunnarsson og Ísold Wilberg. Þeirra lag varð ekki meðal þeirra tveggja sem náðu inn í úrslit. Á laugardagskvöld er seinna undanúrslitakvöld Söngvakeppninnar og þá er Sólborg okkar Guðbrandsdóttir á sviði. Hún keppir undir listamannsnafninu Suncity og með henni syngur Sanna Martinez. Þær munu flytja lagið „Hækkum í botn“ (e. Keep it cool).

„Ég fékk óvænt símtal frá Valla sport þar sem hann bað mig um að syngja lagið þeirra ásamt Sönnu sem er frá Svíþjóð. Ég hoppaði eiginlega á vagninn um leið og sé ekki eftir því,“ segir Sólborg í samtali við Víkurfréttir en höfundar lagsins eru Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon. Valgeir semur einnig íslenska texta lagsins ásamt Davíð Guðbrandssyni, bróður Sólborgar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég kom inn í ferlið eftir að það varð til en þetta er dans-popplag sem heitir Hækkum í botn og fjallar í rauninni bara um það að vera í núinu og sækjast eftir því sem maður vill.

Hvernig hefur undirbúningur fyrir undanúrslitakvöldið verið?

„Við höfum verið að æfa alla daga, bæði söng og dans, passað líka að hvíla okkur vel inn á milli og slaka á. Það er mjög margt sem þarf að huga að fyrir svona atriði og mikilvægt að hafa flinkt fólk í hverju horni.“

Sólborg segir viðbrögð almennings við laginu hafa verið góð. „Þetta er lag sem ég sjálf fékk til dæmis fljótt á heilann og ég vona að aðrir tengi við það líka.“

Hvernig var að fylgjast með fyrra undanúrslitakvöldinu?

„Það var bara yndislegt. Við eigum magnað listafólk hérna á Íslandi og það er gott að geta komið öll saman og notið tónlistar þegar aðstæðurnar í heiminum eru jafn hryllilegar og raun ber vitni.“

Er komin spenna fyrir þínu undanúrslitakvöldi?

„Já, ég get eiginlega varla beðið. Þetta verður bara algjört ævintýri,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir.