Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ævisaga Edda í Hópsnesi
Laugardagur 7. desember 2024 kl. 06:08

Ævisaga Edda í Hópsnesi

Á næstu dögum kemur í verslanir ný bók frá Ásmundi Friðrikssyni, rithöfundi og fyrrverandi alþingismanni. Ævisagan Eddi í Hópsnesi er fimmta bók höfundar og sú þriðja á síðustu þremur árum. Hér er um að ræða tveggja binda ævisögu Edvards Júlíussonar í Grindavík en bókatitill verksins er Eddi í Hópsnesi.

Í ævisögunni er fjallað um feril Edda frá því hann fæddist á Grund í Dalvík í september árið 1933. Það er merkilegt að tæplega eins árs flúði Eddi með fjölskyldu sinni að heiman vegna Dalvíkurskjálftans og á meðan ævisagan var í ritun yfirgaf hann heimili sitt í Grindavík vegna jarðskjálfta. Það gerðist með tæplega 90 ára millibili og sagt er frá þessum atburðum í ævisögunni.

Í ritverkinu er fjallað um feril Edda sem sjómanns og skipstjóra á síldarbátum fyrir norðan land og hættur sem fylgdu sjómennsku þess tíma. Þá er fjallað um upphaf og tilurð útgerðar hans og félaga þegar þeir stofnuðu Hóps-nes í byrjun árs 1965. Sögð er farsæl saga veiða og vinnslu fyrirtækja þeirra í Grindavík undir stjórn Edda. Frá árum hans í Síldarútvegsnefnd og skemmtilegum síldarsöluferðum til Rússlands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá er pólitískur ferill hans merkilegur og á þeim árum var mörgum góðum verkefnum komið af stað í Grindavík en lengst af var hann forseti bæjarstjórnar á meðan hann sat þar.

Aðkoma hans að uppbyggingu Bláa lónsins, saga þess og tilurð gerðist á hans vakt. Frá fyrstu skrefunum, skúrum og aðstöðu sem þætti ekki boðleg í dag til þessa dags. Sagan nær til dagsins í dag þegar Bláa lónið er orðinn einn þekktasti ferðamannastaður í heimi og tekur á móti milljón ferðamönnum á ári. Þegar uppbyggingin var að fara af stað var gert ráð fyrir 150 þúsund ferðamönnum á ári og þótti sú spá í meira lagi snarbiluð og þingmenn Reykjaneskjördæmis skyldu ekki þá bjartsýni. Frá þessu og uppbyggingunni er sagt ítarlega frá í máli og myndum í ævisögu Edda.

Bækurnar eru í fallegu og vönduðu bandi, með lauskápum og bindin bæði í fallegri öskju. Mjög glæsilegur og vandaður gripur sem inniheldur áhugavert og magnað lífshlaup sem vert er að halda til haga og kemur þar margt á óvart.

Ævisaga Edda í Hópsnesi er áhugaverð saga byggðarinnar í Grindavík, atvinnulífsins þar og uppbyggingu þekktasta ferðamannastaðar Íslands, Bláa lónsins, í lipurlega skrifaðri ævisögu og prýða fjöldi mynda frásögnina.

Eddi í Hópsnesi og höfundur verða á bílasölu K. Steinarsson, Kia-umboðinu, Njarðarbraut 15, 260 í Reykjanesbæ, miðvikudaginn 18. desember næstkomandi með bókina til sölu og árita fyrir þá sem vilja eignast þessa ágætu bók. Viðburðurinn verður auglýstur í Víkurfréttum þegar nær dregur.