Heklan
Heklan

Mannlíf

Framkvæmdaglöð og elskar að ferðast
„Orkustöðin varð til af hugsjón og ástríðu fyrir bættri heilsu. Eftir að hafa starfað sem ráðgjafi og sérfræðingur hjá VIRK í sex ár fann ég að það vantaði litla heilsurækt miðsvæðis í Reykjanesbæ, þar sem hægt er að hlúa að líkama og andlegri heilsu.“
Sunnudagur 2. febrúar 2025 kl. 06:11

Framkvæmdaglöð og elskar að ferðast

Nafn: Sigurbjörg Gunnarsdóttir
Aldur: 41 árs
Menntun: B.Sc. sálfræði, B.Sc. íþróttafræði, MLM forysta og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun

Sigurbjörg Gunnarsdóttir er fótboltamamma, spriklari og flakkari með brennandi áhuga á bættri heilsu. Hún og eiginmaður hennar stofnuðu og reka Orkustöðina heilsurækt í Njarðvík sem hún segir hafa verið ótrúlega rússíbanareið. Sigurbjörg er kona mánaðarins hjá FKA Suðurnes.

Ég á og rek Orkustöðina heilsurækt í Njarðvík. Ég held utan um daglegan rekstur, fjármál, samskipti við iðkendur og markaðsmál. Í litlu fyrirtæki þarf maður að vera kamelljón og skutla sér í flest verkefni. Það hentar mér ótrúlega vel, enda elska ég áskoranir og að læra nýja hluti.

Orkustöðin varð til af hugsjón og ástríðu fyrir bættri heilsu. Eftir að hafa starfað sem ráðgjafi og sérfræðingur hjá VIRK í sex ár fann ég að það vantaði litla heilsurækt miðsvæðis í Reykjanesbæ, þar sem hægt er að hlúa að líkama og andlegri heilsu. Við fengum snillinginn hann Jónsa arkitekt til að hanna Orkustöðina þar sem áhersla var m.a. lögð á hlýleika og tengingu við náttúruna. Nýlega bættist við infrarauður sánuklefi sem hefur slegið í gegn hjá iðkendum. Dásamlegt hafútsýni setur svo punktinn yfir i-ið og gerir æfingaupplifunina enn betri. Ósjaldan sjást hvalir, selir eða önnur dýr leika sér fyrir framan gluggann.

Það að hreyfa sig á að auka vellíðan og jákvæða upplifun, hún má ekki vera refsing fyrir að borða óhollt kvöldinu áður. Í Orkustöðinni ríkir einstaklega notalegt og heimilislegt andrúmsloft og ég er heppin að hafa yndislega og skemmtilega iðkendur og þjálfara.

Ég er mjög framkvæmdaglöð og elska að ferðast. Við hjónin höfum byggt tvö hús og það þriðja er í byggingu, einnig höfum við gert upp nokkur hús. Ég ætlaði alltaf að verða smiður þegar ég yrði stór en heilsugeirinn varð ofan á. En það er frábært að hafa smíðarnar sem áhugamál. Mér finnst líka fátt eitt skemmtilegra en að þræða fótboltamótin með börnunum mínum þremur sem æfa með Njarðvík.

Ég hef lengst af starfað sem kennari, þjálfari og ráðgjafi. Ég byrjaði að kenna í Akurskóla 2006 eftir útskrift úr íþróttafræðinni og svo færði ég mig yfir til Virk eftir útskrift úr sálfræðinni 2014. Þar starfaði ég í tæp sex ár. Því næst stofnuðum við hjónin fyrirtæki sem hefur verið ótrúleg rússíbanareið, krefjandi og gefandi á sama tíma. Það er ekkert sem hefði getað búið okkur undir þetta enda ekkert grín að opna heilsurækt í byrjun covid-faraldurs. En hindranir eru bara til að komast yfir þær og með jákvæðni, von og dass af kæruleysi gekk dæmið upp. Ég er virkilega stolt og þakklát fyrir fallegu Orkustöðina okkar.

Ég er Njarðvíkingur í húð og hár en bjó á Laugarvatni og í Reykjavík þegar ég var í háskólanámi. Ég hef síðastliðin sautján ár búið í Innri-Njarðvík og líður mjög vel þar. Það besta við að búa á Suðurnesjum er hversu stutt er í allt og traffíkin er mun minni en í Reykjavík. Það er ennþá smábæjarbragur og fólkið vinalegt á Suðurnesjum. Íþróttastarfið er til fyrirmyndar og það er dásamlegt að ala börn upp hér. Krakkarnir okkar eru alsælir í Stapaskóla og ég hlakka ótrúlega mikið til þegar nýja sundlaugin opnar þar sem ég er mikill selur.

Ég skráði mig í FKA árið 2019 þegar ég fór af stað í rekstur. Ég fann fyrir óöryggi og datt í hug að í félaginu gæti ég fengið hvatningu og leiðsögn frá reyndari konum. Það var heldur betur raunin. FKA Suðurnes var eitthvað sem mér fannst vanta þegar ég gekk í félagið. Ég var dugleg að sækja viðburði í Reykjavík en fann hvað mig langaði að tengjast betur konum á Suðurnesjum í atvinnulífinu. Ég er ótrúlega ánægð með Suðurnesjadeildina og finnst frábært að geta sótt viðburði í heimabæ sem og í Reykjavík. Ég hef kynnst mörgum skemmtilegum, reynslumiklum og klárum konum í FKA Suðurnes sem eru duglegar að gefa af sér og hafa gaman saman.

FKA er gríðarlega valdeflandi félagsskapur og hefur gefið mér dýrmætt tengslanet og vináttu. Það hefur verið ómetanlegt í rekstri að geta leitað til kvenna í sömu stöðu. FKA konur eru duglegar að miðla reynslu sinni og hefur félagið m.a. haldið úti Mentor-prógrammi sem ég mæli heilshugar með. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef Bryndís, minn mentor á sínum tíma, hefði ekki verið á kantinum þegar ég var að taka mín fyrstu skref í rekstri. Ég er líka í kvenfjárfestingafélagi sem varð til á FKA-viðburði. Við vorum nokkrar sem vorum mjög áhugasamar um fjárfestingar og stofnuðum í framhaldi félag sem hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt.

Mitt heilræði til kvenna á Suðurnesjum er að vera óhræddar við að elta drauma sína og fylgja innsæinu – og að sjálfsögðu gefa sér tíma fyrir sig, passa upp á heilsuna þar sem við eigum bara eitt eintak af okkur. Við þurfum að næra okkur andlega og líkamlega. Góður félagsskapur eins og FKA er frábær andleg og fagleg næring.

Víkurfréttir í samstarfi við FKA Suðurnes, félag kvenna á Suðurnesjum í atvinnulífinu, kynna Suðurnesjakonur í félaginu. Markmið með kynningunum er að vekja athygli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra eða verkefnunum sem þær sinna. FKA Suðurnes er hluti af FKA á Íslandi, Félagi kvenna í atvinnulífinu.