Heklan
Heklan

Mannlíf

Snerti tilfinningar ráðafólks
Bryndís með dóttur sinni, Védísi Hafsteinsdóttur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 1. febrúar 2025 kl. 07:00

Snerti tilfinningar ráðafólks

Bryndís er sérfræðingur í sveitarstjórnarrétti og óvænt sjónvarpsstjarna

„Ég vissi að ég þyrfti að koma inn á tilfinningar ráðafólks, það var ekki nóg að benda eingöngu á tölur í Excel,“ segir Grindvíkingurinn Bryndís Gunnlaugsdóttir. Hún vakti verðskuldaða athygli á fyrsta íbúafundinum með Grindvíkingum. Fundurinn var haldinn eftir að maður týndi lífi sínu í sprungu í Grindavík í janúar á síðasta ári og gossprunga myndaðist innan varnargarða þaðan sem hraun rann og tók þrjú hús. Ræða Bryndísar hreyfði greinilega við ráðafólki og hugsanlega á hún nokkuð stóran þátt í að fasteignafélagið Þórkatla varð til. Á þessum tímapunkti voru tökur hafnar á heimildaþáttum um Grindavík sem fjalla um síðasta keppnistímabil körfuknattleiksliða Grindavíkur. Áður en varði var Bryndís komin í nokkuð stórt hlutverk í þáttunum.

Bryndís ásamt foreldrum sínum, Láru Marelsdóttur og Gunnlaugi Hreinssyni, og dótturinni Védísi, í fyrstu heimsókn hennar til Grindavíkur.

Byrjaði að æfa fótbolta undir stjórn pabba

Það var snemma ljóst að Bryndís myndi vera með aðkomu að íþróttum þar sem faðir hennar, Gunnlaugur Hreinsson, hefur lengi verið í fararbroddi UMFG.

„Ég byrjaði á að æfa fótbolta undir stjórn pabba míns en ég var svo léleg og fannst ekki gaman að hann væri að þjálfa mig. Ég svona léleg einbeitti mér frekar að körfunni. Ég byrjaði síðan aftur í fótbolta og var þá í marki en ég fann fljótt að karfan yrði mín íþrótt. Ég æfði með einhverjum unglingalandsliðum en var síðan mikið á höfuðborgarsvæðinu vegna háskólanáms og spilaði þá með nokkrum liðum í næstefstu deild og fljótlega var ég komin á kaf í stjórnarstörf í kringum körfuna.

Ég tók þátt í að stofna meistaraflokk kvenna hjá Stjörnunni, endurvekja meistaraflokk kvenna hjá ÍR og um tíma var ég í stjórn KKÍ. Mitt baráttumál hefur alltaf mest verið kvenfólkið í körfunni. Mér fannst oft halla ansi mikið á okkur stelpurnar en þetta hefur batnað mikið. Mér finnst að það ætti að taka upp leyfiskerfi hjá félögunum, að það sé skylda að halda úti meistaraflokki kvenna og góðu barna- og unglingastarfi, ef lið eru með karlalið í efstu deild. Að öðrum kosti geti lið ekki fengið leyfi til að keppa í úrvalsdeild karla og eyða öllum peningunum í öfluga útlendinga.

Umræðan um fjölda útlendinga mun alltaf vera uppi en með því að leggja meiri rækt við kvennakörfu og öflugt barna- og unglingastarf er tryggt að þau gjaldi ekki fyrir áherslu á útlendinga í meistaraflokki karla. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir útlendingum og til að taka af allan vafa, ég vil alls ekki hefta komur aðila innan EES. Það fólk á að hafa sömu möguleika á atvinnu hér, eins og við viljum að okkar bestu leikmenn fái tækifæri erlendis. Félögin verða bara að fá að stjórna þessu sjálf en ættu að mínu mati að þurfa sýna metnað á öllum stigum, ekki bara í meistaraflokki karla.“

Lögfræði eftir meiðsli

Bryndís fór á náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og segir stærðfræði  alltaf hafa legið vel fyrir sér. Hún hafi ekki verið viss hvað hún vildi leggja fyrir sig í háskólanámi.

„Í einni landsliðsferð meiddist ég. Ólafur heitinn Rafnsson var fararstjóri en hann var frábær lögmaður. Ég þurfti að hanga á sundlaugarbakkanum ein meðan liðið var í skoðunarferð og leiddist. Óli hvatti mig til að lesa lagabækur og ég fann strax að ég hefði áhuga á því. Ég hóf lögfræðinámið í Háskóla Íslands en það var eitthvert leiðinlegasta ár lífs míns svo ég hætti þar, ekki af því að mér þætti námið sem slíkt óáhugavert, það var bara eitthvað við kennsluna og námið þar sem ég kunni ekki að meta. Þegar ég sá sama nám auglýst í Háskólanum í Reykjavík stökk ég á tækifærið og var í fyrsta árgangi skólans í lögfræði árið 2002 og kláraði þar bæði BA og meistaranám.

Ég fann fljótt að ég hafði ekki áhuga á að gerast lögmaður og vinna í dómsal svo ég einbeitti mér að skattarétti. Fyrir algera tilviljun er ég svo orðin sérfræðingur í stjórnsýslu- og sveitarstjórnarrétti í starfsemi ríkis og sveitarfélaga. Ég vann hjá KPMG ráðgjöf en er að hætta þar núna og er að fara starfa fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og hlakka mikið til en ég vann þar einmitt áður en ég fór til KPMG.“

Mynd frá vinnustofu um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar, Bryndís stýrði vinnunni.

Boðnar bæjarstjórastöður

Bryndísi hafa verið boðnar bæjarstjórastöður.

„Ég sé fyrir mér að það gæti verið spennandi starf en starfsöryggið er ótryggt. Það er erfitt að vera upp á það komin hvernig viðkomandi meirihluti er skipaður og þurfa að víkja eingöngu út á pólitík. Einnig er þetta nokkurs konar farands starf og ég vil helst búa í samfélagi þar sem er öflugt íþróttastarf og þá helst körfubolti.

Ég hlakka til að taka til starfa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga í febrúar að loknu fæðingarorlofi. Ég hef líka verið að kenna sveitarstjórnarrétt í Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst. Ég var beðin að kenna líka í Háskóla Íslands en mér fannst nóg að kenna á tveimur stöðum. Ég held ég geti haldið því fram að ég sé mjög vel inni í sveitarstjórnarrétti og sumir vilja meina að ég sé á meðal færustu sérfræðinga landsins í þessum málum en það er annarra að meta. Þetta er þröngt svið og ekki margir sem sökkva sér í þessi fræði en þetta á vel við mig enda sameinar þetta stjórnmál og lögfræði,“ segir Bryndís.

Bryndís, barnsfaðirinn Hafsteinn Valdimarsson, og dóttirin Védís
Hveragerði og Védís

Bryndís kynntist sambýlismanni sínum, Hafsteini Valdimarssyni frá Hveragerði, árið 2022 og á síðasta ári fjölguðu þau mannkyninu þegar dóttirin Védís fæddist. Ólíkt öðrum Grindvíkingum vissi Bryndís nákvæmlega hvert hún myndi fara við rýminguna því hjónaleysin voru búin að ákveða að hefja búskap sinn í Hveragerði, þar sem Hafsteinn er einn besti blakmaður Íslands en hann og félagar hans í Hamri hafa sópað titlunum til sín undanfarin ár.

Barnsfaðir Bryndísar, Hafsteinn Valdimarsson, hefur sankað að sér titlunum í blaki undanfarin ár með félögum sínum í Hamri.

„Við Hafsteinn kynntumst árið 2022 og þar sem hann er enn á fullu að spila blak, bæði með Hamri í Hveragerði og með íslenska landsliðinu, fannst mér eðlilegt að við myndum fyrst setjast að í Hveragerði en minn draumur var síðan að vera flutt til Grindavíkur áður en Védís myndi byrja í skóla. Flutningurinn bar fyrr að og með öðruvísi hætti en ég hafði áætlað en mest allt af fólki Hafsteins býr hér og foreldrar hans meira að segja í næstu götu. Föðursystir Hafsteins er fyrrum dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, og hún býr beint á móti okkur. Hafsteinn tengist því Kjörís og er að vinna hjá fyrirtækinu. Hann byrjaði sinn íþróttaferil í körfunni en svo fluttu hann og Kristján tvíburabróðir hans á Akureyri og fóru í framhaldsskóla þar, kynntust þá blakíþróttinni fyrir alvöru. Þeir greinilega stóðu sig vel því fljótlega voru þeir komnir í atvinnumennsku og spiluðu í ellefu ár erlendis. Hafsteinn spilaði í Danmörku, Austurríki og Frakklandi. Þeir komu svo heim eftir að covid skall á. Þeir fóru strax í að stofna blaklið í Hveragerði og hafa nánast einokað alla titla síðan þá. Mér hefur liðið vel í Hveragerði, var náttúrulega á leiðinni að flytja hingað og ætlaði að fara setja húsið mitt í Grindavík á sölu áður en allt skall á í nóvember ´23,“ segir Bryndís.

Fjölskyldumynd um síðustu jól.

Védís Hafsteindóttir mætir á vettvang.

Sjónvarpsstjarna á íbúafundi

Eins og áður hefur komið fram hefur Bryndís lengi verið viðloðandi kvennastarf í körfunni og var aðstoðarkona Þorleifs Ólafssonar með meistaraflokk kvenna í Grindavík á síðasta tímabili. Hlutirnir breyttust gríðarlega frá því að tímabilið hófst í október þar til Grindvíkingar þurftu að yfirgefa bæinn. Fljótlega eftir 10. nóvember var komin hugmynd á borðið um gerð heimildarmyndar um körfuknattleikslið Grindavíkur á síðasta tímabili. Handritið var óskrifað í upphafi og átti heldur betur eftir að þróast. Bryndís var vissulega í mynd þegar athyglin var á kvennaliðinu en hún átti ekki von á að vera komin í aðalhlutverk í sumum þáttanna.

Óléttan þótti góð sögulína

„Þetta ferli byrjaði um miðjan nóvember en enginn vissi í raun hvernig þættirnir myndu þróast. Fljótlega var ég beðin um að leyfa tökuliðinu að fylgja mér eftir því ég var ólétt. Það þótti góð sögulína en þeir voru líka með margar aðrar sögulínur í gangi. Þegar þetta var að byrja vissi enginn, hvorki ég né aðrir, að ég myndi halda þessa ræðu á íbúafundinum og þannig kannski gerist það að ég fæ stærra hlutverk í þáttunum.

Það vakti athygli hvernig ég sagði ráðafólki hvernig mér leið og hefði liðið daginn eftir að eldgosið náði inn í bæinn og tók þrjú hús. Flestir áttu von á að ég hefði lýst yfir þakklæti yfir að húsið mitt skyldi ekki hafa brunnið, ekki að vonbrigðin hefðu verið vegna þess að húsið brann EKKI! Það er svo galin tilfinning að vilja að húsið sitt brenni einfaldlega svo hægt sé að byggja upp nýtt líf og ég vissi að þessi upplifun mín myndi geta hreyft við fólki ef ég segði rétt frá.“

Föst í algerri óvissu

„Þá áttaði ráðafólk sig held ég á hversu alvarleg staðan var fyrir okkur Grindvíkinga. Við vorum algerlega föst í algerri óvissu með framtíðina og það eina sem gat bjargað okkur var að geta selt húsin okkar og ákveðið sjálf hvar við vildum setjast að. Þetta greinilega náði í gegn. Fljótlega var fasteignafélagið Þórkatla stofnað og losaði okkur úr snörunni ef þannig má að orði komast. Ég vissi þegar ég bað um orðið á þessum fundi að ég þyrfti að koma inn á tilfinningar ráðafólks. Það var ekki nóg að benda bara á tölur í Excel-skjali.

Ég veit að ég særði þá sem misstu húsin sín í þessu eldgosi og mér þykir það mjög leitt og vil biðja þau innilega afsökunar. Ég veit að þau eru að ganga í gegnum ólýsanlega erfiðleika og hafa þurft að þola óþolandi skrifræði og flókna stjórnsýslu í framhaldinu. Ég vildi alls ekki særa þetta fólk en mér fannst ég verða að segja heiðarlega frá minni upplifun, að vera föst með allt mitt í húsi í Grindavík í miðjum náttúruhamförum og geta ekki byggt upp nýtt líf. Ég vildi frekar ná botninum og sjá húsið brenna en sitja föst.“

Bryndís og Hafsteinn á leik tvö í Smáranum á móti Val í úrslitum síðasta Íslandsmóts karla í körfuknattleik.

Mikilvægt að sagan sé skrásett

Eftir þennan íbúafund jókst  hlutverk Bryndísar í þessum þáttum.

„Mér þótti sjálfsagt að leggja mitt af mörkum því það er svo mikilvægt að sagan sé skrásett. Það er því skiljanlegt að mín saga hafi fengið sess í þáttunum, upphaflega út af hlutverki mínu sem aðstoðarþjálfari en það eru góðar hliðarsögur í meðgöngunni og þessum íbúafundi. Ég var líka tilbúin að opna mig í þáttunum og hleypa þeim með mér t.d. í mæðravernd. Ég þekki leikstjórann Garðar Örn Arnarson og vissi að hann myndi nálgast þetta verkefni af virðingu við okkur Grindvíkinga. Sigurður Már Davíðsson sem vinnur myndina með honum var líka frábær. Garðar hafði gert heimildarmyndir sem ég hafði séð, t.d. myndina um Ölla og ég vissi strax að það væri ekki hægt að fá betri mann í verkið. Ég held að ótrúlega vel hafi til tekist og er viss um að þessi heimildaþáttaröð muni hljóta mikla athygli utan landsteinanna,“ segir Bryndís.

Á eigin ábyrgð í Grindavík?

Bryndís var ánægð með að ríkið skyldi bregðast við ákalli Grindvíkinga varðandi uppkaup á húseignum þeirra en vil meina að mistök hafi verið gerð í útfærslunni. Hún bendir líka á misskilning sem hefur verið í gangi á meðal Grindvíkinga.

„Ég vil meina að þetta hafi verið nauðsynleg aðgerð hjá ríkinu. Það varð að færa Grindvíkingum sjálfstæði sitt á nýjan leik og fólk gæti ákveðið sjálft hvar það myndi koma sér fyrir. Fólk hefur síðan val um það hvort það snúi aftur til baka eða ekki en á þessum tímapunkti var nauðsynlegt að bregðast svona við að mínu mati. Það má síðan deila um framkvæmdina og mjög margt sem betur hefði mátt fara. Bara það að velja eingöngu viðskiptafólk í stjórn Þórkötlu voru mikil mistök að mínu mati, það hefði líka átt að velja félagshyggju þenkjandi fólk í stjórnina því það er ekkert venjulegt eða eðlilegt varðandi þessi uppkaup á húsnæði Grindvíkinga. Mistökin liggja ekki eingöngu hjá þeim sem stýra Þórkötlu, heldur þeim sem skipuðu stjórn félagsins, þáverandi ríkisstjórn. Ég vona að ný ríkisstjórn muni skoða að fá félagshyggjufólk að stjórn Þórkötlu. Það þarf að huga að ýmsu, t.d. á hvaða verði eiga Grindvíkingar að geta keypt húsnæði sitt til baka? Það er galið að mínu mati að við þurfum að kaupa á 95% af brunabótamati, eins og við seldum því brunabótamat hefur hækkað en markaðsverð eignanna er langt undir því. Hvað ætlar Þórkatla að gera með eign sem ekki var seld með forkaupsrétti? Á ekki að reyna selja þá eign líka? Verður sú eign þá seld á miklu lægra verði heldur en eign sem var seld með forkaupsrétti og fyrri eigandi þarf að greiða 95% af brunabótamati? Það blasir við að þetta gengur ekki upp og þessu verður að breyta. Við viljum ekki að fasteignafélög geti keypt upp húsnæði í Grindavík og farið að leigja út, við viljum að bærinn og samfélagið byggist upp að nýju en ég geri mér fyllilega grein fyrir því að Grindavík verður aldrei söm og samfélagið mun breytast. Það hefur verið mikil umræða um hollvinasamninginn en það gætir misskilnings þar að mínu mati hjá mörgum Grindvíkingum. „Að vera á sína ábyrgð“ er vinsæll frasi í dag, að fólk sé alls staðar á sína ábyrgð en þetta er ekki alveg svo einfalt. Tökum sem dæmi að þú farir í búð og rennur á svelli fyrir framan búðina, þú ert ekki þarna á þína ábyrgð heldur átti búðin að vera búin að gera ráðstafanir svo þú myndir ekki renna og slasa þig. Þú ert á eigin ábyrgð á stað sem er ekki á ábyrgð neins en húsnæði í eigu Þórkötlu er á þeirra ábyrgð og þeirra að tryggja lágmarksöryggi. Þórkatla er í mjög snúinni stöðu varðandi þetta lagalega séð og ég skil það en þetta snýst kannski mest um að útfæra samninginn vel og hugsanlega breyta lögum ef þess þarf,“ segir Bryndís.

Framtíð Grindavíkur

„Nú þarf að fara huga að uppbyggingu bæjarins og þar þarf að vanda til verka. Ef að fólk ætlar að sjá ofsjónum yfir því að Grindvíkingar geti keypt gamla húsnæðið sitt á lægra verði en það seldi á, þá bið ég það fólk um að hugleiða það aðeins. Það er enginn Grindvíkingur að fara græða á þeim viðskiptum því það sem búið er að leggja á fólk, bæði líkamlega og ekki síst andlega, verður ekki metið til fjár. Allir Grindvíkingar myndu skipta út þeim pening fyrir að geta fengið gamla lífið sitt aftur. Svo er hægt að koma með útfærslur á þessum viðskiptum þannig að fólk geti ekki hagnast óeðlilega. T.d. ef Grindvíkingur myndi kaupa til baka á lægra verði, að hann geti ekki selt til þriðja aðila og hagnast óeðlilega heldur fengi þá ríkið hluta þess hagnaðar til sín. Svona ætti að vera hægt að búa til kerfi sem allir geta verið sáttir við, vilji er það eina sem þarf og hér er hægt að horfa t.d. til fyrirkomulagsins við hlutdeildarlánin.

Ég veit að Grindavík mun byggjast upp aftur en efa að gamla góða samfélagið mitt verði eins og það var. Það verða breytingar en þær þurfa ekkert endilega að þýða að það verði til hins verra, þetta verður bara ekki eins. Það er svo öflugur atvinnuvegur í Grindavík og það skiptir miklu máli þegar kemur að uppbyggingu bæjarfélags. Íþróttalífið var gríðarlega öflugt svo það er engin spurning í mínum huga að Grindavík muni rísa upp á ný. Ef ég væri einsömul þá væri ég flutt til baka í gær, svo einfalt er það. Ég þarf hins vegar að hugsa um nýfædda dóttur mína. Ég vil að hún hafi sömu eða svipuð tækifæri og ég fékk þegar ég var lítil, ég gat t.d. æft íþróttir við bestu skilyrði. Er ég tilbúin að flytja til baka með Védísi og það séu bara fimm með henni í bekk og á æfingum? Með þessu er ég ekki að setja út á fámenna sveitaskóla, fólk velur það sem er hið besta mál en ég veit ekki hvort ég er tilbúin að flytja heim og setja uppbyggingu samfélagsins á hennar herðar. Þetta er kannski bara gott dæmi um þann veruleika sem við Grindvíkingar búum við í dag, að þurfa að vera spá í svona hlutum. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að allir Grindvíkingar sýni hvort öðru umburðarlyndi og skilning. Það verða allir að fá að taka ákvörðun út frá sínum tilfinningum og þær eiga allar rétt á sér. Það er enginn meiri eða minni Grindvíkingur, við erum öll Grindvíkingar en aðstæður okkar eru bara svo mismunandi, við eigum að sýna hvort öðru fullkomið umburðarlyndi. Við höfum dæmi fyrir framan okkur hjá Eyjamönnum, það varð til sundrung þeirra á milli í kjölfar eldgossins þar og ég vona innilega að við Grindvíkingar reynum að læra af reynslu systkina okkar frá Vestmannaeyjum.

Ég vona að Grindvíkingum verði fljótt gefinn kostur á að gista í bænum því þannig getur fólk fundið hvort það sjái framtíð sína í bænum eða ekki. Það er mjög mikilvægt fyrir sálarlífs fólks, að vera ekki í óvissu með svo stóran þátt í sínu lífi og geta mátað sig við nýjan raunveruleika í Grindavík. Fólk myndi prófa að gista og ef það finnur að þeim líður ekki vel og fortíðarþráin er ekki með sömu glansmynd í dag, þá er auðveldara að taka ákvörðun með að halda áfram með líf sitt á öðrum stað. Eða fólki líður vel og geti þá tekið ákvörðun um að flytja heim og taka þátt í uppbyggingunni.

Hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir okkur Hafstein og Védísi, það verður spennandi að sjá og ég hlakka til komandi ára, sama hvar það verður. Hvernig sem fer mun ég alltaf vera Grindvíkingur að styðja við Grindavík á einn eða annan hátt,“ sagði Bryndís að lokum.

Grindavíkurfjölskyldan við skírn Védísar.