Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Stór heimildarmynd um Grindavík
Margrét með Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur og aðstoðarkonu sinni, Elísu Gyrðisdóttur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 7. desember 2024 kl. 10:52

Stór heimildarmynd um Grindavík

Aðventutónleikar 11 desember í Grindavíkurkirkju teknir upp og notaðir í myndinni

„Í mínum huga eru Grindvíkingar súperhetjur,“ segir Margrét Hrafnsdóttir, kvikmyndagerðakona en hún hefur ásamt einstöku tökuliði og samstarfsfólki, dvalið mikið í Grindavík á þessu ári vegna heimildarmyndar sem hún er að gera í samvinnu við kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Ursus Parvus sem er í eigu Hlínar Jóhannesdóttur framleiðanda, um hamfarirnar í Grindavík í fyrra og hina fjölmörgu eftirmála fyrir Grindvíkinga sem enn sér ekki fyrir endann á. 

Margrét fékk tónlistarmanninn Högna Egilsson í Hjaltalín til að semja tónlistina í myndina og miðvikudaginn 11. desember kl. 20 verða haldnir aðventutónleikar í Grindavíkurkirkju sem markar upphaf á upptökum á tónlistinni fyrir myndina.

Margrét hefur búið ásamt eiginmanni sínum Jóni Óttari Ragnarssyni í suður Kaliforníu til fjölda ára en Jón Óttar stofnaði Stöð 2 á sínum tíma. Þau eiga og reka kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Othar Raven Pictures & TV og una hag sínum vel í sólinni í Hollywood. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margrét fékk hugmyndina að myndinni í draumi í mars og telur að hennar hafi verið vitjað, en segir að hún sé enn að velta því fyrir sér hver það var. Einhverjum sem þótti afskaplega vænt um Grindavík og fólkið þar. 

„Þetta heltók mig má segja og ég las allt sem hönd á festi um Grindavík og Grindvíkinga, allt frá dögunum fyrir 10. nóvember þegar jarðskjálftarnir voru sem mestir og svo í rýmingunni, í eldgosunum og í raun bara allt sem viðkom Grindvíkingum fyrir og eftir þennan sögulega dag 10. nóvember 2023. 

Við Jón Óttar ræddum þetta og vorum sammála um að þetta viðfangsefni væri kjörið í heimildarmynd. Það var líklega ekki hægt að finna merkilegri sögu að segja á þessum tímapunkti en þessa sögu Grindvíkinga. Ráðgert er að sýna myndina á RÚV. 

Við erum komin með samstarf um alþjóðlega dreifingu sem við erum þakklát fyrir og segir okkur hversu mikill áhugi er á þessum atburðum erlendis.

Við settum okkur í samband við Grindvíkinga og erum þeim gríðarlega þakklát fyrir samvinnuna og samstarfið. Allstaðar var fólk tilbúið að bjóða okkur inn að sínum innstu hjartarótum ef svo má segja.

Tökur á bæjarskrifstofunni í Grindavík.

Grindvíkingar eru orðnir eins og fjölskylda manns, bæði allt undirbúningsferlið og svo vorum við meira og minna í Grindavík í allt sumar og kynntumst þessu frábæra samfélagi betur. Við erum líka þakklát yfirvöldum fyrir að fá að hafa fengið að vera í Grindavík en bærinn var lokaður á þessum tíma. 

Margrét með grindvíska tónlistarmanninum Guðjóni Sveinssyni og fjölskyldu hans.

Við kynntumst því öllu því einstaka fólki sem starfaði í bænum í sumar allt frá lögreglu, slökkviliðs- og björgunarsveitarfólki, fiskverkafólki og starfsmönnum útgerðarfélaganna, sigmenn og starfsmenn bæjarins sem unnu við lagfæringar á skemmdum sem og starfsfólk smærri fyrirtækjanna eins og hjá Hérastubbi bakara, Papas pizza og fleiri sem voru að reyna að halda lífi í fyrirtækjum sínum. Hádegisverðirnir á Sjómannastofunni Vör voru eftirminnilegir, þessu sumri gleymi ég aldrei. 

Fjölmargir Grindvíkingar koma við sögu í myndinni.

Í mínum huga eru Grindvíkingar súperhetjur og við lítum á það sem mikinn heiður að fá að ferðast með þessu fólki í gegnum þennan ofboðslega erfiða kafla í lífi þeirra. Þetta samfélag er einstakt og mjög sérstakt og Grindvíkingar munu ætíð eiga stað í hjarta mér.“

Hluti tónlistar tekin upp í Grindavíkurkirkju

Margrét fékk hinn þekkta tónlistarmann, Högna Egilsson í Hjaltalín, til að semja tónlistina í kvikmyndina og hugmynd fæddist.

„Það er frábært fyrir okkur að fá Högna til að semja tónlistina en hann er einmitt tilnefndur núna til norrænu tónlistarverðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmynd Baltasars Kormáks, Snertingu. Högni ætlar sér að taka alla tónlistina upp í Grindavík og fyrsta skrefið í þeirri vegferð eru þessir tónleikar í Grindavíkurkirkju á miðvikudagskvöld,11. desember. Hann og Sigríður Thorlacious munu koma fram á þessum tónleikum ásamt tveimur frábærum grindvískum söngvurum, þeim Arneyju Ingibjörgu Sigurbjörnsdóttur og Tómasi Guðmundssyni. Þau munu syngja jólalög en þeim til halds og trausts verður kirkjukór Grindavíkurkirkju og hinn frábæri kórstjóri þeirra, Kristján Hrannar Pálsson. Lög eftir Sigvalda Kaldalóns munu að sjálfsögðu verða flutt þetta kvöld, bæði Nóttin var sú ágæt ein og Ave Maria og ég get varla beðið, ég er svo spennt! Ég er nokkuð viss um að þessi kvöldstund verði töfrum líkust og hvet alla Grindvíkinga til að mæta en ókeypis aðgangur er á tónleikana sem hefjast kl. 20. Búið er að opna sundlaugina á miðvikudögum líka og ég er viss um að félagarnir á Papas taka glaðir á móti Grindvíkingum áður en tónleikarnir hefjast. Ég hlakka mikið til að koma og njóta þessa tónleika og ekki síst, að hitta grindvíska vini mína,“ sagði Margrét að lokum.

Tökur á golfvelli Grindavíkinga, Húsatóftavelli.

Tökur í Hérastubbi bakaríi.

Hluti starfsliðsins sem kemur að gerð myndarinnar.

Birna Óladóttir og barnabarn hennar, Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir, þegar viðtal við þær var tekið.

Hluti starfsfólks myndarinnar.