„Ætlar þú virkilega að bjóða mér skyr á aðfangadagskvöld?“
JÓLAHEFÐIR // Ásdís Elva Sigurðardóttir
„Þegar ég var barn var jólahefð á flestum heimilum að hafa jólafrómas. Öll heimili voru yfirleitt með sama frómasinn, ananas frómas. Þegar ég varð fullorðin og hóf búskap í Grindavík þá langaði mig okkar fyrstu jól að halda þessari hefð og búa til jólafrómas en vildi breyta og búa til nýtt þema, sem sagt okkar þema. En mig langaði ekki að gera eins og aðrir og vildi búa til minn eigin frómas með öðru bragði. Byrjaði ég á að finna MS bækling sem í var uppskrift af frómas sem mér leist vel á til að búa til á fyrstu jólunum okkar. Í uppskriftinni var ananas, súkkulaðisspænir, piparmintuvanilluskyr, rjómi, sykur.
Stolt bauð ég upp á þennann jólafrómas með rjóma um kvöldið og þegar allir voru sestir við borðið og komnir með frómasinn í skál, segir einn fjölskyldumeðlimurinn.„Ætlar þú virkilega að bjóða mér skyr á aðfangadagskvöld?“
Auðvitað dauðbrá mér enda það var það ekki ætlun mín, að bjóða skyr á jólunum í eftirrétt. Það varð uppi fótur og fit við borðið þegar þessi fjölskyldumeðlimur vildi ekki frómasinn. Ég gafst þó ekki upp og ákvað að breyta aðeins uppskiftinni næstu jól og bætti við hann niðurskornu After Eight súkkulaði.
Árin liðu og alltaf var þessi nýi jólafrómas borinn fram. Nú er búið að tvöfalda uppskriftina þar sem þetta er orðið að uppáhalds eftirrétti flestra fjölskyldumeðlima. Í dag er hann einnig búinn til á páskum og er tilhlökkunin mikil þegar After Eight frómasinn er lagður á borð. Ég læt þennan uppáhalds eftirrétt fylgja. Verði ykkur að góðu.“
Jólafrómas
1 dós vanilluskyr
½ dl fljótandi súkkulaði (Hersheys)
½ tsk piparmyntudropar
3 msk sykur
4-5 matarlímsblöð
1 dós ananas kurl
2 pela rjóma
After eight súkkulaði
súkkulaðispænir
Skyrið og sykurinn þeytt saman og dropar og súkkulaði sett eftir á.
Matarlímið er sett í ananasvökvann og hægt er að hita það í örbylgjunni og það er látið kólna og sett saman við skyrhræruna. Ananaskurlinu er bætt út í án safans.
Rjóminn er stífþéttur sér.
After eight súkkulaðið er skorið í litla bita og bætt við skyrhræruna. Allt er hrært saman og stífþeytti rjóminn er síðast bættur saman við og hrærður rólega með sleif.
Að endingu er súkkulaðispænunum stráð yfir.
Geymist í kæli.