Mannlíf

Áföllin, svekkelsið og niðurrifið eru endalaus
Þórarinn og Halla hafa búið sér heimili í fallegri og bjartri blokkaríbúð á Álftanesi. „Þegar maður fer á fætur á morgnana og stígur út á veröndina andar maður að sér fjörulyktinni, þetta er eins nálægt því og við komumst að vera heima í Grindavík.“ VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 3. ágúst 2024 kl. 09:52

Áföllin, svekkelsið og niðurrifið eru endalaus

– segja Grindvíkingarnir Halla Kristín Sveinsdóttir og Þórarinn Kristjánsson en þau sitja uppi með fasteign í Grindavík og allar þær skuldir sem henni fylgja.

Hjónanna Höllu Kristínar Sveinsdóttur og Þórarins Kristjánssonar beið ekki fögur sjón þegar þau sneru heim í Grindavík í þarsíðustu viku og gengu inn í einbýlishús í eigu félags þeirra hjóna. Allt var á tjá og tundri, loftklæðning fallin niður og miklar skemmdir blöstu við þeim. Tjón sem þau sitja uppi með en fasteignin, sem er íbúðarhúsnæði, er ein þeirra eigna sem falla ekki undir skilgreiningar ríkisins um uppkaup eigna í Grindavík.

Með fjölskyldunni. Alexander Veigar Þórarinsson, tengdadóttirin Elín Guðmundsdóttir, barnabarnið Veigar Elí Alexandersson, Þórarinn Kristjánsson, Unnur Guðrún Þórarinsdóttir, Halla Kristín Sveinsdóttir og Ólafur B Arnberg Þórarinsson. Síðan þessi mynd var tekin hefur afa- og ömmusnúllan Yrsa Alexandersdóttir bæst í hópinn.

Halla og Þórarinn höfðu byggt sér og fjölskyldu sinni fallegt heimili í Grindavík. Þórarinn er fæddur og uppalinn í Grindavík en Halla flutti þangað þriggja ára og saman eiga þau þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku.

Voru að aðstoða son sinn til að koma þaki yfir höfuðið

Forsaga málsins er sú að félag í eigu Höllu og Þórarins keypti íbúðarhúsnæðið til að aðstoða son þeirra við að eignast þak yfir höfuðið. „Við sjálf áttum ekki pening til að kaupa annað hús en félagið átti fyrir útborgun,“ segir Halla. „Sonur okkar hefur haft lögheimili í húsinu frá árinu 2018 og greitt leigu til félagsins á meðan hann safnaði sér fyrir útborgun. Það stóð til að hann myndi kaupa húsið á þessu ári.“

Þær forsendur brustu þann 10. nóvember síðastliðinn þegar einhverjar mestu hamfarir sögunnar dundu yfir Grindavík og bærinn var rýmdur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, fasteignafélagið Þórkatla var stofnað til að halda utan um uppkaup fasteigna í Grindavík – en ekki fallaallar fasteignir innan Grindavíkur undir skilgreiningar ríkisins um uppkaup. Halla og Þórarinn hafa m.a. leitað til Þórkötlu og sýslumanns til að reyna að fá húsnæðið keypt upp en hjá sýslumanni var þeim bent á að fara á vef sýslumannsembættisins og fylla út eyðublað um undanþágu til uppkaupanna. Það eyðublað virðist ekki vera til.

Veggur prýddur fjölskyldumyndum er með því fyrsta sem blasið við þeim sem heimsækja Höllu og Þórarinn.

Hafið þið reynt að tala við sýslumann aftur?

„Ég held að það sé gáfulegast að láta lögfræðing sjá um þetta,“ segir Þórarinn. „Það sé næsta skref.“

„Þar sem hnífurinn stendur í kúnni er að þú þarft að sækja um og þú þarft að fá neitun, þá er komin forsenda fyrir málssókn,“ segir Halla. „Þegar lögfræðingurinn kemur úr fríi þá þurfum við að fá hann til að sækja um fyrir okkur.

Áföllin, svekkelsið og niðurrifið eru endalaus. Ég treysti mér eiginlega ekki til þess að halda áfram, að fara að hamast í einhverju svona. Maður er orðinn svo reiður yfir þessu öllu.“

Skemmdirnar sem blöstu við Höllu og Þórarni þann 24. júlí síðastliðinn en þá voru tæplega tvær vikur liðnar frá því að þau skildu við húsið og allt var góðu í lagi.

Halla segir að fyrst hafi verið gefið út að öll íbúðarhúsnæði í Grindavík falli undir uppkaup. „Svo líða einhverjir mánuðir því þetta er bara gripið, teknar ákvarðanir, drifið í þessu og það er ekki hugsað út í alla ranghala. Svo er gefin undanþága á dánarbú, æðislegt, fólk var svolítið fast með þau mál. Nýjasta útspilið kom frá honum Sigurði Inga [Jóhannssyni, þáverandi innviðaráðherra], það var í sambandi við styrk varðandi Búmenn. Æðislegt að það fólk sé að losna undan þeim kvöðum, fullorðið fólk að vera í svona klemmu í marga mánuði. Þá spyr maður sig: „Á maður að halda í vonina? Verður eitthvað næsta útspil?“ en þeir þora ekki að taka neinar svona ákvarðanir til að gefa fordæmi fyrir því sem kæmi í kjölfarið.“

Öll fyrirtæki sett undir sama hatt

„Ég, ásamt flestum sem eru með lítil og meðalstór fyrirtæki, sendi bréf til þrjátíu og þriggja þingmanna – ég fékk ekki svar frá einum eða neinum. Maður var bara áhorfandi á alþingisumræður og Þórhildur [Sunna Ævarsdóttir] tók þar setningar úr mínu bréfi og hélt þessari umræðu hátt á lofti ásamt honum Bubba [Guðbrandi Einarssyni], hann er búinn að vera mjög ötull í okkar málum.

Ég tek fram í þessu bréfi að ég ætli rétt að vona að það sé ekki verið að setja undir þennan sama hatt Bláa lónið, Hitaveitu Suðurnesja og stóru fiskvinnslufyrirtækin heima – sem vilja vera þar áfram. Ef þú ert að tala um fyrirtækin þá þarftu að flokka þau niður í; fyrirtækin sem vilja vera og geta unnið í Grindavík, fyrirtækin sem vilja vera en geta það ekki nema með stuðningi og fyrirtæki sem þurfa uppkaup af því að þau geta ekki unnið þarna. Ég er alveg handviss um að þessi þriðji og síðasti hluti er langminnstur,“ segir Halla. „En umræðan fer í það að halda Grindavík áfram sem blómlegum og uppbyggilegum stað, sem er æðislegt. Við viljum hafa höfnina þarna, við erum með stórar og miklar tekjur í kringum hana. Við viljum hafa stóru fiskvinnslufyrirtækin, það skiptir sköpum fyrir þjóðarbúið að halda þessu gangandi. Síðar eru það öll þau fyrirtæki sem vilja vera þarna, ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti gagnvart því, þau eiga rétt á því alveg eins og mér finnst ég eiga rétt á því að fá uppkaup á því sem ég get ekki átt þarna.“

Þórarinn telur vera möguleika til að semja við fyrirtækin. „Sums staðar er brunabótamatið mjög hátt, kannski of hátt, og það þurfa allir að vera sanngjarnir. Ég held að það væri hægt að semja við fyrirtækin um verðmæti fasteignanna, menn væru opnir fyrir því. Það vilja allir vera sanngjarnir, það er bara þannig. Ég er alveg búinn að heyra í fólki sem keypti eignir fyrir 160 milljónir fyrir fjórum, fimm árum síðan en brunabótamatið er í kringum 500 milljónir núna. Það myndi aldrei seljast fyrir meira en 230 milljónir.“

„Þarna eru fyrirtæki sem bara vilja uppkaup á sínum fasteignum, ekki rekstrinum – út af því að reksturinn er færanlegur. Hann er færanlegur hjá mörgum, það eru snyrtistofur, hárgreiðslustofur, veitingastaðir, smáiðnaður eins og túrismi og alla vega svoleiðis sem þú getur fært og unnið annars staðar og farið að afla tekna. Ég er til dæmis með litla saumastofu og er búin að taka mínar vélar, ég vil bara losna við þetta húsnæði.“

Þau tala um stóru fiskvinnslufyrirtækin og telja að þau hvorki geti né hafi áhuga á að fara frá Grindavík.

„Ef höfnin er í lagi þá er Grindavík mjög góður staður fyrir fiskverkun,“ segir Þórarinn. „Þetta er ein besta höfnin á landinu – það er stutt í miðin, stutt á flugvöllinn og þannig. Þetta er draumastaður.“

„Svo tala stjórnmálamenn um að þeir séu að vinna með fyrirtækjunum og þeir vilji að fyrirtækin gangi í Grindavík,“ bætir Halla við. „Þarna er bara verið að tala um stóru fyrirtækin, það er ekkert verið að tala um hina. Við höfum aldrei fengið neina áheyrn inn í þessa grúppu og ég velti því svolítið fyrir mér, hvað er verið að tala um þarna? Er verið að tala um starfsgildi? Er verið að tala um fermetra? Er verið að tala um veltu? Hvað er það sem telur til að vera hluti af þessari stærri sneið af kökunni miðað við þessi smærri fyrirtæki sem fá ekki einu sinni áheyrn?“

Þegar Halla og Þórarinn gróðursettu þetta grenitré stóð það varla nema tíu, fimmtán sentimetra upp úr jarðveginum.

Heima bíður óskemmt hús og verðlaunagarður í órækt

Núna búa þau Halla og Þórarinn á Álftanesi, í íbúð sem þau keyptu og fluttu inn í byrjun maí. Þau hafa selt einbýlishús sitt við Staðarvör í Grindavík en eiga forkaupsrétt að húsinu og ætla sér að nýta hann þegar þar að kemur. Þau eru staðráðin að flytja aftur til Grindavíkur þegar það verður orðið óhætt.

„Við áttum Eyjabyggðarhús, sem var hent upp í Eyjagosinu, og við erum búin að vera þar í þrjátíu og eitthvað ár. Síðan ‘91. Maðurinn minn er fæddur í Grindavík, ég flyt til Grindavíkur þriggja ára.

Við erum búin að breyta öllu húsinu, verðlaunagarður og það er ekki einu sinni rispa í vegg. Það sér ekki á þessu húsi. Ef ég hefði fengið val þá hefði ég viljað selja húsnæði fyrirtækisins og halda þessu húsi,“ segir Halla en þau hjónin voru orðin nánast skuldlaus áður en ósköpin dundu yfir Grindavík.

Í verðlaunagarði þeirra Höllu og Þórarins eru yfir 200 plöntur en Halla segir að í hvert sinn sem hún fór með garðaúrgang þá tók hún plöntu sem einhver annar hafði hent með sér heim og hlúði að henni. Nú er garðurinn í mikilli órækt.

„Við þurftum meira að segja að taka stærra lán til að kaupa okkur þessa blokkaríbúð,“ segir hún. „Það fá allir sambærilegt fyrir sitt í Grindavík, kjaftæði. Algjört kjaftæði.

Það eru flestallir sem voru í einbýlishúsum, stórum, við vorum í 190 fermetrum, að flytja í blokkaríbúðir. Við náðum í þokkalega stóra íbúð hérna en hún er samt um fjörutíu fermetrum minni en það húsnæði sem við bjuggum í áður. Þetta eru rosalega mikil viðbrigði og bara erfitt – en við ætlum aftur að fara í okkar hús þegar það verður öruggt að fara heim og vinnu að hafa. Það er búið að gefa út að skólastarf hefjist ekki í haust svo ekki bíður mín starf þar,“ segir Halla en hún var textílkennari í Grindavíkurskóla.

„Það er allavega ósk og von sem við ætlum að halda í. Við vorum búin að ákveða að vera á tveggja ára plani, þannig að maður geti andað rólega í tvö ár og síðan getur maður gert nýtt tveggja ára plan.“


Hvað segja þingmennirnir?

Víkurfréttir leituðu til nokkurra þingmanna Suðurkjördæmis og inntu þá álits varðandi þær reglur sem gilda um uppkaup fasteigna í Grindavík og þá raunalegu stöðu sem margir grindvískir fasteignaeigendur eru í eftir hamfarirnar 10. nóvember síðastliðinn. Saga hjónanna Höllu Kristínar Sveinsdóttur og Þórarins Kristjánssonar var höfð til viðmiðs.

Það er innbyggt í þjóðarsál okkar að standa með þeim sem fyrir náttúruhamförum verða

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar:

„Mér finnst að við eigum að veita öllum stuðning, þetta eru náttúruhamfarir og fólkið getur ekki varið sig með neinum hætti. Í þinginu hafa menn talað á þann veg að það sé innbyggt í þjóðarsál okkar, þegar náttúruhamfarir eiga sér stað þá stöndum við hin með þeim sem fyrir náttúruhamförunum verða. Þá eigum við ekki að skilja neinn eftir. Núna er verið að skilja þennan hóp eftir og það er óásættanlegt.

Það hefur auðvitað ýmislegt verið gert, ég er ekkert að draga úr því, en það er samt verið að skilja hóp eftir og það er ekki ásættanlegt. Þetta er sjónarmið okkar í Samfylkingunni.

Við í efnahags- og viðskiptanefnd sögðum það í vor, þegar síðasti pakki var afgreiddur og framlengdur, að við myndum taka þetta mál aftur upp í haust, sem við munum gera. Enda er það svo að þegar við vorum að vinna þetta fyrst, þegar allt var að byrja, þá var því hreinlega lofað að fyrst yrði farið í heimilin, svo myndi sveitarfélagið verða skoðað og síðan fyrirtækin. Mér finnst allt í lagi með þessa forgangsröðun en það þarf auðvitað að klára dæmið.“

Þetta er hróplegt óréttlæti

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar:

„Þegar Þórkatla var stofnuð á sínum tíma þá lagði ég fram breytingartillögu um að skilja ekki lögaðilana eftir – og þær tillögur voru felldar. Stærstur hluti stjórnarandstöðunnar samþykkti þessar tillögur en ríkisstjórnin felldi þær.

Það er fullt af fólki, segjum bara eldra fólk sem er komið á elliheimili og hefur farið að leigja eða lána barnabörnum sínum húsnæðið sitt, og af því að þau eru ekki með skráð lögheimili þar þá fá þau ekki húsnæðið sitt greitt. Við erum með hópa sem eru lögaðilar en líka fólk sem býr ekki í húsnæðinu og þessir hópar voru skildir eftir, sem er grátlegt.

Stærsti hluti míns tíma eftir áramót hefur farið í að tala um Grindavík og ég get ekki sagt annað en að þetta er hróplegt óréttlæti, að skilja ákveðna hópa eftir. Bæði þá sem áttu ekki lögheimili í ákveðnu húsi, sem gat verið af ýmsum ástæðum, og lögaðila.

Félög eins og Búmenn áttu eignir þarna en Búmenn voru skildir eftir. Fólkið fékk kaupréttinn sinn greiddan, sem gat hlaupið á hundruðum þúsunda eða jafnvel milljónum. Búmenn eru lögaðilar og ef þeir hefðu fengið borgað hefur þeir farið að byggja annars staðar á Suðurnesjum og það fólk sem var hjá Búmönnum í Grindavík hefði haft forgang í þær eignir.

Svo voru dánarbú allt í einu tekin inn á síðustu metrunum og við fengum aldrei skýringu á því hvers vegna þau voru tekin inn. Fyrir hverja var það? Það bjó enginn í dánarbúi, þeir voru allir dánir. Var verið að bjarga einhverjum erfingjum? Það var margt í þessu sem mér finnst mjög vont.“

Mýmörg dæmi þar sem eitthvað er á gráu svæði

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar:

„Í þessu tilviki myndi ég ætla það, þar sem hann [sonur hjónanna] hefur sannarlega búið í húsnæðinu, og tilgangurinn með Þórkötlu var að tryggja með öllum mögulegum hætti íbúðarhúsnæði fyrir fólk með þessum uppkaupum og það kemur alveg fram í ræðu og riti, bæði hjá mér og öðrum þingmönnum kjördæmisins, að þær reglur, þeim er ætlað að vera túlkað vítt. Þess vegna mundi ég halda að þetta myndi falla undir uppkaup í Þórkötlu, þar sem hann sannarlega bjó í þessu húsnæði.

Gefum okkur að þetta hafi verið félag sem hefði verið að leigja út þetta húsnæði til ferðamanna þá hefði það ekki verið upphafleg notkun þess til að uppfylla húsnæðisöryggi fyrir íbúa í Grindavík og mér finnst þetta vera grundvallaratriði. Það er auðvitað kærunefnd sem tekur við málum ef íbúar í Grindavík telja að þarna hefði Þórkatla átt að kaupa upp húsnæðið, þá er hægt að vísa því til kærunefndar. Úrskurður Þórkötlu er kæranlegur og í þessu tilfelli myndi ég beina þeim til þess að gera slíkt, út frá þessum forsendum.

Þetta er svo ofboðslega fjölbreytt og undir Þórkötlulögin falla ekki lögaðilar. Það var frá upphafi ákveðið að hafa það þannig. Ríkið myndi reyna að koma til móts við rekstrarhæf fyrirtæki með styrkjum, launastuðningi o.s.frv. Sem var svo framlengdur í lok þessa þings og gerður afturvirkur, þannig að það eru umtalsvert meiri fjárhæðir sem fyrirtækin geta sótt um. Þeim er raunverulega frjálst að nýta þann rekstrarstyrk eins og þau vilja.

Þarna er um einstaklinga að ræða og húsnæði sem var aldrei ætlað undir atvinnurekstur, þá mundi ég ætla að Þórkatla ætti að kaupa upp slíkt húsnæði. Ef þau sannarlega geta sýnt fram á að húsnæðið var keypt inn í félagið til að auðvelda syni þeirra að eignast það þá ætti einfaldlega staðreyndamat að fara fram – og ef Þórkatla neitar þá mundi ég ætla að þau væru með mál í höndunum til þess að leita réttar síns fyrir úrskurðarnefnd.

Þessi víða skilgreining kemur fram í lögunum um Þórkötlu – hún er ekki endalaus. Ef til dæmis væri um einstakling að ræða sem stofnaði félag, keypti þrjár, fjórar íbúðir og væri að leigja þær út á almennum markaði, þá það er ekki tilgangur Þórkötlu að fara að kaupa upp það húsnæði heldur að tryggja þeim einstaklingum sem búa í Grindavík möguleika á því að geta komið sér upp húsnæði annars staðar – og í þessu tilviki mundi ég halda að hann sé nákvæmlega í þeirri stöðu að ef þau fá ekki þessa íbúð uppkeypta þá eru lögin um Þórkötlu ekki að ná utan um hann.

Hafi viðkomandi hins vegar sannarlega haft viðveru í viðkomandi húsnæði þá finnst mér það einmitt vera það sem þessi víða skilgreining nær utan um. Það gefur auga leið að ef þú ætlar að láta ríkið tryggja húsnæði þá koma upp mýmörg dæmi þar sem eitthvað er á gráu svæði, við hefðum aldrei getað skilgreint það í lögunum nákvæmlega, við hefðum alltaf þurft að hafa eitthvað mat á því og þess vegna er þetta sett svona inn.

Lög sem þessi hafa aldrei verið sett á Íslandi og það var alveg ljóst að við mundum mögulega þurfa að gera einhverjar breytingar á þeim, mögulega þyrfti að skoða svigrúm nánar hjá Þórkötlu o.s.frv. þegar verkefni Þórkötlu er komið af stað. Við gerðum ráð fyrir þessu svigrúmi nákvæmlega út af svona máli.“