Optical Studio
Optical Studio

Mannlíf

Aleinn út að borða og hugmynd fæddist
Helgi með átrúnaðargoði sínu, Colonel Sanders, sem startaði KFC árið 1952.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 26. júlí 2024 kl. 12:00

Aleinn út að borða og hugmynd fæddist

„Kentucky er auðvitað besti veitingastaður í heimi, það er staðreynd sem flestir vita og ég ætla mér að breiða þetta fagnaðarerindi út um allan heim,“ segir matgæðingurinn Helgi Leó Leifsson en hann fór frá því að borða aleinn, í að vera á góðri leið með að búa til trend sem mun að öllum líkindum ná út fyrir landsteinana.

Helgi var einn í pottinum heima hjá sér, var orðinn svangur og hafði samband við nokkra vini og vildi fá þá með sér á KFC en þeir voru allir búnir að borða og því þurfti Helgi að fara einn og þá fæddist hugmynd.

„Mér fannst súrt að vera einn að borða þetta kvöld og henti einfaldlega í event á Facebook 19. júní. Það skipti engum togum, áður en varði voru fjölmargir búnir að melda sig á viðburðinn og mætingin þetta kvöld fór fram úr björtustu vonum. Fólk utan landsteinanna sem eðli málsins gat ekki mætt á KFC í Hafnarfirði þetta kvöld, fann KFC stað þar sem það var og var þar með með okkur í anda. Það verður nefnilega að hafa í huga að fólk er ekki bara að seðja hungrið þegar það mætir á KFC, það er líka að næra sálina, sérstaklega þegar margir koma saman.

Optical Studio
Optical Studio

Mætingin mánudagskvöldið 22. júlí fór nánast úr böndunum, það lá við að tíðir gestir KFC hefðu þurft frá að hverfa, slík var mæting okkar Grindvíkinganna og fólks í kringum okkur. Við áttum saman fallega stund, allir stóðu upp, kynntu sig og sögðu frá hvað venjulega er pantað og var gaman að heyra reynslusögur KFC-ara.“

Heimsyfirráð?

Helgi á allt eins von á því að þurfa setjast að samningaborðinu með forsvarsmönnum KFC á Íslandi og fá staðinn fyrir sig og sína hreyfingu og hver veit nema eigendur KFC á heimsvísu, taki eftir framtakssemi þessa flotta peyja.

„Það er 90% líkur á að næsti hittingur verði í Mosfellsbæ, KFC-staðurinn þar er stór og mikill og mun vonandi duga fyrir þann fjölda sem að öllum líkindum mun mæta. Þetta er auðvitað lúxusvandamál fyrir KFC, að þurfa hugsanlega að loka staðnum í x langan tíma á meðan KFC-hreyfingin nærir líkama og sál. Fastagestir KFC geta samt að sjálfsögðu gengið í hreyfinguna, við erum öll ein fjölskylda. Ég er ekki farinn að stefna á alheimsyfirráð, fyrst ætla ég að boða fagnaðarerindið út hér á Íslandi,“ sagði Helgi Leó að lokum.

Helgi minnti á bandarískan predikara þegar hann messaði yfir samkundunni.

Þetta er bara lítill hluti allra sem mættu.

Haukur Einarsson til vinstri, er verndari hreyfingarinnar. Jón Gauti Dagbjartsson hefur alltaf verið mikill unnandi KFC.

Fjölmargir mættu á KFC í Reykjanesbæ mánudagskvöldið 22. júlí.