Kvennakór Suðurnesja tók þátt í alþjóðlegu kóramóti í Grikklandi
Kvennakór Suðurnesja er nýkominn heim frá Grikklandi þar sem kórinn tók þátt í alþjóðlegu kóramóti og kórakeppni. Mótið var haldið á vegum Interkultur en það eru samtök sem hafa haldið fjölmörg kóramót og keppnir um allan heim allt frá árinu 1988. Mótið var haldið í Kalamata sem er við Miðjarðarhafsströnd Pelópsskagans og tóku 26 kórar frá fjórtán þjóðum þátt.
Snemma að morgni miðvikudagsins 9. október sl. héldu kórkonur, 21 talsins ásamt kórstjóranum Dagnýju Þ. Jónsdóttur, Geirþrúði F. Bogadóttur píanóleikara, Haraldi Á. Haraldssyni básúnuleikara og tólf mökum kórkvenna, samtals 36 manns, af stað í ferðalagið. Flogið var til Aþenu með nokkurra klukkustunda viðkomu í London og síðan tók við þriggja tíma rútuferð frá Aþenu til Kalamata. Þangað kom hópurinn þegar nokkuð var liðið á aðfararnótt fimmtudagins. Næsta morgun tóku við æfingar og hljóðprufur fram eftir degi og um kvöldið var setningarhátíð mótsins.
Á föstudeginum hófst síðan kórakeppnin. Keppt var í hinum ýmsu flokkum og tók Kvennakór Suðurnesja þátt í tveimur flokkum, annars vegar í flokki P – popp, djass og gospel tónlist og hins vegar í flokki B2 - almennum flokki kvennakóra. Kórinn söng þrjú lög í hvorum flokki, allt íslensk lög. Keppt var í fyrri flokknum síðdegis á föstudeginum en þeim seinni á sunnudagsmorgni. Þrír dómarar dæmdu alla flokka og fengu kórarnir diplómur en það fór eftir stigagjöf hvort þeir fengu gull, silfur eða brons. Kvennakór Suðurnesja fékk silfur í báðum flokkum og voru kórkonur mjög sáttar við sína frammistöðu. Einnig fóru fram vinatónleikar víðsvegar um borgina og tók kórinn þátt í einum slíkum sem fóru fram á aðaltorgi bæjarins á laugardagskvöldinu ásamt kórum frá Singapore og Kýpur. Þar flutti kórinn sex íslensk lög. Síðdegis á sunnudeginum söfnuðust allir kórarnir saman í skrúðgöngu um miðbæ Kalamata og um kvöldið var svo haldin verðlaunaafhending og lokahátíð.
Tveir síðustu dagarnir voru nýttir í að skoða þetta fallega svæði, fara á ströndina og borða góðan mat áður en haldið var heim. Heimferðin tók álíka langan tíma og ferðalagið út og voru það þreyttir en mjög ánægðir ferðalangar sem lentu á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir miðnætti miðvikudaginn 16. október eftir frábæra ferð. Það er bæði gaman og gagnlegt fyrir kórinn að taka þátt í móti sem þessu, það voru margir frábærir kórar sem tóku þátt og gaman að sjá fjölbreytnina sem þarna var.
Eftir velheppnaða og skemmtilega ferð til Grikklands taka við æfingar á nýju prógrammi fyrir næstu verkefni. Þar má m.a. finna vinsæl popp- og dægurlög, bæði íslensk og erlend, ný og gömul. Það er ýmislegt framundan hjá kórnum, m.a. vortónleikar í maí 2025 og landsmót íslenskra kvennakóra sem Kvennakór Suðurnesja mun halda í Reykjanesbæ árið 2026, en undirbúningur er þegar hafinn fyrir mótið enda stórt og mjög spennandi verkefni.