Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Mannlíf

Ánægður á golfvellinum eftir tæp sjötíu ár á sjónum
Sveinn Ísaks og Alda Demusdóttir.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. júní 2022 kl. 07:41

Ánægður á golfvellinum eftir tæp sjötíu ár á sjónum

„Ég kunni ekki við að veiða loðnu og síld í troll,“ segir Sveinn Ísaksson sem fór fyrst á sjó tólf ára

Sveinn Ísaksson er fyrrum skipstjóri og á afar farsælan feril að baki. Hann hefur búið í Grindavík síðan grunnskólagöngu lauk en Sveinn er frá Grenivík. Hann kom til Grindavíkur á vertíð, kynntist konu sinni, Öldu Demusdóttur og þau settust að í Grindavík. Sveinn sem er 77 ára í dag, hóf sjómennsku með pabba sínum þegar hann var einungis tólf ára gamall. Strax eftir að grunnskólagöngu lauk tók sjómennskan alfarið við, hann sótti sér réttindi í Stýrimannaskólanum og sigldi sleitulaust til ársins 2018 þegar hann steig óstuddur frá borði. Stuttu síðar lenti hann í áfalli þegar hann fékk heilablóðfall og var tvísýnt um líf hans um tíma. Þrátt fyrir að Sveinn beri lömun vinstra megin í líkamanum er engan bilbug á honum að finna og hann stundar áhugamál sitt, golfið, af fullum krafti.

Tólf ára á sjóinn

„Ég fór minn fyrsta róður með pabba þegar ég var tólf ára gamall en hann var sannkallaður sjávarútvegsbóndi, með rollur og kýr en átti auk þess trillu. Það þurfti oft að taka á því en ég hjálpaði til við búreksturinn samhliða skólagöngu, þegar henni lauk réði ég mig á minn fyrsta bát, Áskel. Þetta var árið 1962. Við rerum á línu og netum en Áskell var í eigu Gjögurs. Þar sem ekkert fiskerí var fyrir norðan á þessum tíma var Gjögur með stóra starfsstöð í Grindavík og segja má að ég hafi flutt suður á þessum tíma. Ég var á Áskeli í eitt ár en fór þá yfir á Oddgeir sem var 200 tonna stálskip. Þá var veitt á síldarnót og netum, eins og tíðkaðist á þeim árum. Ég fann fljótt að ég vildi leggja sjómennskuna fyrir mig og skráði mig í Stýrimannaskólann árið 1964, þá á nítjánda ári. Tók stigin tvö, hinn svokallaða fiskimann, og réði mig svo sem stýrimann á Búðarklett frá Hafnarfirði en skipstjóri þar var bróðir minn, Oddgeir. Búðarklettur var 250 tonna nótarskip sem var líka á netum.“

Viðreisn
Viðreisn

Gífurleg veiði

Skipstjórnarferillinn hófst síðan árið 1968 þegar Sveinn réði sig hjá Þorbirni og tók við Hrafni Sveinbjarnarsyni III.

„Þarna bættist loðnan inn í jöfnuna en eftir að netavertíð lauk var farið á nót og síld og loðna veidd. Það fiskaðist gífurlega en þetta er fyrir tíma kvótakerfisins. Ég var á þeim þriðja allt til ársins 1975 þegar Tómas Þorvaldsson, eigandi Þorbjarnar, keypti Héðin og nafnið á skipinu breyttist í Hrafn Sveinbjarnarson. Ég var með Hrafninn í 21 ár, allt til ársins 1996, en þá tók ég við Jóni Sigurðssyni sem var í eigu Fiskimjöls & Lýsis. Það fyrirtæki rann síðan inn í Samherja. Á þessum tíma var farið að veiða loðnu og síld í troll en ég kunni aldrei vel við það og vil ég meina að þetta hafi rústað þessum stofnum. Ég staldraði stutt við hjá Samherja og sótti um skipstjórnarstöðu á Víkingi frá Akranesi en skipið var í eigu Haraldar Böðvarssonar sem síðar sameinaðist inn í Granda. Víkingur var gamalt skip og stóðst ekki lengur kröfur um kælingu, því var ákvörðun tekin um að leggja skipinu og þá hætti ég. Ég rifjaði þá aftur upp kynnin við Gjögur og réð mig á Áskel og var skipstjóri allt til ársins 2008 en þá lauk skipstjórnarferlinum.“

Eðvarð júlíusson og Gísli Jóns með Sveini á Húsatóftavelli Golfklúbbs Grindavíkur.

Á sjónum fram yfir sjötugt

Eftir öll þessi ár með stjórnina í sínum höndum ákvað Sveinn að lengja samt í sjómannsferlinum og réði sig sem stýrimann á línuskipum Vísis og Þorbjarnar.

„Það var fínt að enda ferilinn sem stýrimaður, ekki eins mikil ábyrgð og ég orðinn 67 ára gamall. Það var ekkert skrítið að gerast stýrimaður en á þessum línuskipum má segja að það séu tveir skipstjórar, annar á vaktinni á daginn en hinn á nóttunni. Ábyrgðin samt auðvitað meiri á skipstjóranum og það var fínt að minnka pressuna og vera bara stýrimaður en ég starfaði þannig allt til ársins 2018 þegar ég var orðinn 73 ára gamall.“

Eftir farsælan sjómannsferil átti að taka við tími til að sinna hugðarefnunum en þar hefur golfið alltaf átt stóran sess hjá Sveini. Örlögin gripu hins vegar í taumana ári síðar þegar hann varð fyrir því áfalli að fá heilablóðfall. Um tíma var tvísýnt um líf hans en Sveinn var aldeilis ekki tilbúinn að kveðja og barðist í gegnum áfallið, lagði gífurlega á sig í endurhæfingunni og hefur snúið til baka á golfvöllinn. Þótt getan sé ekki alveg sú sama og hún var þegar Sveinn var upp á sitt besta, en lægst komst hann í 10,4 í forgjöf, þá hefur hann gaman af golfinu sem hann stundar í hópi flottra heldri meðlima Golfklúbbs Grindavíkur.

„Ég hef náð að jafna mig ótrúlega vel en getan í golfinu er ekki sú sama. Það er ekki á allt kosið í þessu en ég hef ofboðslega gaman af því að hitta karlana og spila með þeim. Ég mun halda ótrauður áfram og ætla mér að njóta þess sem eftir er,“ segir skipstjórinn, stýrimaðurinn og kylfingurinn Sveinn.