Mannlíf

„Andlit bæjarins“ verður aðal sýning Ljósanætur 2015
Valgerður Guðmundsdóttir frá menningardeild Reykjanesbæjar var á meðal fyrirsætna á lokakvöldinu. VF-myndir/pket.
Miðvikudagur 10. júní 2015 kl. 09:43

„Andlit bæjarins“ verður aðal sýning Ljósanætur 2015

Sýning áhugaljósmyndarafélagsins Ljósops í Reykjanesbæ „Andlit bæjarins“ verður aðal sýningin á Ljósanótt og verður í sal Listasafns Reykjanesbæjar. Til stóð að Ellert Grétarsson yrði með sýningu þar en hann hætti við hana í mótmælaskyni við yfirvöld vegna ákvarðana þeirra um stóriðju í Helguvík.

Björgvin Guðmundsson í Ljósopi hefur mundað vélina í þessu magnaða verkefni „Andlit bæjarins“ og í gærkvöldi var síðasta myndatökukvöldið. Nærri 90 manns mættu fyrir framan linsuna hjá kappanum og samtals tók hann myndir af nærri því 300 manns. Ljósop er með aðstöðu á Vatnsnesi í Keflavík í gömlu húsi sem áður hýsti m.a. Byggðasafn Reykjanesbæjar. Ljósop auglýsti eftir fyrirsætum eða andlitum og var öllum frjálst að koma.

Hann sagðist ekki viss um að þær myndu allar verða sýndar á sýningunni á Ljósanótt en þó væri ljóst að það væri meira svigrúm til að sýna fleiri myndir vegna stærðar salarins. „Þetta hefur gengið vonum framar, byrjaði rólega en hefur farið vaxandi og náði miklum toppi síðasta kvöldið. Ég er mjög spenntur og félagar mínir í Ljósopi líka. Þó ég hafi tekið myndirnar þá er ljóst að það er að ýmsu að hyggja fyrir svona sýningu og ég mun þurfa aðstoð frá þeim.“

Björgvin hefur sýnt á netinu all nokkrar myndanna sem hann hefur tekið og hafa þær vakið athylgi fyrir sérstakan stíl og þótt mjög skemmtilegar. Hann var ekki lengi með hverja fyrirsætu, smellti innan við tíu myndum á mann og verkið gekk því vel. „Ertu með nægar filmur,?“ spurði ein fyrirsætan, eldri karlmaður. „Þetta er allt digital, engar filmur lengur,“ sagði ljósmyndarinnar. Þó vel hafi gengið að mynda er ljóst að eftirvinnan verður þó mun meiri eins og gefur að skilja. „Þetta verður djobbið mitt í sumarfríinu,“ sagði Björgvin og brosti.
Það er ljóst að margir munu líka brosa þegar sýningin opnar á Ljósanótt í haust.

Á vefsíðunni http://andlitbaejarins.com/ er hægt að sjá afrakstur Björgvins fyrir lokakvöldið og þar getur fólk keypt myndirnar.

Sjónvarp Víkurfrétta kíkti á lokakvöldið hjá Björgvini og mun sýna innslag frá heimsókninni í þætti vikunnar.