Viðreisn
Viðreisn

Mannlíf

Brjálað að gera á Papas pizza í opinni Grindavík
Þormar við stýrið, Gylfi í farþegasætinu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 7. nóvember 2024 kl. 07:00

Brjálað að gera á Papas pizza í opinni Grindavík

„Við vorum búnir að bíða lengi eftir opnun bæjarins, það hefur verið mjög mikið að gera og vonandi er þetta það sem koma skal. Því miður misstum við frábært starfsfólk út úr bænum og auglýsum hér með eftir starfsfólki,“ segja eigendur Papas pizza í Grindavík, Gylfi Ísleifsson og Þormar Jón Ómarsson. Þeir hafa verið duglegir að berjast fyrir uppbyggingu Grindavíkur alveg frá því að hamfarirnar áttu sér stað í fyrra og hafa margoft opnað en neyðst til að loka aftur. Ekki var grundvöllur fyrir að halda úti starfsemi á meðan súrefni barst ekki inn til bæjarins en um leið og bærinn opnaði mánudaginn 22. október hefur starfsemin komist á fljúgandi siglingu og flugið hefur hækkað dag frá degi.

Það hefur heldur betur verið nóg að gera hjá félögunum síðan þeir gátu opnað því ekki nóg með að nóg sé af matargestum, heldur er búið að endurnýja stóran hluta starfsliðsins.

„Við misstum því miður frábært starfsfólk, fólk sem var búið að vera lengi með okkur og þekkir allt saman út og inn. Það hefur verið krefjandi að koma nýju starfsfólki inn í málin en þau eru öll mjög áhugasöm og þetta mun ganga upp. Það er oft gífurlegt álag á mestu álagstímunum og þá er gott að allt gangi smurt fyrir sig og ég veit að við komumst aftur þangað. Kannski gott að nýta þetta tækifæri og auglýsa eftir duglegu og jákvæðu fólki til að vinna hjá okkur, starfsandinn hefur alltaf verið góður og það er alltaf góð stemning hjá okkur, sérstaklega þegar það er mikið að gera.

Viðreisn
Viðreisn

Það var heldur betur kærkomið að geta opnað aftur og vonandi munum við ekki þurfa loka aftur nema bara rétt á meðan næsti atburður fer í gang. Við virðum alveg að þurfa rýma á meðan atburður  er að hefjast og sem betur fer hefur Úlfar lögreglustjóri slakað mikið á í kjölfar atburða, síðast var okkur hleypt inn í bæinn tæpum sólarhring eftir að eldgosið fór af stað. Við viljum trúa því að það sé stutt eftir í þessu langhlaupi, Þorvaldur eldfjallafræðingur telur að það séu tvö til þrjú eldgos eftir á þessari Sundhnúkagígaröð og ef eldgosin koma upp á svipuðum slóðum og undanfarið, er einfaldlega engin hætta fyrir hendi í Grindavík. Ef þetta heldur svona áfram viljum við sjá ákvörðun tekna með að stefna á að skóla- og leikskólahald geti hafist á nýjan leik haustið 2025. Um leið og fólk fer að heyra annan hljóm en verið hefur, mun fólk flykkjast til Grindavíkur á ný, það erum við sannfærðir um,“ sögðu Papas-félagarnir.

Svona hefur mætingin meira og minna verið síðan Papas gat opnað eftir að Grindavíkurbær opnaði.