Mannlíf

Fann systur sínar í Bandaríkjunum
Árni ásamt systrum sínum.
Föstudagur 25. desember 2015 kl. 08:00

Fann systur sínar í Bandaríkjunum

Árni Júlíusson frétti af því árið 1979 að hann ætti tvær systur í Bandaríkjunum. Langþráð ósk um að hitta þær rættist svo í vor eftir að barnabarn hans leitaði þær uppi með hjálp tölvutækninnar. Þær höfðu ekki hugmynd um að þær ættu bróður á Íslandi og tóku honum opnum örmum.
 
Árni Joseph Michael Júlíusson, eða Árni Júll úr Njarðvík, fæddist í september árið 1943. Faðir hans var James Earl Welchel, bandarískur hermaður, sem um tíma var búsettur á Keflavíkurflugvelli. James hélt sambandi við mæðginin á meðan hann dvaldi á Íslandi og mætti í skírn sonar síns og valdi á hann millinöfnin tvö Michael og Joseph. Í janúar 1944 var James sendur til Englands en skrifaðist á við barnsmóður sína á Íslandi fram í mars árið 1945. Eftir það slitnaði sambandið og fram til ársins 1979 var samband feðganna ekkert. 
 
Árni leitaði föður sinn uppi og fór til Atlanta í Bandaríkjunum árið 1979 ásamt Sólveigu Steinunni Jónsdóttur eiginkonu sinni og þremur af fjórum börnum þeirra. Þeir hittust í stutta stund og áttu gott spjall saman. „Þá sagði pabbi mér að hann væri kvæntur, ætti tvær dætur. Við ætluðum svo að hittast aftur næsta dag og hann kvaddi mig hlýlega. Svo komst hann ekki að hitta okkur daginn eftir og nokkrum mánuðum síðar sendi hann mér bréf og sagði að við gætum ekki verið í sambandi. Svo heyrði ég ekki meira frá honum,“ segir Árni.
 
Árni ásamt systrum sínum við leiði föður þeirra.
 
Hugsaði stöðugt um systurnar
Það voru mikil vonbrigði fyrir Árna að faðir hans skyldi hafna áframhaldandi sambandi en hann ákvað að reyna að láta allar ósvöruðu spurningarnar um afstöðu föður síns ekki trufla sig. Hann gat þó aldrei hætt að hugsa um systur sínar tvær. „Ég hugsaði með mér að ég yrði að hafa uppi á þeim. En öll árin sem liðu þangað til það varð að veruleika var ég samt oft hálfpartinn búinn að gefa upp vonina.“  Það var svo einhvern tíma eftir árið 2000 að séra Þorvaldur Karl Helgason, prestur í Njarðvík, komst að því að James Earl hafði látist árið 1995. Þær upplýsingar fann Þorvaldur á vefnum www.findagrave.com. 
 
Í gegnum tíðina hafði Árni oft nefnt það við börn sín að gaman væri að finna systurnar en enginn hafði tekið hann alvarlega. Það var svo dóttursonur Árna, Bjarni Benediktsson, meistaranemi í tölvunarfræði í Swiss, sem ákvað að ganga í málið fyrir afa sinn. Í vor bar leit Bjarna árangur þegar hann hafði samband við starfsmann kirkjugarðsins þar sem James Earl hvílir og fékk þar netfang hjá frænku hans. Sú hafði svo samband við systurnar og sagði þeim að þær ættu bróður á Íslandi sem væri að leita að þeim. „Þær héldu fyrst að þetta væri kannski Nígeríu-svindl,“ segir Árni og hlær. Hann sendi þeim svo skírnarvottorðið sitt með nafni föður síns á og önnur gögn til að sýna fram á að þau væru samfeðra. „Eftir það opnuðust allar gáttir og við skrifuðumst mikið á í tölvupósti.“
 
Grátur og gleði
Í ágúst síðastliðnum fór Árni svo ásamt eiginkonu sinni og börnunum fjórum til Atlanta að hitta systur sínar í fyrsta sinn. „Það var ógleymanleg stund að hitta þær loksins. Þær tóku okkur svo vel. Við grétum og hlógum til skiptis. Það var eins og við hefðum alltaf þekkst og það var skrítin tilfinning,“ segir Árni. Systurnar heita Donna og Sharon og eru 65 og 67 ára gamlar. Árni og fjölskylda vörðu fimm dögum með þeim í Atlanta. „Við vorum öll saman frá morgni til kvölds og ræddum um heima og geima og það var ekki vitund vandræðalegt. Við erum misgóð í ensku en einhvern veginn björguðum við okkur öll.“ Saman skoðaði nýsameinaða fjölskyldan söfn, CNN fréttastofuna, fór upp fjall, í vínsmökkun, út að dansa og ýmislegt fleira. Árni og fjölskylda hittu einnig börn systranna og fengu sömu hlýju móttökurnar hjá þeim. 
 
Systur Árna höfðu sett saman möppu með myndum af pabba þeirra og systkinum hans átta og af ömmu þeirra og afa. Föðuramma Árna var Cherokee indíáni og getur hann því stoltur sagst vera af indíánaættum.  
 
 
Fjölskyldurnar hittust í fyrsta sinn í sumar í Atlanta. Í efri röð frá vinstri er Donna systir Árna, Sólveig Steinunn, eiginkona Árna, Árni, Guðfinna og Jón Júlíus Árnabörn, Todd, systursonur Árna. Í fremri röð eru Sherri, systir Árna og Inga og Arna Árnadætur.
 
Systkinin og fjölskyldur halda núna sambandinu áfram með tölvupóstsamskiptum og á Facebook. Þau hafa stofnað hóp þar og eru dugleg að setja þangað inn myndir úr daglega lífinu. Til að mynda fóru Árni og fjölskylda í sumarbústað um daginn og gerðu jólakonfekt. Þau deildu myndum af konfektgerðinni með systrunum og ætla svo að senda þeim mola og leyfa þeim að njóta góðgætisins. 
 
Bæta upp liðinn tíma
Börn Árna voru spennt að sjá hvort hann væri líkur systrum sínum en voru svo sammála um að svo væri ekki. Donna og Sharon höfðu aftur á móti orð á því að ýmsir taktar hjá Árna væru líkir töktum hjá föðurbróður þeirra. Systurnar eru góðar vinkonur og hafa oft ferðast saman til Evrópu og vissu því ýmislegt um Ísland. Þegar dvölin í Atlanta í ágúst var á enda vildu systurnar ekki sleppa bróður sínum. Þau eru öll ákveðin í því að nýta næstu ár vel til að bæta upp öll árin sem þau þekktust ekki. Í febrúar ætla þau að hittast í Boston. Svo er líklegt að þær komi til Íslands næsta sumar og eru Árni og fjölskylda full eftirvæntingar að taka á móti þeim. 
 
Önnur systir Árna á einn son og eitt barnabarn og hin tvær dætur og eiginmann. Árni og fjölskylda eru hins vegar um 30 talsins þegar börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn eru talin með. Það má því segja að þær systur hafi heldur betur fengið viðbót við sína fjölskyldu þegar þær kynntust bróður sínum frá Íslandi. Hvað Árna varðar þá fann hann loksins bitana tvo í lífsins púsl sem hann hafði í 37 ár langað að finna.
 
Árni ásamt Sólveigu eiginkonu sinni
 
Amma Árna var Cherokee indjáni. Þessa mynd fékk ömmu sinni og afa fékk Árni frá systrum sínum.