Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hætti í besta formi lífs síns
Gunnar kann vel við sig í ræktinni.
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 10:04

Hætti í besta formi lífs síns

- Gunnar Einarsson um lífið eftir körfuboltann

Gunnar Einarsson sagði skilið við körfuboltann fyrir tveimur árum. Eftir að hafa unnið allt með sem í boði var með einu sigursælasta liði sem hefur leikið körfubolta á Íslandi, ákvað Gunnar að leggja skóna á hilluna. Margir voru undrandi yfir ákvörðun Gunnars en þegar hann hætti virtist hann ennþá eiga fullt erindi meðal þeirra bestu, enda hafði hann sjaldan verið í betra formi. Ástæðan fyrir því að Gunnar var svona vel á sig kominn í lok ferilsins var nýja ástríðan, líkamsræktin. Gunnar sneri sér að einkaþjálfun eftir að ferlinum lauk en hann segir sjálfur að sá vettvangur eigi afar vel við sig. Þar getur hann miðlað af reynslu sinni sem fyrrum íþróttamaður í fremstu röð.

Hvenær vaknaði þessi brennandi áhugi hjá þér á líkamsræktinni?
„Áhuginn var alltaf til staðar en alls ekki í þeirri mynd sem hann er í dag hjá mér. Ég átti það til að vera voða duglegur yfir sumarið að æfa í lyftingasalnum en svo hætti maður því um leið og körfuboltatímabilið tók við. Seinna meir áttaði ég mig á því að ég var að græða mikið meira á því að æfa á ársgrundvelli og þegar ég fór að taka til í mataræðinu þá var eins og þetta hafi smollið allt saman. Boltinn fór að rúlla og hér er ég í dag að vinna við það sem ég elska og er gríðarlega þakklátur fyrir það,“ segir Gunnar en honum hefur gengið vel á nýjum vettvangi og vakið þar nokkra athygli. Hann rekur í dag Einka.is í samstarfi við Ásdísi Þorgilsdóttur eiginkonu sína sem einnig er einkaþjálfari.

„Ég vil vera þessi þjálfari sem ég hefði viljað hitta þegar ég var yngri, það sem ég veit í dag vil ég miðlað til annara íþróttamanna svo þeir geti náð ennþá lengra í sinni íþrótt. Mig svíður þegar ég sé hæfileikaríkt íþróttafólk sem gæti orðið svo mikið betra ef það einfaldlega myndi breyta um lífsstíl. Ég get miðlað minni reynslu frá mínum íþróttabakgrunni, sem maður les ekki í neinni bók og er ómetanlegt að mínu mati.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á dögunum tók Gunnar körfuboltaskóna fram aftur en hann lék þá með stjörnum prýddu liði sem í daglegu tali er nefnt B-lið Keflvíkinga. Liðið tók þátt í bikarkeppninni og er komið í átta liða úrslit, á meðan A-liðið svokallaða er úr leik. Sérstaka athygli vakti koma Damon Johnson til landsins en hann spilaði með gömlu kempunum í sigri gegn ÍG frá Grindavík. Damon sem er af mörgum talinn vera besti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur á Íslandi, virtist engu hafa gleymt og skoraði 31 stig í leiknum. Gunnar sjálfur var svo með 19 stig og virkaði í fanta formi.

Pulsur og gos frekar en Lónið
„Eftir að hafa verið í fjarsambandi í 10 ár var mjög gaman að hitta Damon aftur. Ég tala nú ekki um að stíga inn á parketið aftur og taka einn leik saman, þetta var hrikalega gaman,“ en Gunnar sótti Damon á flugvöllinn og síðan tók við fararstjórn hjá Gunnari þar sem gamlir kunningjar Damon voru m.a. heimsóttir. „Damon er frábær náungi og sést það best á því hve fólk er fljótt að líka vel við hann og hve fólk er ennþá hrifið af honum. Ég vildi endilega bjóða honum út að borða eftir æfinguna sem við tókum fyrir leikinn, en ég var búinn að láta mér detta í hug að fara með hann í Bláa Lónið að borða. Hann þráði hins vegar ekkert heitara en að fá pulsu af Pulsuvagninum og var hvað erfiðast fyrir hann að velja sér hvort hann ætti að fá sér Appelsín eða Mix með pulsunum,“ segir Gunnar og hlær.

Börnin tekin við í körfunni
34 ára gamall gekk Gunnar í burtu frá körfuboltanum. Gunnar er leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi en hann á rúmlega 800 leiki að baki og á þeim tíma lyfti hann 21 titli með liðinu. Þar af eru sex Íslandsmeistaratitlar og þrír bikarmeistaratitlar. Gunnar lék 27 landsleiki fyrir Íslands hönd á ferlinum.

Körfuboltinn var stór partur af þínu lífi, langar þig að koma nálægt honum aftur að einhverju leyti, með þjálfun jafnvel?
„Það er óhætt að segja að hann hafi verið stór partur af mínu lífi. Í minni fjölskyldu snérist alltaf allt um að púsla öllu í kringum körfuboltann. En ég sé mig ekki ennþá vera á leið út í þjálfun í körfubolta á næstunni, en það getur auðvitað breyst. En börnin á heimilinu eru núna tekinn við í körfuboltanum og nú er ég bara tekinn við af pabba mínum þ.e.a.s. blístrandi upp í stúku og hvetjandi þau áfram.“

Algjör yfirhalning eftir ein jólin
Gunnar tók sjálfan sig taki árið 2005. Hann var þá þegar leikmaður í fremstu röð en var ekki fullkomlega sáttur við sjálfan sig, enda annálaður keppnismaður.
„Ástæðan fyrir því að ég tók skrefið enn lengra eitt árið varðandi að bæta mig sem íþróttamann, var sú að ég lenti á vegg ein jólin. Þar var jólamaturinn eitthvað að hafa áhrif á frammistöðu á æfingum eftir jólafríið. Ég hélt í alvörunni að ég kæmist ekki í gegnum fyrstu æfinguna sem var í erfiðari kantinum undir stjórn Sigga Ingimundar. Eftir æfinguna kom ég heim, fór á nærbuxurnar og bað konuna mína að smella af mér mynd, því að hér ætlaði ég að breyta öllu, borða hollt og hugsa um líkamann eins og best væri á kosið. Þetta var árið 2005 og fann ég fljótt hvernig ég varð strax orkumeiri og leið mikið betur. Ég var líka fljótari að jafna mig á milli æfinga.“ Aðeins þremur árum síðar var Gunnar kosinn besti leikmaður úrslitakeppninnar 2008 en það ár léku þó þrír erlendir leikmenn með Keflavíkurliðinu.

Þú virðist ennþá eiga fullt erindi í úrvalsdeildina. Kitlar það ekkert að vita að þú eigir jafnvel heima þar ennþá?
„Það er ansi þægilegt að vera í B-liðinu. Við æfum ekkert og mætum bara í leiki, sem er ekki beint uppskriftin að titli. Þessir leikir eru ekkert í líkingu við það að spila í úrvalsdeildinni þrátt fyrir að mikil reynsla og leikgleði sé í þessum leikjum þá er ekki alveg sama harkan. Þetta er engu að síður mjög gaman og alltaf skemmtilegt að geta sannað það fyrir sjálfum sér að það sé alveg enn smá körfubolti til staðar í manni,“ segir Gunnar hógværðin uppmáluð.

Vaktar hetjurnar við skyndibitastaðina

Hvernig líst þér á möguleika ykkar í bikarnum gegn ÍR?
„Satt best að segja er ég ekki mikið að spá í þessum leik enda ekki fyrr en á næsta ári. En ætli við þurfum ekki að æfa aðeins oftar fyrir þennan leik þar sem þetta lið er í úrvalsdeildinni. Ég er ekki í neinum vafa um að við eigum eftir að sigra ÍR liðið í þessum leik ef mér tekst að koma liðinu í gott form fyrir leikinn. Nú þegar eru ansi margir úr liðinu komnir í þjálfun til mín og hinir með æfingakerfi sem þeir eiga að styðjast við. Þannig að ef þið sjáið einhverja af þessum B-liðs hetjum á skyndibitastöðunum þá vil ég endilega að fólk láti mig vita,“ segir Gunnar og hlær.

Blaðamaður stóðst ekki mátið og spurði Gunnar hvort hann myndi svara kallinu ef Keflvíkingar væru nálægt því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í vor og myndu óska eftir hans aðstoð?
„Það er nú þegar búið að hafa samband við mig en ég er ekki í neinum vafa um að Keflavík verði Íslandsmeistarar í ár, enda með gott lið,“ sagði Gunnar Einarsson kokhraustur að vanda.

Þjálfarar í fremstu röð leita ráða hjá Gunna

Gunnar hefur verið með margt besta íþróttafólk Íslands í þjálfun en þar má helst nefna Jón Arnór Stefánsson körfuboltamann á Spáni. Hann hefur verið í þjálfun hjá Gunnari síðustu sumur og náð eftirtektarverðum árangri.

„Það er gaman frá því að segja að hann hefur náð það miklum framförum að styrkjarþjálfarinn á spáni vildi fá upplýsingar hjá mér hvaða aðferðum ég væri að beita í þjálfunni. Ég að sjálfsögðu sagði þeim að láta hann taka pokann sinn og fá okkur hjónin bara í staðinn. En það er ótrúlega gaman hvað maður fer að fylgjast meira með þeim sem hafa verið og eru í þjálfun hjá mér og fer að finnast maður „eiga“ eitthvað í þeim eftir tímann og vinnuna sem búið er að leggja í styrktarþáttinn,“ segir Gunnar en hann á einnig mikið í árangri þeirra Arnórs Ingva Traustasonar og Harðar Axels Vilhjálssonar sem báðir starfa sem atvinnumenn í dag. Auk þess þjálfar hann fjölda knattspyrnu, - og körfuboltamanna í fremstu röð á Íslandi.

[email protected]