Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heldur útgáfuhóf fyrir Mojfríði í Bókasafninu
Fimmtudagur 15. febrúar 2018 kl. 07:00

Heldur útgáfuhóf fyrir Mojfríði í Bókasafninu

- viðtal við Mörtu Eiríksdóttur rithöfund

Marta Eiríksdóttir er fædd og uppalin í Keflavík, leiklistarkennari, viðburðarstjóri, dans- og jógakennari og nú rithöfundur. Nýjasta bók hennar, Mojfríður einkaspæjari, verður gefin út fimmtudaginn 15. febrúar nk.
Marta er gift Friðriki Þór Friðrikssyni og eiga þau tvö uppkomin börn og eitt barnabarn.
Hjónin fluttu til Noregs árið 2011 og þá byrjaði Marta að skrifa.

„Ég hef skrifað sex bækur í allt frá því að við fluttum hingað til Noregs árið 2011 en ég byrjaði að skrifa hér í upphafi vegna þess að ég var atvinnu- og mállaus,“ útskýrir Marta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þrjár bækur eftir Mörtu hafa nú verið gefnar út. Sú fyrsta var gefin út í samstarfi við Víkurfréttir, og heitir Mei mí beibísitt? Æskuminningar úr bítlabænum Keflavík. Í þeirri bók rifjar hún upp lífið í Keflavík þegar hermenn og fjölskyldur þeirra bjuggu mitt á meðal okkar Íslendinganna og litlu stelpurnar fóru á milli húsa til að passa Kanabörn. Þessi bók rifjar einnig upp hvernig krakkar á þessum tíma þurftu að skapa sína eigin leiki en bókin er skrifuð í léttum dúr. Húmorinn svífur yfir vötnum í þessari sögulegu skáldsögu.

Næstu bók gaf Marta út sjálf út hjá Balboa Press, sem er prentútgáfa í eigu Hay House í Bandaríkjunum og Louise Hay. Bókin heitir Becoming Goddess – Embracing Your Power!, en hún er skrifuð fyrir konur sem vilja vinna í sjálfum sér, opna fyrir kraftinn sinn og innri styrk og láta drauma sína rætast. Þetta er bók sem er afrakstur Gyðjuhelga sem Marta hélt undir Jökli í tíu ár þar sem konur komu saman til að leika sér og styrkja sig með jóga, dansi, leiklist og jurtafæði.

Mojfríður er kynlegur kvistur
Eins og áður segir kemur Mojfríður einkaspæjari út þann 15. febrúar nk. Sagan er fyrsta skáldsaga Mörtu og fjallar um undarlega konu sem er óvenju saklaus og góð. Þetta er einskonar njósnasaga þar sem aðalpersónan lætur æskudraum sinn rætast um að verða einkaspæjari kvenna og njósnar um eiginmenn sem stunda framhjáhald. Marta þvertekur fyrir að segja meira um framvindu sögunnar annað en að Mojfríður sé kynlegur kvistur, kona sem kom til hennar á sundlaugarbakka á Mallorca vorið 2013. Þá sat Marta í sólbaði og sagði við manninn sinn að hana langaði að skapa skemmtilega skrýtna persónu sem gæti glatt lesendur með furðulegum uppátækjum. Þar með fæddist aðalpersónan í rabbi þeirra hjóna. „Ég hló sjálf mikið þegar ég var að skrifa þessa bók,“ bætir Marta við hress í bragði. Margir staldra sennilega við titil bókarinnar og þegar Marta er spurð hvaðan nafnið Mojfríður kemur stendur ekki á svörum. „Ég heyrði þetta nafn hérna í Noregi en þetta er gamalt víkinganafn og þýðir meyjan fríð eins og Norðmenn skrifa það. Mér fannst skemmtilegt að nota það beint og kalla konuna Mojfríði en ekki Meyfríði, því hin útgáfan fannst mér fyndnari og ég vildi hafa léttleika í bókinni. Nafnið kom fyrst og svo kom persónan sem fylgdi þessu moji mínu.“

Byrjaði rithöfundaferilinn ung að árum
Marta byrjaði ung að semja sögur: „Ég man eftir mér skrifandi þegar ég var aðeins sjö, átta ára gömul með litlu gormabókina mína að skálda eitthvað og lesa upp fyrir mömmu mína. Þetta er eiginleiki sem ég finn að eru að taka meira pláss í lífi mínu núna því mér finnst gaman að skrifa.“

Marta byrjaði fyrst að skrifa fyrir aðra þegar hún sá um viðtalsþætti hjá Víkurfréttum þar sem hún leitaði uppi hvunndagshetjur og gerði þeim skil í blaðinu undir Lífið í bænum sem eflaust margir muna eftir.
„Það gaf mér heilmikið þegar fólk út í bæ fór að hafa orð á því við mig hvað þetta viðtal eða hitt var gott, hvað það var gaman að lesa það sem ég skrifaði.“

Fer í skrifflæði
Marta skipuleggur sig vel þegar hún er að skrifa. Hún byrjar daginn snemma, fer í göngutúr, síðan heim og dansar og gerir jóga – svo sest hún niður við tölvuna.

„Þá byrjar flæðið og það er mjög spennandi fyrir mig. Mér finnst best að vakna eldsnemma,  um sexleytið, en ég vinn best á morgnana og fram yfir hádegið. Þetta eru svona fimm, sex tímar sem ég er í nokkurs konar skrifflæði en svo er eins og skrúfað sé fyrir og ég tæmist. Það gefur mér heilmikið að skrifa, ég finn hvernig sköpunarkraftur minn fær útrás. Bækurnar mínar eru málverkin mín.“

Marta hefur ekki setið auðum höndum upp á síðkastið en hún lauk við aðra skáldsögu síðasta sumar sem á eftir að koma út. Síðastliðið vor hreinskrifaði Marta aðra bók og endurbætti en hún byrjaði á þeirri bók ein undir jökli sumarið 2016. Sú bók fjallar um hugþjálfun.

„Það er alltaf langur ferill að skrifa og svo að koma bókinni út. Þegar ég er búin að skrifa bók þá legg ég henni, fer að gera eitthvað annað í einhverjar vikur, svo hreinskrifa ég bókina og þá getur hún breyst eitthvað.“

Tilheyra hinum íslenska ættbálki
Marta og Friðrik hafa notið sín í Noregi og segir Marta Norðmenn vera ansi líka Íslendingum á margan hátt. Hún segir samfélagið vera sanngjarnt og allir vilja öllum vel, en það var aldrei stefnan að setjast að í Noregi.

„Við hjónin ætluðum aldrei að setjast hér að til frambúðar, það var alltaf meiningin að snúa aftur heim til Íslands einn daginn þegar okkur fannst við vera búin að upplifa nóg og læra margt nýtt. Það er hollt að prófa að búa í öðru landi og við sjáum það einnig sem ávinning fyrir Ísland þegar við snúum heim aftur með allan þann andlega fjársjóð sem við höfum safnað hérna. Ísland er auðvitað alltaf besta landið, hér er besta náttúran og besta fólkið – dálítið villt og ótamið en umfram allt býr skapandi og skemmtilegt fólk heima. Við tilheyrum hinum íslenska ættbálki og það togar okkur heim að vera aftur nálægt fjölskyldu okkar og góðum vinum. Við flytjum heim í vor og erum að ákveða þessa dagana hvar við viljum búa á Íslandi.“

Öllum boðið í útgáfuhóf
Þann 15. Febrúar nk. verður allsherjar útgáfuhóf í tilefni útgáfu bókarinnar Mojfríður einkaspæjari. Mörtu datt strax í hug að blása til veislu í Bókasafni Reykjanesbæjar en hvers vegna þar?

„Vegna þess að ég vildi koma heim í gamla bæinn minn og fagna þessari bókaútgáfu með fólki af Suðurnesjum fyrst og fremst. Svo hafði ég, eins og fleiri, tekið eftir því að Bókasafnið í Reykjanesbæ býður upp á framúrskarandi menningarstarf. Á meðan einhverjir tala um að bækur séu að verða úreltar þá réttir þetta bókasafn úr bakinu og opnar fleiri víddir í rekstri þess. Það vekur athygli og áhuga minn. Þarna starfar fólk sem greinilega veit að við þurfum að njóta þess að halda áfram að lesa bækur og ekki bara til þess að styrkja okkur sem manneskjur heldur einnig til þess að styrkja málkennd okkar sem tölum íslensku. Þetta er stórmerkilegt tungumál sem norsku víkingarnir töluðu og tóku með sér til Íslands á sínum tíma og enn er íslensk tunga varðveitt á þessari litlu eyju, Íslandi. Bækur auðga líf okkar. Það er svo notalegt að lesa í bók úr pappír, ekkert róar mann meira t.d. í sumarbústað, en að lesa góða bók eða vera heima uppi í sófa og njóta þess að svífa inn í ímyndaðan söguheim og verða fyrir góðri upplifun. Mér sjálfri finnst æðislegt að enda daginn á góðri bók uppi í rúmi,“ segir Marta að lokum.

Útgáfuhófið verður í Bókasafni Reykjanesbæjar, í kvöld, fimmtudaginn 15. febrúar og hefst klukkan 20. Húsið opnar klukkan 19.30 og boðið verður upp á kaffi og konfekt á meðan birgðir endast.